15.11.1948
Neðri deild: 17. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 5 í C-deild Alþingistíðinda. (3256)

18. mál, byggingarmálefni Reykjavíkur

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég bjóst við, að hv. flm. frv. mundi taka vel þessari brtt. minni. En mér skilst á honum, að hann sé heldur mótfallinn því, að hún verði samþ. Hv. þm. Snæf. telur, að slíkt ákvæði eigi ekki heima í þeim l., sem hér er um að ræða og gert er ráð fyrir að breyta. En þessi l. eru um byggingarmál Reykjavíkur, og sé ég ekki annað, en að þau geti vel átt þar heima.

Hv. þm. Snæf., sagði, að skortur sé á starfsmönnum á skrifstofu húsameistara Reykjavíkurbæjar. En getur það ekki skeð, að það standi í einhverju sambandi við það, að húsameistarar hafa möguleika til þess að hafa óeðlilega háar tekjur eins og nú er með því að selja mönnum uppdrætti að húsum með óeðlilega háu verði og þeim þyki því fýsilegra að vinna upp á eigin spýtur, en að fara í þjónustu bæjarins, jafnvel þótt þeir geti átt þar kost á góðum embættum.

Hv. þm. Snæf. sagði, að teikningar þær, sem nefndar eru í brtt. minni, séu nú seldar fimm til sex og jafnvel átta sinnum hærra verði, en þar er gert ráð fyrir. Það bendir til þess, að þessi stétt manna hafi tekið mjög mikið fyrir sín verk. Hv. þm. sagði líka, að þetta mundi hafa mjög mikinn kostnað í för með sér fyrir Reykjavíkurbæ, en ég vil ekki fallast á það að óathuguðu máli. Ég held, að þetta sé byggt á því, að hv. þm. hafi ekki kynnt sér nægilega það, sem ég legg til í minni brtt. Ég geri þar ráð fyrir, að hámarksgjald sé 1 kr. á teningsm. húsa. Við skulum hugsa okkur 500 teningsm. íbúð, sem þyrfti að teikna. Sumar íbúðir eru stærri en 500 teningsm., sumar minni. Og t. d. ef bærinn hefði húsateiknara í sinni þjónustu, sem hefði 3 þús. kr. yfir mánuðinn, þá þyrfti sá maður að gera yfir mánuðinn 6 teikningar af þessum íbúðum til þess að vinna fyrir sér. Ég skal viðurkenna, að ég er ekki fagmaður í þessu, en ég hefði haldið, að það væri ekki ofætlun einum manni að teikna þessi 6 hús yfir mánuðinn og þegar tillit er tekið til þess, að hægt er að nota sömu teikningarnar við fjölda mörg hús eða þá með litlum breytingum, þá held ég, að ef sæmileg stjórn væri á þessum vinnubrögðum, þyrfti ekki að verða halli á þessu hjá bæjarfélögunum, eða a. m. k. sáralítill. Getur hver maður séð, hvaða þýðingu þetta hefði fyrir þá, sem þurfa að byggja íbúðarhús, ef á þessum eina lið mætti spara stórkostlega, — ef það er rétt, sem ég rengi ekki, að gjöldin, sem menn nú taka fyrir þetta, séu fimm eða jafnvel átta sinnum hærri en hér er gert ráð fyrir.

Það er rétt, sem hv. þm. segir, að ef þetta yrði lögfest hér, yrði það einnig að gilda um aðra kaupstaði. Ef þetta yrði samþ., væri sjálfsagt að setja í l. samsvarandi ákvæði um aðra kaupstaði, ef þeir taka það ekki upp af sjálfsdáðum. — Við vitum, að byggingarkostnaður hefur verið mestur hér í Rvík. Ég held, að ég muni það rétt, að hv. þm. Snæf. hefur ásamt öðrum þm. flutt frv. um breyt. á skattal. í þá átt, að vinni menn sjálfir við að koma upp íbúð handa sér, skuli það ekki metið þeim til skattskyldra tekna, og er ekki nema gott eitt um það að segja, því að það miðar að því að gera mönnum léttara fyrir að koma upp íbúð handa sér. Þessi till. gengur í sömu átt, og vænti ég, að henni verði vel tekið. Ég fæ ekki séð, að þær mótbárur, sem hv. þm. Snæf. hefur hreyft, séu það veigamiklar, að ástæða sé til þess fyrir menn að láta þær fæla sig frá því að greiða þessu atkvæði.