13.05.1949
Neðri deild: 108. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1896 í B-deild Alþingistíðinda. (3091)

193. mál, skipun læknishéraða o. fl.

Frsm. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Eins og kunnugt er, hefur um nokkurt skeið verið ágreiningur um verkaskiptingu borgarlæknisins og héraðslæknisins í Reykjavík. Til þess að ráða bót á því var þetta frv. flutt, sem hér liggur fyrir. Nú hefur verið unnið að því, síðan frv. kom fram, að ná samkomulagi, og hefur nú tekizt að ná samkomulagi, annars vegar milli fulltrúa bæjarstj. Reykjavíkur og hins vegar heilbrigðisstjórnarinnar. Hefur heilbr.- og félmn. tekið málið til meðferðar á fundi sínum í gær og náð fullri einingu um málið, og leggur hún til, að frv. verði samþ. með þeim breyt., sem greindar eru í nál. á þskj. 737. Í stuttu máli er þetta samkomulag á þá lund, að yfirstjórn heilbrigðismálanna hér í Reykjavík verður á einni hendi, þ.e.a.s. í höndum héraðslæknisins, en um það hefur ágreiningur verið, hvort ætti að skipta því embætti. Hins vegar skal héraðslæknisstarfinu í Reykjavík gegna borgarlæknir, skipaður af ráðh. eftir tilnefningu bæjarstj. Reykjavíkur. M.ö.o., bæjarstj. fær úrslitavald um það, hver skuli skipaður í það þýðingarmikla embætti í heilbrigðismálum höfuðstaðarins á hverjum tíma. Hitt er svo það, að þessi skipting komi til framkvæmda, þegar núverandi héraðslæknir í Reykjavík lætur af störfum, en þangað til þessi skipting verði, skuli borgarlæknir í stað héraðslæknis annast allt heilbrigðiseftirlit í bænum samkvæmt heilbrigðissamþykktum. Við, sem að þessu máli stöndum, væntum þess, að nú sé úr sögunni óvissan, sem mjög hefur háð heilbrigðiseftirlitinu að undanförnu. N. var einhuga um málið og leggur til, að frv. verði samþ. með þeim brtt., sem á nál. eru.