25.04.1949
Efri deild: 88. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1770 í B-deild Alþingistíðinda. (2738)

118. mál, raforkulög

Þorsteinn Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég er nú fyrst að lesa brtt. 569, og ég vil vekja athygli hv. þdm. á því, að ég tel það óviðkunnanlegt, að þetta skilyrði yrði aðeins að vera við 4. lið, en ekki 3. lið, því að það er ekki svo mikill mismunur á smávatnsvirkjun, sem bóndi gerir, eða að setja upp stórar dieselrafstöðvar. En ef á annað borð er komið út í þetta atriði, þá hefði það átt að ná til beggja liðanna, að mér skilst, en ekki að taka annan liðinn út úr, eins og þarna er gert. Ég tel það alveg rétt, sem hv. þm. N–M. sagði, að ef áhugi er fyrir því á þingi, þá er auðvitað sótt á í gegnum fjárl. að koma þessu fram, og getur orðið að því leyti kannske enn meiri ásókn að fá mjög háar upphæðir til þess, því að margir eru munnarnir og margar sveitirnar og kjördæmin, sem þurfa þessar stöðvar, og verður áreiðanlega sótt mjög fast á á næstu fjárl. að fá fé til slíkra lána, ef farin er sú leið, sem hér er bent á í brtt. 569.