14.05.1949
Efri deild: 109. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1877 í B-deild Alþingistíðinda. (3069)

120. mál, menntaskólar

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Hv. frsm. meiri hl. rakti aðdraganda þessa máls og meðferð á því í n. En hún var í skemmstu máli sú, að ég fékk boð frá formanni meiri hl. menntmn., sem er veikur, að hann óskaði, að ég sem ritari n. beitti mér fyrir því að boða fund til þess að afgr. málið. Ég varð samdægurs við þessari ósk og kallaði n. saman. Kom þá fram eindregin ósk frá einum nm. um það að leita álits og umsagnar tveggja sérfræðinga, fræðslumálastjóra og rektors Menntaskólans í Rvík. Ég hef ekki vitað, að nokkur n. synji slíkrar óskar, og taldi því ekki fært að neita. En þegar ég bar þetta atriði undir atkv., hafði ekki nema annar þrek til að standa við ósk síná, og þannig var samþ. að leita umsagnar fræðslumálastjóra og rektors með því að fá þá til viðtals við n. strax kl. 10 árdegis morguninn eftir. Sá, sem mótatkv. greiddi, lét sem hann vildi ekki doka við eftir niðurstöðum þessa viðtals, skrifaði þegar nál., og meiri hl. gaf það strax út og vildi ekki á rök hlýða. Aftur á móti gaf hv. 2. þm. Árn. vilyrði fyrir að mæta á nefndarfundi og hlýða á rök fræðslumálastjóra og rektors, en efndi það ekki morguninn eftir. Fyrir okkur hv. 8. landsk. vakti ekki að þvæla þetta mál eða draga það á langinn. Við gengum frá okkar nál. strax og við höfðum náð tali af fræðslumálastjóra og rektor.

Nú er niðurstaðan af viðtali við þessa mætu menn sú, að báðir létu í ljós, að þeir teldu þetta frv. ekki stefna til réttrar áttar. Fræðslumálastjóri taldi, að það væri frávik frá hinni nýju skólalöggjöf, og væri hann þess vegna andvígur málinu. Hann taldi fráleitt með öllu að ganga inn á nokkurt slíkt fyrirkomulag, þegar skólalöggjöfin ætti að vera komin til framkvæmda að fullu, en taldi frv. hafa ívið breytzt til bóta, frá því er það var fyrst flutt. En rektor menntaskólans kvað sig eiga langerfiðast með að sætta sig við að gera upp á milli tveggja menntaskólanna, þegar annarri stofnuninni er leyft að hafa miðskóladeild, en hinni ekki. Var eindregin ósk rektors, að flutt yrði þá till. um að jafna metin milli beggja menntaskólanna og leyfa þá Menntaskólanum í Rvík slíkt hið sama. Þetta tel ég líka svo sjálfsagðan hlut, að ekki verði staðið gegn því. Mun ég taka til athugunar, hvort ekki sé rétt að flytja brtt. í þá átt við 3. umr., ef það hefur komið í ljós, að ætlun d. sé að knýja málið fram.

Áður en ég fer lengra inn á að ræða rök þessa máls, vil ég taka fram, að ég er einn af nemendum Gagnfræðaskóla Akureyrar, þ.e.a.s. núverandi menntaskóla, og ég ann engum skóla á Íslandi meir, en þessum skóla. Það, sem ég því segi um þetta mál, stjórnast ekki af neinni óvild til þessarar stofnunar. Síður en svo. Ég mundi vilja allt fyrir skólann gera og þetta líka, ef ég heldi, að það væri honum til nokkurs góðs. En ég efast einnig mjög um það. Bæði rektor og nokkrir kennarar þessa skóla hafa átt tal við mig og reynt að sannfæra mig um nauðsyn þessa máls. En ég hef ekki getað sannfærzt af viðræðum við þessa gáfuðu menn, að þetta væri nein nauðsyn fyrir Menntaskólann á Akureyri. Ég lít á þetta sem almennt skólamál og mun túlka það út frá því einu, en af fullum velvilja og vinsemd til Menntaskólans á Akureyri.

Þetta frv. var flutt inn í þingið snemma í vetur af hv. þm. Ak., hv. 2. þm. Eyf., hv. þm. A-Húnv., hv. 2. þm. N-M., hv. 1. þm. Skagf. og hv. 2. þm. Skagf. Þeir fluttu. frv. í því formi, að Menntaskólanum á Akureyri skyldi, meðan húsrými leyfði að dómi skólastjóra þar, leyft að starfa áfram með sama fyrirkomulagi og hann starfaði fyrir gildistöku þessara laga, að því viðbættu, að landspróf gilti til inntöku í 3. bekk. M.ö.o., Menntaskólanum á Akureyri skyldi heimilað að starfa áfram í því gamla formi, sem var fyrir starfi hans, áður en nýja skólalöggjöfin gekk í gildi, eða sem sameinaður gagnfræðaskóli og menntaskóli með þriggja ára gagnfræðadeild og þriggja ára lærdómsdeild. Það var sem sé til þess mælzt, að skálinn fengi að starfa áfram gersamlega utan og ofan við hið nýja skólakerfi landsins, sem lögleitt var með skólalöggjöfinni 1946. Það var leitað umsagna um frv. í þessari mynd, og þá auðvitað þeirra, sem hafa með menntaskóla landsins að gera. Fræðslumálastjóri var spurður, hvernig honum litist á að taka þennan skóla úr skólakerfinu. Hann svaraði, að honum litist hvergi nærri á það. Mþn. í skólamálum, sem hafði það trúnaðarstarf á hendi fyrir fyrrv. stj. að semja skólalöggjöf, tjáði sína skoðun einróma á þá lund, að þeim litist ekki á frv. í þeirri mynd og beittu sér gegn því, að það yrði samþ. Fleiri aðilar voru spurðir. En hver, sem spurður var, svaraði á sömu lund: Þetta var talið heldur til að spilla en til bóta. Frv. fékk því engan byr, þegar það kom til menntmn. Nd.. ekki einu sinni í þeirri n. Var þá farið inn á þá braut að breyta frv. og á þann veg, að meðan húsrými leyfði í Menntaskóla Akureyrar, skyldi skólanum leyft að starfrækja miðskóladeild með því skilyrði, að lærdómsdeild skólans breytti þá starfsháttum sínum í samræmi við l. um menntaskóla frá 1946. Er það ekki nokkuð furðulegt, að það þurfi að ganga til kaupskapar við menntastofnun um það, hvort hún beygi sig undir lög landsins, að því tilskildu, að henni sé veitt undanþága í tvö ár? Það ætti að virðast nokkuð sjálfsagður hlutur, að þegar mþn. er búin að ganga frá löggjöfinni um nýtt skólakerfi, leggja í það margra ára starf með samanburði við skólakerfi annarra þjóða og er búin að þaulkynna sér skólamálahugsjónir sinnar eigin þjóðar og bera síðan fram till. á Alþ. og fá þær samþ. og lögfestar, þá skuli ekki þegar í stað, áður en reynsla er komin á þetta skólamálakerfi, koma fram tillögur í þá átt, að gera breyt. og veita undanþágur til þess að ónýta vissa þætti kerfisins, áður en reynslan kemst að, og verði svo löggjöfin hvorki fugl né fiskur. Slíkt virðist hin mesta fjarstæða. Hverjar voru nú höfuðbreyt. í íslenzkum skólamálum með skólalöggjöfinni 1946? Að menntastofnunum þjóðarinnar yrði skipað í samfellt kerfi. Barnaskólastigið skyldi ná yfir sex ár, unglingaskólastigið yfir fjögur ár. Menntaskólastigið skyldi ná yfir fjögur ár. Síðan kom efst háskólastigið. Ákveðið var í l., að að því skyldi stefnt að koma þessu nýja skólakerfi til framkvæmda á árabilinu frá 1946–51. Þá átti það helzt að vera komið að fullu til framkvæmda. Nú sjá menn það, að með þessu frv. er farið út á þá braut að víkja frá því ákvæði skólalöggjafarinnar nýju, að gagnfræðaskólastigið og menntaskólastigið skuli vera algerlega aðskilin skólastig, sem taka við hvort af öðru. Úr barnaskólanum eiga nú að koma 12 ára gömul börn, sem eiga rétt til að sitja í 1. bekk gagnfræðaskóla, eru þar skólaskyld næstu tvö ár og eiga þá að ljúka svokölluðu unglingaprófi. Þegar nemendur hafa stundað nám í gagnfræðaskóla hinn þriðja vetur, eiga þeir að ljúka miðskólaprófi. Jafnframt taka þeir landspróf í vissum greinum, og fái þeir meðaleinkunnina sex hið minnsta, öðlast þeir rétt til að stunda nám í kennaraskóla eða menntaskóla. En þegar þessu prófi er lokið, á að vera sem efsti bekkur í gagnfræðaskólum fjórði bekkurinn, þar sem frjálst og praktískt nám sé stundað fyrir þá, sem ekki ætla sér að halda áfram langskólanámi. Með þessari aðgreiningu milli gagnfræðastigsins og menntaskólastigsins var það ákveðið að gera þá höfuðbreyt. á menntaskólum landsins að leggja niður gagnfræðadeildirnar, sem störfuðu við þá, þriggja ára deildina við Menntaskólann á Akureyri og tveggja ára deildina við skólann í Reykjavík. Skyldi þá hvor skóli verða fjögurra ára menntaskóli. Megintilgangurinn með þessu var sá, að báðir menntaskólarnir gætu tekið við nemendum, sem hefðu lokið miðskólaprófi, með meðaleinkunninni 6 sem lágmarki, hvaðan sem þeir koma af landinu, úr héraðsskólum og gagnfræðaskólum, og skyldu þeir allir hafa jafna aðstöðu til að setjast í menntaskóla. Þetta var greinilega stórt spor í réttlætisátt og fagnað um allt land af öllum skólamönnum. Reykjavíkurunglingarnir höfðu haft alveg sérstök forréttindi til þess að geta notið sín og farið strax inn í 1. bekk menntaskólans og fullskipað bekki gagnfræðadeildar. Einnig var þessu þannig háttað á Akureyri. Svo komst ekki nema einn og einn nemandi af landsbyggðinni í 4. bekk menntaskólanna, sem þá voru. En með því að leggja gagnfræðadeildirnar niður á báðum stöðum var leikurinn gerður jafn. Þá var nemendum úr miðskólaprófi í gagnfræðaskóla í Reykjavík og Akureyri engin forréttindi veitt yfir þá, sem luku miðskólaprófi á Ísafirði, Seyðisfirði eða hvar sem var í sveitum landsins, þar sem þeir gátu gengið undir miðskólapróf í héraðsskólum. Hvorir tveggja voru settir hlið við hlið í fyrsta bekk menntaskólanna. Nú á að fara að víkja frá þessu aftur og stíga sporið aftur á bak, taka upp gagnfræðadeild við annan menntaskólann og fullskipa í neðstu bekkina, svo að ekki geti orðið nema hrafl utan af landi þó að menn ljúki miðskólaprófi, vegna þeirra, sem eru búnir að hreiðra um sig í gagnfræðadeild menntaskólans. Þessi breyt. mundi því vekja óánægju um allt land meðal allra þeirra skólamanna, sem urðu glaðir við það jafnrétti, sem skólalöggjöfin nýja veitti. Að þessu leyti snertir þetta mál ekki Akureyri eingöngu, heldur allt landið.

Menn hafa yfirleitt viljað komast hjá að ræða þetta sem skólamál, heldur sem velgerðarmál við Menntaskólann á Akureyri og sem húsnæðismál. Ég skal þá minnast á það sem húsnæðismál. Þar er mergur málsins sá, að það verði að heimila Menntaskólanum á Akureyri að hafa gagnfræðadeild, því að öðrum kosti verði talsvert mikið húsnæði ónotað í gamla menntaskólanum. Að vísu viðurkenna menn, að ef þetta verði gert, þurfi að breyta heimavistarherbergjum í gamla menntaskólahúsinu í kennslustofur, og menn gera ákaflega lítið úr, að það kosti neitt verulegt. Ég þekki þessa byggingu og hef starfað heilt sumar við að breyta henni. Og ég þori að segja, að það mundi kosta marga tugi þúsunda, ef ekki hundruð þúsunda, að breyta heimavistarhúsnæðinu í báðum álmum í kennslustofur. En þannig stendur á því, að heimavistir losna í menntaskólanum, að stórt heimavistarhús er í byggingu. Þó segja menn: Annar þátturinn í þessu sem húsnæðismáli er sá, að það þarf að nota hina nýju heimavistarbyggingu fyrir fólk víðs vegar að úr Norðlendingafjórðungi og víðs vegar að af landinu og ekki sé útlit fyrir, að nýja heimavistarhúsið verði fullnotað, ef eingöngu starfi lærdómsdeild skólans. Þá hafa menn dregið fram þriðja atriðið í þessu máli sem húsnæðismáli, að ef gagnfræðadeildin hætti að starfa, verði aðsókn að Gagnfræðaskóla Akureyrar svo mikil, að húsnæði þess skóla standist ekki við. Þetta væru rök, ef þau styddust við staðreyndir. En það gera þau því miður ekki. Ég vil þá fyrst taka húsnæðismál Gagnfræðaskóla Akureyrar. Það er upplýst, að í gagnfræðadeildum Menntaskólans á Akureyri eru nú 110 nemendur. Og nú er spurningin: Getur Gagnfræðaskóli Akureyrar tekið við 110 nemendum í viðbót? Um þetta liggja fyrir þær upplýsingar frá skólastjóra þess skóla, að nú séu þar 260 nemendur og að hann geti tekið við miklu fleiri en 110 nemendum, án þess að þurfa þó að tvísetja í nokkra kennslustofu. M.ö.o., það er ekki rétt, að grípa þurfi til þess að stofna gagnfræðadeild í Menntaskólanum á Akureyri af því, að Gagnfræðaskólinn þar geti ekki tekið við nemendum. Það er líka rangt, að ráðast þurfi í kostnaðarsama breytingu á gamla menntaskólahúsinu með því að breyta heimavist í kennslustofur af því, að húsnæðisskortur sé hjá hinum skólanum.

En eru þá líkur til, að húsrúm í gamla Menntaskólanum á Akureyri verði ónotað um langa framtíð, verði þar ekki gagnfræðadeild? Ég hygg, að því fari fjarri, eftir því sem ég þekki til. Í fyrsta lagi er það, að meðan þrengslin voru mest í Menntaskóla Akureyrar, varð að gripa til þess að innrétta í kjallarahæð hússins 2–3 kennslustofur. Auðvitað ætti út frá heilbrigðisástæðum að rýmka undir eins nokkuð til og flytja úr kjallaranum og á efri hæð hússins. Og ef það er hægt nú, væri það vel. Það er ekki forsvaranlegt skólahúsnæði, skólastofurnar í kjallarahæð hússins. Ætla mætti þá söfnunum, sem eru stór og góð, heldur rúm í kjallarahæð hússins. Væri það mikil breyt. til bóta um notkun skólahúsrýmisins. En svo er annað. Þó að gagnfræðadeildin leggist niður við Menntaskólann á Akureyri, verður nóg um nemendur, því að þá fer að streyma í hann fólk, sem útskrifast úr hinum nýja gagnfræðaskóla Húsavíkur, gagnfræðaskóla Siglufjarðar, unglingaskóla Ólafsfjarðar og Dalvíkur og gagnfræðaskóla Sauðárkróks og héraðsskólans á Reykjum í Hrútafirði. Þessi nemendafjöldi mundi vaxa mikið með hverju ári, sem líður. Og hlutverkið, sem menntaskólinn á að rækja, er einmitt það að taka við nemendum á menntaskólastiginu og hafa húsrými til þess, en ekki ná í unglinga á gagnfræðaskólastiginu, sem eiga kost á að fá nám í ýmsum öðrum skólum. Það er þess vegna alveg rangt stefnt með þessu frv., bara út frá þessu húsnæðismáli. Það er sem sé ekki neinn fótur fyrir því, að hægt sé að leysa málið sem húsnæðismál, af því að það er laust húsrými í báðum skólunum, Menntaskólanum og Gagnfræðaskólanum á Akureyri. Og það er auðskilið mál, að þetta auða húsrými á að nota með því að beina unga fólkinu á gagnfræðastiginu til gagnfræðaskólans, en hinu, sem lokið hefur miðskólaprófi víðs vegar, til Menntaskóla Akureyrar og nota húsrýmið í þeirri stofnun fyrir það.

Ef nú litið er á þetta mál sem uppeldismál, sem fyrst og fremst ætti að gera, því að hér er um stórkostlegt skólamál að ræða, þá sér hver maður í hendi sér, að ef það eru gild uppeldisfræðileg rök, að heppilegra sé og líklegra til uppeldisfræðilegs árangurs að hafa menntaskólann ekki fjögurra ára, heldur sjö ára, þannig að nemendur séu frá 12 ára og upp í 20 eða 21 árs aldur, þá ætti að breyta báðum menntaskólum landsins í samræmi við þessa uppeldisfræðilegu kenningu. Það er ekkert vit í því að setja þá Menntaskólann í Reykjavík hjá. Hins vegar þarf varla skólamann til að sjá, að 12 ára börn eiga lltla félagslega samleið með og eru á allt öðru þroskastigi, en fólk frá 18 til 21 árs. Slíkur skóli er ósamstæður skóli, sem er mikill vandi að stjórna, svo að vel sé, þegar nemendahópurinn er á svo ólíku þroskastigi. Það veldur stórkostlegum uppeldislegum vandkvæðum að setja nokkurn skóla svona saman. Þar af leiðir, að það er óhyggilegt að breyta menntaskólunum í þetta horf. Það væri uppeldislegt spor aftur á bak. Það er miklu nær réttu marki uppeldisfræðilega að láta menntaskólana ekki vera lengri, en fjögurra ára skóla, eins og nýja löggjöfin ætlast til. Unglingar á gagnfræðastiginu eru það ólíkir að þroska, að gagnfræðastigið er langt um betur komið út af fyrir sig í sérstakri stofnun.

Enn fremur vil ég minnast á í sambandi við húsnæðismálið, að flm. töldu meðal þyngstu raka fyrir breytingunni, að svo mikil húsnæðisþröng væri í Gagnfræðaskólanum á Akureyri. En ástæðan til þess, að ekki væri þörf fyrir sams konar breyt. í Reykjavík, væri sú, að svo prýðilega væri séð fyrir húsnæðismálum gagnfræðaskólanna í Reykjavík. Það færi betur, að þetta byggðist á staðreyndum. En því fer fjarri. Það er ömurlegt ástand í húsnæðismálum gagnfræðaskólanna í Reykjavík. Ég hef í höndum bréf frá stjórn Landssambands framhaldsskólakennara. Þessir stjórnendur eiga heima hér í Reykjavík og eru kennarar við framhaldsskóla. Í bréfi sínu um þetta mál til menntmn. Nd. segja þeir, með leyfi hæstv. forseta: [Tilvitnunina í bréfið vantar í handrit þingskrifara.]

Menn geta því ekki snúið sannleikanum rækilegar við, en gert er í grg. flm. í samanburðinum á skólahúsnæðinu á Akureyri fyrir gagnfræðastigið og hins vegar í Reykjavík. Það er gott ástand á Akureyri, en hið ömurlegasta ástand hér í höfuðborg landsins. Ætti þá út frá þessu að setja frekar upp gagnfræðadeild við Menntaskólann í Reykjavík og bæta þannig úr því ömurlega ástandi í húsnæðismálum gagnfræðaskólanna í Reykjavík. En ég hygg, að þó að till. kæmi um að láta Menntaskólann í Reykjavík fá sams konar undanþágu, yrði það kolfellt í d., af því að það er offorsið; sem ræður afstöðu manna, en rökum vilja þeir ekki hlýða né kynna sér staðreyndir, enda er valinn sá kostur að heyra ekki staðreyndir. Þeir eru hræddir um, að þeir kynnu að sannfærast, ef þeir heyrðu þær.

Enn vil ég koma inn á eina hlið þessa máls, sem ekki er sem auvirðilegust í augum þeirra manna, sem allt miða við krónur, svo sem margir í þessari virðulegu stofnun gera. Væri líklegt, að þeir ætluðu fótum sínum forráð, ef þetta kæmi fjárhagslega óhagstætt út fyrir ríkissjóð. Ég gæti skilið, eftir annarri afstöðu þessara manna, ef þeir vildu gera breyt. á skólakerfi landsins í sparnaðarskyni. En eins og nú er háttað löggjöf í landinu, eru skólar gagnfræðastigsins kostaðir að hálfu af viðkomandi héraði og að hálfu af viðkomandi bæ að byggingar- og rekstrarkostnaði, nema kennaralaun fastra kennara að öllu leyti af ríkinu. Þannig er skiptingin að því er snertir Gagnfræðaskóla Akureyrar. En gagnfræðadeildirnar við menntaskólana í Reykjavík og á Akureyri voru kostaðar að öllu leyti af ríkinu. Og sú gagnfræðadeild, sem yrði við Menntaskólann á Akureyri, yrði að öllu leyti kostuð af ríkinu, svo að þm. eru hér að sækja um að taka meiri þátt í kostnaði slíks skólahalds, en í nokkrum öðrum kaupstað landsins, þó að hann hafi notið þeirra sérréttinda síðan 1905, að ríkið kostaði hann að öllu leyti, ekki síður en Möðruvallaskóla. En önnur héruð kosta sjálf að nokkru sína skóla. Hér er verið að taka upp ranglæti og auka útgjöld; sem ríkið var búið að losa sig við. Þetta er gert á því Alþ., þegar ríkisstj. emjar sem ámátlegast um það, að hún komi endum fjárlaganna ekki saman og verði að grípa til hvers óyndisúrræðisins eftir annað til að leggja nýja skatta á landsmenn. Ekki nóg með þetta, heldur fær ríkið meiri kostnað að því er þetta snertir. Það er nú fullskipað kennaralið við Gagnfræðaskóla Akureyrar. Ef gagnfræðadeild verður sett á stofn við Menntaskóla Akureyrar við hliðina á þessum gagnfræðaskóla, sem þar er, leiðir af því, að stórum fækkar nemendum við Gagnfræðaskóla Akureyrar. Ekki mun þó draga úr kennarakostnaði ríkisins við gagnfræðaskólann, þó að nemendaliðið skiptist frá þeim skóla yfir til annars skóla, sem hefur hærra launaða kennara. Eftir öllu þessu er hinn sárþjáði ríkissjóður að slægjast, að biðja um þá framkvæmd á þessum þætti fræðslumálanna, sem dýrust er. En það, sem verður verst þolað, er það, sem ég áðan drap á, að ríkið er að troða sér fram til þess að taka meiri þátt í kostnaði af kennslu gagnfræðastigsins á Akureyri, en nokkurs staðar annars staðar. Ég veit, að þetta spor hlýtur að leiða til þess, að hver kaupstaður, sem hefur gagnfræðaskóla á sinni könnu að hálfu á móti ríkinu, mun fara fram á það á næsta Alþ., að gagnfræðastigið verði algerlega á kostnað ríkisins þar eins og á Akureyri, hversu sárt sem fjmrh. kynni að emja og ríkisstj. að bera sig illa. Ekki er hægt að bjóða landslýðnum, að ríkið seilist eftir þessu í einum kaupstað landsins, en neiti öðrum héruðum. Hér er á stórkostlegan hátt stofnað til þeirrar áhættu, að öllum kostnaði af gagnfræðastiginu í landinu verði komið á ríkissjóð. Þeir, sem stjórna menntamálum landsins, mega ekki láta sér yfirsjást svo, að þeir geri ráðstafanir gagnvart einni menntastofnun, sem verði mjög á kostnað annarra. En það verður naumast hrakið, að það, sem kynni að verða gert fyrir Menntaskólann á Akureyri með því að samþ. þetta frv., er gert nálega til eyðileggingar á annarri menntastofnun landsins, sem sé Gagnfræðaskólans á Akureyri. Þessi orð verður auðvitað að heimfæra við staðreyndir. Þeir nemendur, sem teknir kynnu að verða úr Akureyrarkaupstað eða annars staðar inn í hina nýstofnuðu gagnfræðadeild Menntaskólans á Akureyri, væru búnir að fá sérstöðu til þess að halda áfram námi í gegnu.m þann skóla, svo framarlega sem þeir stæðust próf þar. Það mundi þykja girnilegra að fara í hann strax, en í gagnfræðaskólann við hliðina, án tillits til þess, hvor stofnunin veitti betri kennslu. Með því að koma nemendum inn í fyrsta bekk ætti að vera búið að tryggja nemendum að halda sína braut til stúdentsprófs. Þetta þýðir, að Gagnfræðaskóli Akureyrar mundi missa úrvalið úr námshæfasta unga fólkinu á Akureyri fram hjá sér inn í Menntaskóla Akureyrar. Eftir sæti gagnfræðaskólinn með hið minna námshæfa unga fólk og á að leiða það til sama prófs og úrvalsfólkið í menntaskólanum á að ganga undir. Síðan sýndi gagnfræðaskólinn lélegri próf og yrði fyrir það fordæmdur. Þarna er verið að baka þessum skóla miklu lakari aðstöðu, en nokkrum öðrum gagnfræðaskóla á landinu, því að enginn hinna hefur þá aðstöðu að hafa menntaskóla við hliðina, sem veitir sérréttindi við inngöngu í fyrsta bekk. Þetta mundi leiða til eyðileggingar á Gagnfræðaskóla Akureyrar. Og væri ég í sporum Þorsteins M. Jónssonar, mundi ég á þeirri stundu, sem frv. þetta er samþ., segja af mér. Það virðist heldur ekki fjarri þessum skólastjóra, því að hann sagði, að ef þetta yrði samþ., telji hann ekki fært að halda áfram með sérstakan skóla, heldur yrði að leggja gagnfræðaskólann niður og láta stjórna báðum stofnununum undir einum hatti, þ.e.a.s. frá menntaskólanum. Og ég held, að annað væri ekki fært. Gagnfræðaskólinn hættir þá að hafa þá aðstöðu að fá frekar þá, sem síður eru hæfir til bóklegs náms. En gagnfræðaskólinn á einnig að standa undir fleiri skyldum gagnfræðastigsins, ekki einungis bóklegri fræðslu, heldur líkamsíþróttum og verklegri kunnáttu. Auk þess sem Menntaskólinn á Akureyri hefði námshæfasta fólkið, yrði honum hlíft við því að dreifa kröftum og tíma námsfólksins milli bóklegs og verklegs náms, hefði færri námsgreinar til þess að einbeita sínum nemendum að. Ekki eru kennd kristinfræði og ekki handavinna í gagnfræðadeildinni þar, og ekkert er í þessu frv., sem bendir til, að leggja eigi þær skyldur á herðar í framtíðinni. Leikfimi hefur ekki heldur verið kennd í Menntaskólanum á Akureyri fram að síðustu árum, ef það er þá byrjað enn, vegna þess að fyrrverandi skólameistari vildi ekki verja tíma nemenda til slíks, nema útiíþrótta og sunds.

Ég held yfirleitt, að það væri gersamlega ómögulegt fyrir Gagnfræðaskóla Akureyrar að starfa við slíka aðstöðu sem hlyti að verða við hlið gagnfræðadeildar menntaskólans. Þetta finnst mér mjög alvarlegt atriði um stóra og merka stofnun með á þriðja hundrað nemenda. En þá skulum við líta á viðhorf Akureyrarbúa til þessarar breytingar. Og það er allalvarleg hlið á málinu. Efnaðri borgarar Akureyrarkaupstaðar fengju sömu aðstöðu með þessari breyt. eins og efnaðri borgarar í Rvík höfðu meðan Menntaskólinn í Rvík hafði gagnfræðadeild og ströng inntökuskilyrði. Það var keypt þekking fyrir of fjár í börn ríka fólksins, en börn fátæka fólksins fengu því ekki inngöngu. Þannig yrði þetta á Akureyri. Pyngjan yrði tekin upp hjá efnaðri borgurunum og keyptir kennarar til að liggja yfir börnunum og troða þeim inn í gagnfræðadeild menntaskólans þegar í stað. Um fátæku börnin yrði kylfa að ráða kasti, hvort þau með því að fara gegnum Gagnfræðaskóla Akureyrar og dreifa kröftunum til miklu fleiri námsgreina og með því að njóta sín ekki nægilega í hóp miklu minna gefinna barna, — kylfa að ráða kasti um það, hvort þau stæðust miðskólapróf að þremur árum liðnum. En aðstöðunni hefur verið spillt. Það er ekki demókratísk hugsun á bak við svona breytingar á löggjöfinni. Og áreiðanlegt er, að almenningur á Akureyri mun gera sér þennan meginmun fyllilega ljósan, þegar þessi l. eru komin til framkvæmda. Auk þessa, sem ég hef nefnt, er ljóst, að þeim fátækari væri ætlaður ófínni skóli, sem hefði erfiðari aðstöðu. Fína fólkið gæti keypt sín börn strax inn í skóla, sem opnaði þeim beina braut til stúdentsprófs og embættissæta í þjóðfélaginu. Og þetta skil ég, að Íhaldsflokkurinn í Ed. beiti sér fyrir. Þetta er það lýðræði, sem íhaldið alltaf vill, að útiloka alþýðuna frá menntunaraðstöðu og koma peningunum að til að afla sínum börnum menntunar. En ég get ekki skilið, hvers vegna Alþfl.-menn og Framsfl.-menn eru að gefa sig í þjónustu íhaldsins í þessu máli.

Ég held ég hafi nú gert þeim sálum, sem hér eru viðstaddar, nokkurn veginn ljóst, að hér er um hreint og beint ranglætismál að ræða gagnvart þeim fátæku, en sérréttindi handa þeim ríku. Það er verið að greiða fyrir börnum efnaðri borgara Akureyrar og bregða fæti fyrir börn hinna. Það er verið að búa til tvenns konar gagnfræðaskóla fyrir Akureyrarkaupstað. Milli þeirra verður ójafn leikur. Þetta verður vandræðamál í Akureyrarkaupstað. Auk þess sem verið er að stofna til tveggja gagnfræðaskóla á Akureyri hlið við hlið með hina ólíkustu aðstöðu, er líka verið að stofna til óvildar og rígs milli beggja menntaskólanna í landinu, þar eð þeim er ekki búin sama aðstaða. Það er mjög misráðið. Það á aldrei að breyta l. á þann hátt, að annar þeirra njóti réttinda á kostnað hins. Það var ekki alveg beiskjulaust hjá rektor Menntaskólans í Reykjavík, þegar hann sagði, að þegar Menntaskólinn í Reykjavík átti 100 ára afmæli árið 1946, hefði Alþingi lofað að leggja eina milljón til hliðar til byggingar fyrir menntaskóla. Við þetta loforð á 100 ára afmæli skólans var ekki staðið af Alþ., þar sem upphæðin var lækkuð um helming, eða niður í 500 þús. kr.

Það er slæmt, að hv. frsm. meiri hl. skuli ekki vera hér staddur, því að ég get ekki komizt hjá því að fá vitneskju um það, hvernig annars meiri hl. hugsar sér fyrirkomulagið á þeirri gagnfræðadeild, sem á að stofna við Menntaskólann á Akureyri, því að lítið er í frv. um það. Á þetta að vera gagnfræðadeild, sem byrjar með 12 ára börn, er staðizt hafa barnaskólapróf, eða á þetta að byrja með strangara inntökuprófi og vinza úr á þann hátt? Þetta skiptir miklu máli að vita, því að þá fær maður betri vitneskju um það, hvert hlutverk þessarar deildar á að vera. — Annað atriði skiptir og miklu máli, þegar rætt er um tilhögun þessarar væntanlegu deildar við Menntaskólann á Akureyri. Hugsa þeir sér, að gagnfræðadeildin starfi bara í einskiptum ársdeildum, fyrsta, annars og þriðja bekkjar, eða hugsa þeir sér, að þessi gagnfræðadeild verði með tvískiptum eða þrískiptum ársdeildum í fyrsta, öðrum og þriðja bekk? Ég teldi bráðnauðsynlegt að fá það upplýst hér og staðfest í alþt., hvað fyrir hv. meiri hl. n. vakir með þessu og hvort þetta eigi að vera gagnfræðadeild með óskiptum deildum eða það eigi að vera undir stjórn skólans að ákveða, hvort hafa eigi tví- eða þrískiptar deildir. En það fást engin svör frá hv. meiri hl., hvorki fyrr né siðar, því að stólarnir eru auðir og þeir hafa hvorki mál né heyrn. En umr. má ekki ljúka svo, að við eigum þess ekki kost að eiga orðastað við hv. frsm. meiri hl. n.

Ég vék að því fyrr í ræðu minni, að með samþykkt þessa frv. væri verið að stofna til tvenns konar gagnfræðaskóla. Gagnfræðadeild við Menntaskólann á Akureyri væri öðruvísi gagnfræðaskóli, en gagnfræðaskólinn, sem nú starfar samkvæmt gagnfræðaskólal., og öðruvísi en efri bekkir héraðsskólanna, því að þessi skóli væri í beinu áframhaldandi prófsambandi við efri bekki Menntaskólans á Akureyri. Enn þá einu sinni væru þá tvenns konar gagnfræðapróf komin í landið. Það væri ekki til bóta. Áður en nýja skólalöggjöfin gekk í gildi var þannig ástatt og skipulagsleysið þvílíkt í þessum efnum, að það voru fjórar tegundir gagnfræðaprófa í landinu. Á þetta batt nýja skólalöggjöfin endi, en nú á aftur að fara að koma á nýrri tegund gagnfræðaprófs í landinu., sem veitir réttindi til framhaldsnáms. Það er áreiðanlega leitun á þeim manni, sem getur fundið nokkurn skynsamlegan rökstuðning fyrir því að, að þessu leyti sé rétt stefnt, — að fara nú með breyt. á löggjöf, sem búið var að koma í skynsamlegt horf, að stefna út í sömu vitleysuna og við vorum í áður en nýja skólalöggjöfin gekk í gildi. Með samþykkt svona frv. er aftur búið að koma á tvenns konar gagnfræðaprófi í landinu, sem veitir mismunandi aðstöðu til framhaldsnáms og byggir á ólíkri kennslu og ólíkum námsgreinum. Þetta mundi bitna hart á unga fólkinu almennt, en koma þó alveg sérstaklega illa við það fólk, sem flyzt til í þjóðfélaginu. Gamla skipulagið, með 4 gagnfræðaprófum, var ómögulegt, þegar fólkið flutti milli byggðarlaga, því að þá þurfti að athuga, hvaða tegund gagnfræðaprófs unglingurinn hafði, til þess að vita, hvaða réttar hann ætti að njóta, þegar hann kæmi í hið nýja byggðarlag. Tvenns konar gagnfræðapróf væri ávöxturinn af þessu, — ekki eins vitlaust og það var þó orðið með þau fjögur, en mundi hafa það annað í för með sér, að við fengjum tvenns konar menntaskóla. Landslýðurinn mundi þá ekki eiga þess kost að velja milli tveggja skóla með sömu próf og sömu kröfur, Menntaskólans í Rvík og Menntaskólans á Akureyri. Nei, látum þá vera með ólíkum hætti og knýja kannske fólk til að senda börn sin í þann menntaskólann, sem það kannske teldi að einhverju leyti óheppilegra.

Ég mundi mjög óska þess, að hæstv. forseti léti grennslast eftir því, hvort frsm. meiri hl. er hér í húsinu. Vildi ég gera hlé á ræðu minni á meðan, svo að ég gæti borið upp fyrir meiri hl. þær spurningar, sem ég bar fram hér áðan í ræðu, minni. Ég vil því beina því til forseta, hvort hann vill ekki verða við þeirri ósk minni að fresta umr., til þess að gefa mér tækifæri að fá svarað þeim spurningum, sem hér hafa verið bornar fram. Frá mínu sjónarmiði er það óverjandi að verja okkur í minni hl. þess að fá upplýsingar frá meiri hl. um málið. Ég bið eftir svari hæstv. forseta við þessu. [Frh.]