06.05.1949
Neðri deild: 102. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1912 í B-deild Alþingistíðinda. (3133)

186. mál, eyðing refa og minka

Frsm. (Jón Pálmason):

Ég vil nú byrja á því að svara ræðu hv. þm. Ísaf., sem hann hefði algerlega getað sparað sér, ef hann hefði nokkuð kynnt sér þetta mál. Hann talaði um l. frá 1933, sem að vísu er lagt til að nema úr gildi. En síðan hafa verið sett þrenn l. um loðdýrarækt, 1937, 1940 og 1947. Þau síðustu eru náttúrlega fullkomnust, og þar er ekki lagt til með þessu frv., að neitt sé fellt úr gildi. Þar eru ákvæðin, sem hörðust hafa verið sett um allt, sem hv. þm. Ísaf. var að tala um. Þetta getur hann séð, ef hann vill hafa fyrir því að lesa þessi l.

Landbn. hefur flutt hér tvær smábrtt. við frv. á þskj. 603. Önnur eru varðandi eitrun, að takmarka hana meir, en gert er samkv. frv., og er sú till. flutt í samráði við hv. þm. Ak. (SEH), sem taldi mjög óvarlega farið varðandi þetta ákvæði eins og gert er í frv., þar sem.talað er um afréttir og víðlend heimalönd. Samkv. till. er miðað við heimalönd, sem notuð eru sem afréttir og ekki eru nær bæjum en 5 km frá. Ein lítil brtt. er tekin upp samkv. bendingu, sem kom fram í brtt. hv. 1. þm. Árn. og hv, þm. Borgf., að reikningum yfir kostnað við refa- og minkaveiði sé skilað samhliða hreppsreikningum. N. telur þetta miklu hagkvæmara, en tiltaka 1. des., eins og gert er í frv.

Út í þá deilu, sem hér hefur háð verið milli flm. brtt., sem hér liggja fyrir á þskj. 578, og landbn., skal ég ekki mikið fara, því að það er óþarft. Um þetta mál var mjög rætt á þingi í fyrra og raunar í hittið fyrra líka. Deilan er aðallega um það, hvort banna skuli með öllu eldi á minkum. Landbn. hefur ekki getað fallizt á það og setur fram í sínu frv. þá miðlunartill., að það skuli lagt í vald hlutaðeigandi sýslunefnda og bæjarstjórna að framkvæma þetta bann hver hjá sér og bera þá að sínum hluta skaðabætur, sem um er að ræða. Það er alveg rétt, sem hv. þm. Borgf. benti á við 2. umr., að fyrir 2 –3 árum var ég alveg með því, að það væri réttast eins og sakir stóðu að banna líka minkaeldi. Síðan hefur komið í ljós, að villiminkar eru miklu meir útbreiddir, en gert var ráð fyrir. Það er enginn ágreiningur, sem að líkum lætur, milli landbn. og nokkurs annars um það, hvílíkt skaðræðis villidýr hér er um að ræða. Allir fyrirlestrar um það eru væntanlega óþarfir fyrir alla þm. En aðalatriðið er það, hvað er öruggast til að útrýma þessu dýri. Ég er sannfærður um, að baráttan gegn því hlýðir alveg sömu lögum, í mörgum atriðum a.m.k., eins og baráttan gegn refunum, sem hefur nú staðið hér á Íslandi um margar aldir, og því miður hefur ekki tekizt að útrýma þeim. Nú er það rétt, að minkarnir eru orðnir svo útbreiddir, vegna gáleysis og ræfildóms í sambandi við þessa rækt áður, að ströng ákvæði hafa verið sett um þessi mál, og samkv. upplýsingum, er landbn. hefur fengið, eru það undantekningarlaust minkar af þeirri tegund, sem hafa sloppið, en ekki þeir, sem nú eru í rækt. (PO: Allt annað segir sá maður, sem vinnur að því að útrýma þeim á vegum ríkisstj.) Það er nýtt fyrir mér, og ég mun ekki þræta um það atriði.

Í brtt. á þskj. 578 eru nokkur atriði, sem n. hefur athugað, en getur ekki mælt með. Sumt er rétt, en er betur komið í reglugerð, t.d. hvenær útrýming skuli fara fram, en aðalatriðin eru í frv. Þó er eitt atriði, þar sem talsvert ber á milli. Samkv. brtt. flm. á að útiloka loðdýraræktarráðunautinn frá yfirstjórn þessara mála, og lítur út fyrir, að sýslumennirnir eigi að koma í staðinn. Í frv. er ákveðið, að sýslunefndir eigi að sjá um það, að hreppsnefndir geri skyldu sína varðandi útrýmingu refa og minka. Sýslumennirnir eru form. sýslunefndanna, og það er ekkert nýtt, þó að sett sé inn, að það sé þeirra skylda að annast þetta að svo miklu leyti, sem sýslunefndir og hreppsnefndir vanrækja eftirlitið samkvæmt l. og reglugerð. Þá er hitt, hvort rétt sé að útiloka loðdýraræktarráðunautinn frá því að vera leiðbeinandi um það, hvernig útrýmingarstarfinu skuli hagað. N. getur ekki fallizt á það og telur betra að njóta þekkingar hans en ekki. Það er rétt, sem hv. þm. Borgf. sagði við 2. umr., að komið hefur fram nýlega till. um, að rétt væri að leggja niður þetta embætti. Ef það verður gert, þyrfti auðvitað að fela öðrum aðila þetta starf.

Að öðru en þessu, sé ég ekki ástæðu til að ræða málið frekar fyrir n. hönd, þar sem málið er þrautrætt áður, og ég vænti þess, að hv. d. samþ. frv. Öllum er ljóst, að a-liður 2. brtt. þeirra hv. þm. Borgf. og hv. 1. þm. Árn., varðandi það, hvort skilyrðislaust skuli banna allt minkaeldi á landinu, er það eina ágreiningsatriði, sem máli skiptir.