18.12.1948
Neðri deild: 45. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 170 í B-deild Alþingistíðinda. (308)

107. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Ásgeir Ásgeirsson:

Herra forseti. Hv. 6. þm. Reykv. kvartar yfir því, að frv. sitt hafi ekki verið tekið til afgreiðslu í nefnd. Þetta er ekki af vanrækslu, heldur af ásetningi. Það liggja fyrir tvö frv., sem viðskmrh. hefur til athugunar og umsagnar. Ekki hefur unnizt tími til þess enn þá að ljúka athugun á þeim, en því verður væntanlega lokið, er þing kemur saman að nýju, en hann hefur í hyggju að leggja þá fram frv. um þessi efni, og er þá hægt að afgreiða bæði í einu.

Meiri hl. fjhn. ber fram till. við 18. gr., að í stað „vöruverði innanlands“ komi: „vöruverði og framleiðslukostnaði innanlands.“ Þetta er ekki efnisbreyting, heldur orðalagsbreyting. Hv. 2. þm. S-M. kvartar yfir því, að 2. tölul. 20. gr. sé óskýrt orðaður. Við athugun kom í ljós, að fallið hafði úr ein setning, og ber n. fram brtt. við 20. gr., að 2. málsl. 1. málsgr. orðist svo: „Heildsala er undanþegin söluskatti samkv. 21. gr. Umboðssala er einnig undanþegin söluskatti samkv. 21. gr., og tekur sú undanþága aðeins til venjubundinna umboðslauna, en ekki til neinnar þóknunar, sem telja má, að komi í stað venjulegrar álagningar, svo sem þóknunar fyrir umsjón með vinnu.“ Þessi brtt. þarf ekki frekari skýringar við.