06.05.1949
Efri deild: 98. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1689 í B-deild Alþingistíðinda. (2599)

100. mál, jeppabifreiðar

Björn Kristjánsson:

Herra forseti. Landbn. hefur nú lagt hér fram brtt. við frv., og vil ég segja, að ég tel þær vera til bóta, nema e.t.v. bráðabirgðaákvæðið. Í brtt. við 3. gr. hefur n. lagt til, að 20% af jeppainnflutningnum verði hægt að úthluta til annarra, en bænda og þeirra aðila, sem taldir eru upp í 3. gr. frv. Ég tel þetta vera til mikilla bóta og vænti þess, að sú n., sem væntanlega verður skipuð verði frv. þetta samþ., muni fyrst og fremst eftir því, að það er bændunum sjálfum jafnvel meiri þörf, að héraðslæknar þeirra í víðlendum sveitahéruðum eigi bíl til umráða, en nokkurn tíma bændurnir sjálfir. Og ég treysti því, að sú n. muni skilja þetta og setja þá ekki hjá við úthlutun á þeim 1/5 af jeppainnflutningnum, sem úthluta má til annarra, en bænda. Ég er því ánægður með þessa brtt., og sé brtt mín borin upp á undan till. n., mun ég taka hana aftur til 3. umr., þar til ég hef séð, hvort þessi till. n. verður samþ. En komi till. n. fyrr til atkvæða, mun ég haga mér eftir því, hvernig fer um hana.

Ég tel, að þessi hluti, sem úthluta má til annarra en bænda, sé fullstór. Ég býst við, að þeir héraðslæknar í landinu, sem kæmu til með að öðlast rétt samkv. þessum lögum, séu örfáir og einnig aðrir aðilar, sem ég veit varla, hverjir ættu að vera. Ég hefði getað fallizt á, að úthluta mætti 15% til annarra en bænda, en um þetta geri ég engan ágreining.

Bráðabirgðaákvæðið er ég ekki fullkomlega ánægður með. Þar sem gera má ráð fyrir, að jeppainnflutningur á þessu ári a.m.k. verði mjög takmarkaður, finnst mér þetta ákvæði nokkuð varhugavert, þar sem þessi innflutningur er fyrst og fremst ætlaður til landbúnaðarþarfa. Mér finnst, að ákvæðið hefði mátt standa, ef í upphafi gr. hefði staðið: Þeir bændur — en ekki „Þeir aðilar“.

Ég mun svo ekki fara um þetta fleiri orðum að sinni.