16.12.1948
Neðri deild: 41. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 91 í B-deild Alþingistíðinda. (265)

107. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Á undanförnum dögum og vikum hefur Alþingi haft til meðferðar frv. til l. um aðstoð til útvegsmanna, er stunduðu síldveiðar sumarið 1948. Þetta frv. hefur nú hlotið staðfestingu sem l. nr. 85 1948. Ríkisstj. var ljóst, að meira þyrfti að gera en þessi l. bjóða, enda hafði hún lýst yfir við umr. um málið, að það væri ekki nema einn liður í því, sem nauðsynlegt væri til aðstoðar útveginum, og að von væri á öðru frv. í því sambandi. Það var einnig vitað, að nú um áramótin rennur út ábyrgð sú, sem ríkissjóður ber á verði sjávarútvegsafurða eftir l. nr. 28 1947, en hins vegar augljóst, að útvegurinn færi ekki á stað á komandi vertíð nema fá einhverja tryggingu fyrir framleiðslukostnaði. Ríkisstj. lét því trúnaðarmenn sína athuga, að fengnum skýrslum frá útvegsmönnum, hvort framleiðslukostnaðurinn hefði breytzt frá síðasta ári og hvaða leiðir væru líklegastar til úrbóta. Niðurstaðan af þessum athugunum trúnaðarmanna stj. urðu þær hvað snertir rekstrarkostnað útgerðarinnar, að á honum hefðu orðið litlar breytingar, þar sem á annað borð um sæmilega veiði var að ræða. Hins vegar kom það skýrt í ljós, sem vitað var, að þeir útvegsmenn, er gerðu út á síldveiðar s.l. sumar, eru skuldunum fjötraðir og fáir þeirra eiga fyrir skuldum, og heildarútkoman var sú, að skuldir þeirra væru samanlagt 25 millj. fram yfir allar eignir. Það lætur að líkum, að þessi hali er þungur að veifa fyrir útvegsmenn, og sýnir, hver nauðsyn það er, að gerðar séu ráðstafanir til þess, að skuldir útvegsmanna verði viðráðanlegri í framtíðinni. Úrlausnarefnið var því að laga úr sér genginn fjárhag útgerðarinnar og tryggja rekstur, sem gæti borið útgerðarkostnaðinn, því að öllum er ljóst, að undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar, sem aflar henni gjaldeyris, verður að halda gangandi. Hins vegar hlaut ríkisstj. að líta á það, að ekki mátti binda ríkissjóði þyngri bagga en hann gæti staðið undir, því að litill stuðningur væri það fyrir útvegsmenn að heita stuðningi, sem ekki væri hægt að standa við.

Bátaútvegsmenn höfðu lagt fram till., og var í þeim drepið á ábyrgðarverð og svo nefnt tvöfalt gengi og auk þess, að útvegsmenn fengju gjaldeyri til ráðstöfunar. Eftir mjög nákvæma athugun hvað snerti tvöfalt gengi og afhendingu gjaldeyris til útvegsmanna gat stj. ekki orðið sammála um þær till., en til þess lágu margar ástæður, sem ég tel ekki þörf að rekja hér. Það varð því að finna aðrar leiðir, og var sú tekin, sem mörkuð var með l. nr. 85 1948. Í þeim l. eru tvö merkileg nýmæli, annað er ákvörðun um 6 millj. kr. framlag til að innleysa lögveð og sjóveð af hinum skuldum vöfðu bátum, en hitt er ákvæðið um greiðslufrest fyrir útveginn til 1. júlí. Þrátt fyrir þessi nýmæli var stj. ljóst, eins og tekið hefur verið fram, að meira þurfti að gera. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er framhaldið og er lagt fram til að reyna að tryggja atvinnurekstur landsmanna og halda niðri verðbólgu og vísitölu án þess að rýra lífskjör almennings, eftir því sem mögulegt er.

I. kafli frv. er í raun og veru bara framlenging á ábyrgðarverði á sjávarafurðum, sem ákveðið var með l. nr. 128 1947, en fellur úr gildi nú um áramótin samkvæmt þeim l. Rökin fyrir því, að stj. sá sér ekki fært að ábyrgjast hærra verð, eru í fyrsta lagi þau, að framleiðslukostnaður er ekki talinn hafa hækkað, en auk þess væri það lítils virði fyrir útvegsmenn að fá loforð um hærra verð, ef ekki yrði svo hægt að standa við þær skuldbindingar. Hins vegar vill ríkisstj. gera allt, sem í hennar valdi stendur, til að bæta úr því fjárhagsöngþveiti, sem orðið hefur vegna aflaleysisins á síðustu síldarvertíð. Í þessu sambandi skal ég geta þess, að ríkisstj. er ákveðin í að leggja fram nú á þessu þingi frv. til l. um aflatryggingasjóð, enda var svo ákveðið með l., að helmingur af þeim tekjum, sem ríkið fengi með eignaaukaskattinum, færi í þennan sjóð. Fjmrh. hefur þegar látið gera frumdrög að þessu frv., en ekki er ákveðið, hvenær það verður lagt fram. Með slíkum sjóð ætti að vera hægara að ráða fram úr örðugleikum, þegar aflaleysi herjar þjóðina. — Ég sé ekki ástæðu til að ræða efni I. kafla frv. nánar, því að það er öllum þm. kunnugt.****

Þá vil ég víkja að II. kafla frv., en í honum eru ráðstafanir til aðstoðar þeim, sem síldveiðar hafa stundað á tímabilinu 1945–48. Þar er m.a. farið fram á heimild fyrir ríkisstj. til þess að losa verulega á skuldaklafa síldarútvegsmanna. Í fyrsta lagi er heimild til að gefa eftir hin innleystu lögveð og sjóveð, það er að segja þær 6 millj., sem veittar voru til innlausnar þessum veðum með l. nr. 85 1948, og sömuleiðis uppgjöf á lánum samkv. 2. mgr. 2. gr. sömu laga, en auk þess uppgjöf á lánum, sem síldarútvegsmönnum voru veitt úr ríkissjóði vegna aflabrests á sumarsíldveiðum 1945 og 1947. Um skilyrði fyrir uppgjöf á þessum skuldum og kröfum er rætt í 14. gr. Þar er gert ráð fyrir, að skilanefnd, sem um getur í 5. gr. l. nr. 85 1948, hafi úrskurðarvald um það, hvort skilyrðum sé fullnægt, en þó vænzt, að öll skuldaskil, sem þetta varða, séu gerð með frjálsum samningum. Hins vegar þótti nauðsynlegt að hafa ákvæði um lögþvinguð skuldaskil, ef samningar tækjust ekki milli útvegsmanna og skilanefndar, þó að ríkisstj. óski, að til þess þurfi ekki að koma, en taldi hins vegar óviturlegt að reikna ekki með þeim möguleika. Ég held svo, að þessi kafli frv. þurfi ekki nánari skýringar við.

Þá er III. kafli, en hann fjallar um fjáröflunarleiðir, til þess að hægt verði að standa undir þeim skuldbindingum, sem gert er ráð fyrir í frv. Það þótti rétt af mörgum ástæðum að stofna sérstakan sjóð, í fyrsta lagi til að styrkja bátaútveginn og standa straum af greiðslum vegna ábyrgðar ríkisins og í öðru lagi til að halda niðri vöruverði á nauðsynjavörum almennings í landinu. Menn tala oft um það, hversu mjög útgjöld ríkisins séu aukin frá ári til árs, — og það er vitanlega rétt, — en hitt verður þá líka að athuga, að ríkið hefur mörg undanfarin ár tekið á sig skuldbindingar, sem valda stórum fjárútlátum, er miða að því að reyna að halda við lífskjörum fólksins í landinu. Eftir líkum má telja, að sjóður í þessu skyni þyrfti að vera 70 millj. kr., og er þá miðað við þá reynslu, sem fengizt hefur á árinu 1948. Þetta verður sjálfsagt aldrei áætlað alveg nákvæmlega, en reynslan bendir þó ákveðið til, að þessi tala megi alls ekki lægri vera. Það þótti því sjálfsagt að tryggja, að þessi sjóður gæti fengið þær tekjur, er samtals næmu þessum 70 millj. kr. Hv. þm. er það vel kunnugt, hvernig á síðasta fjárlagafrv. er gert ráð fyrir 33 millj. kr.fram yfir rekstrarútgjöld. Þó hefur hæstv. fjmrh. boðað, að hann óskaði eftir löggjöf um, að tekjur væru fengnar með tvöföldun á söluskattinum. Það er því fyrst og fremst — þegar búið er að ákveða dýrtíðarsjóðinn — lagt til, að söluskatturinn verði tvöfaldaður í samræmi við yfirlýsingu hæstv. fjmrh. og áætlun hans um tekjur af söluskattinum. Þó er gert ráð fyrir, að hann verði ekki tvöfaldaður á nákvæmlega sama hátt, á sumt er lagt meira en áður. Hann hækkar þannig mest á heildsölu, en minna á smásölu, og á annarri sölu hækkar hann í 3% í stað 11/2% áður. Um söluskattinn almennt er það að segja, að sitthvað má að honum finna, en hann hefur þó ýmsa kosti í framkvæmd, og eitt er víst, að Íslendingar eru ekki eina þjóðin, sem fer þessa leið til fjáröflunar, það gera margar aðrar þjóðir, og ekki sízt stórþjóðir eins og Bandaríkin og Sovétríkin. — Ég tel ekki ástæðu til að fjölyrða um söluskattinn og hækkun á honum, þar sem þm. getur ekki komið sú hækkun neitt á óvart; hún var, eins og ég tók fram áðan, boðuð af hæstv. fjmrh., er hann lagði fram fjárlagafrv. Ég vildi aðeins geta þess, að svolítið meira er undanþegið söluskattinum en áður. En í heild er áætlað, að skatturinn nemi 34 millj. kr. í stað 17 áður.

Þá er lagt til, að af venjulegum tolltekjum séu 22 millj. færðar yfir til dýrtíðarsjóðs. Það er byggt á þeim rökum, að þessi hækkun var lögð á 1947 til þess einmitt að standa undir ábyrgðarverði og öðrum byrðum, sem er ætlazt til, að dýrtíðarsjóður geri.

Þá er í 29. og 30. gr. lagt til, að aflað sé tekna með nýju móti. Til dæmis er lagt til í a-lið 29. gr., að 100% séu innheimt af gjaldeyrisleyfum fyrir kvikmyndum, og er sá tekjuliður áætlaður 1 millj. kr. Í b-lið er gert ráð fyrir því, að af gjaldeyrisleyfum til utanferða, öðrum en leyfum til námsmanna og sjúklinga, séu greidd 75%, og er það áætlað 3 millj. kr. Í c-lið 50% af leyfisfjárhæð innflutningsleyfa fyrir bílum, og er áætlað, að sá liður nemi um 4 millj. kr. Enn fremur í c-lið af innflutningsleyfum fyrir rafmagnstækjum til heimilisnota 100%, nema af eldavélum og þvottavélum 50%, — og er það áætlað 1 milljón. Í 30. gr. er svo gjald af matsverði bifreiða, sem ganga kaupum og sölum innanlands, en sá liður er áætlaður 5 milljónir.

Ég skal nú aðeins víkja örfáum orðum að hverjum þessara liða fyrir sig, sem valdir eru með það fyrir augum, að þeir verði fastur tekjustofn og komi ekki niður á brýnustu nauðsynjum almennings í landinu, heldur fyrst og fremst á þeim, sem rifust hafa fjárráðin. — Kvikmyndaleyfisfjárskatturinn er þannig ekki óeðlilegur, jafnvel þó eitthvað kynni að hækka aðgangseyrir að kvikmyndahúsunum, því að hann er nú mjög lágur í samanburði við annað, eins og t.d. aðgangseyri í leikhús eða á hljómleika. — Skatturinn á gjaldeyrisleyfum til utanferða er miðaður við það, að allur fjöldinn af þeim, sem fara til útlanda, eru venjulega menn, sem hafa mjög rúm fjárráð; og því er nú svo háttað, að gengi á íslenzku krónunni er svo hagstætt, að þeir menn verða aðnjótandi hreinna fríðinda, sem fá slíkan gjaldeyri. Erlendis getur þeim orðið svo miklu meira úr hverri íslenzkri krónu, að því hefur jafnvel verið haldið fram í gamni og alvöru, að það væri ódýrara að ferðast til útlanda sér til skemmtunar heldur en innanlands. — Þótt leyfisfjárhæð af innflutningsleyfum fyrir bílum hækki um 50%, kaupa menn með glöðu geði bíla á svörtum markaði fyrir langtum hærra verð. Og það sýnist því ekki óeðlilegt, að slíkt leyfisfjárgjald sé greitt af þeim, sem flytja bílana inn og fá þá þó betri og ódýrari heldur en á svörtum markaði. — Um rafmagnsvörurnar er þess að geta, að þær eru líka að nokkru leyti á svörtum markaði, og fjöldinn allur vill með gleði greiða t.d. ísskápa með tvö- til þrefalt meira verði, en þeir kosta raunverulega.

Í 30. gr. er gert ráð fyrir gjaldi af kaupum og sölum bifreiða innanlands. Árið 1947 gengu 2.200 bílar hér kaupum og sölum innanlands með uppsprengdu verði, og það er vissulega ekki óeðlilegt, að tollur sé lagður á þessi viðskipti — og þá miðað við alþekkt svartamarkaðsverð. Það er ekkert launungarmál, hvað þessir bílar eru seldir, um það geta matsmenn komizt að öruggri niðurstöðu og lagt á það verð 20%.

Með þessu móti er gert ráð fyrir, að inn komi í dýrtíðarsjóð fyrir söluskattinn 34 millj., í tollum 22 millj., í kvikmyndaleyfisgjöldum 1 millj., í skatti af gjaldeyrisleyfum til utanferða 3 millj., í gjaldi af innflutningsleyfum fyrir bifreiðar 4 millj., í gjöldum af innflutningsleyfum fyrir raftækjum 1 millj. kr., í gjöldum af matsverði bifreiða, sem keyptar eru og seldar innanlands, 5 millj. kr., — eða samtals 70 millj. kr., sem ríkissjóður þarf til að geta staðið straum af niðurgreiðslum og ábyrgðarverði vegna dýrtíðarinnar. Ég vil svo að lokum benda hv. þm. á, að það hafa slæðzt prentvillur inn í frv., sem sú n., sem það fær væntanlega til meðferðar, þarf sérstaklega að athuga. Í 18. gr. í 2. línu stendur „veði“ — á að vera „verði“. Í 23. gr. er vísað til 2. gr. í stað 21. gr.

Þetta frv. er á þann veg, að það þarf ekki mikilla skýringa við. Menn kannast við ábyrgðina síðan í fyrra. Hún er nú endurtekin í I. kafla. Með þeim rökum, sem ég hef nefnt, treystir ríkisstj. sér ekki til að fara hærra með ábyrgðarverðið. Í II. kafla er fjallað um aðstoðina við útvegsmenn, og í III. kafla er fjallað um fjáröflunarleiðir. Ríkisstj. telur ómögulegt að taka með lögum að sér skuldbindingar um fjárútlát án þess að tryggja féð til þess um leið.

Þetta er tiltölulega einfalt mál, sem ég vona, að þurfi ekki lengi að vera til umræðna. Það er framhald af tilraunum ríkisstj. til þess að framkvæma þá stefnu, að halda við framleiðslunni og atvinnuvegunum og lífskjörum almennings, eftir því sem aðstæður frekast leyfa. Hvort þetta tekst, leiðir tíminn í ljós, en í þessu efni vill ríkisstj. gera það, sem hún getur.

Að lokum vil ég svo leggja til, að frv. verði vísað til hv. fjhn. að loknum umræðum, og af eðlilegum ástæðum, sem hv. þm. þekkja, þá er nauðsynlegt, að þær taki ekki of langan tíma. Þessi löggjöf verður að fást í gegn, áður en nýtt ár byrjar. Ég vænti þess, að hv. þm. skilji þetta, að þessu verður að hraða sem mest, sérstaklega vegna utanbæjarþm., sem vilja dvelja á heimilum sínum yfir hátíðina. Ég óska því eftir, að fjhn. afgreiði málið svo fljótt sem þess er kostur og að því verði hraðað svo sem unnt er.