28.10.1948
Sameinað þing: 9. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 2072 í B-deild Alþingistíðinda. (2921)

Marshallaðstoðin

Sigfús Sigurhjartarson:

Tveir hv. þm., hæstv. utanrrh. og þm. Ísaf., hafa staðið hér upp til þess að gera tilraun til að afsaka fjmrh. Þeirra afsökun er þó engin afsökun. Málið liggur skýrt fyrir. Alþingi heimilar ríkisstj. að taka lán, og fjmrh. hefur lýst því yfir, að hann muni ekki taka Marshalllán, að hann muni ekki taka lán með neinum óvenjulegum kjörum. Þessi heimild er síðan notuð til þess að taka Marshalllán. M. ö. o., yfirlýsing ráðh. í embættisins nafni og hér á þingi er að engu höfð. Þetta er ósæmilegt, og það bætir málið ekki skapaðan hlut, þó að hæstv. utanrrh. fái eitt af sínum einkennilegu köstum. Ég kannast svo afar vel við þau, og ég endurtek það, að mér dettur ekki í hug að láta hann fara að yfirheyra mig um mál, sem honum kemur ekkert við, hér. (Dómsmrh.: Ég bjóst við því.) Ég endurtek það, hans er valdið. Hann þekkir mig það vel, að hann veit, að ég muni ekki láta fara að yfirheyra mig um mál, sem ég þarf honum engan reikningsskap fyrir að standa. Hafi fyrirtækið brotið lög, þá segi ég, komi hann og kæri. Honum verður svarað.