14.03.1949
Neðri deild: 80. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 104 í C-deild Alþingistíðinda. (3368)

49. mál, dýrtíðarráðstafanir

Frsm. meiri hl. (Ásgeir Ásgeirsson):

Herra forseti. Þetta frv. hefur að vísu legið nokkuð lengi fyrir þinginu. En það mun öllum hv. þm. ljóst, að málið er þess eðlis, að það eru litlar líkur fyrir, að það nái afgreiðslu. Sú stjórn, sem nú situr að völdum, lagði til, að kaupgjaldsvísitalan væri fest. Og eins og kunnugt er, var kaupgjaldsvísitalan bundin við 300 stig. Og það var gert ráð fyrir því, að framfærsluvísitalan gæti lækkað nokkuð. En framfærsluvísitalan mun nú vera nokkuð nálægt því, sem hún var, þegar lögin um þetta voru sett. En þrátt fyrir það að framkvæmd þessa hafi ekki tekizt til fulls eins og til var ætlazt í fyrstu, munu flestir vera sammála um það, að ekki muni vera hægt að afnema festingu kaupgjaldsvísitölunnar, nema gerðar séu aðrar ráðstafanir um leið, því að a. m. k. í stuðningsflokkum stjórnarinnar munu fæstir vera, sem vilja sleppa þessu lausu aftur. Ein aðalstíflan, sem nú er í verðbólgustraumnum, er einmitt þessi binding vísitölunnar. Og þó að ekki hafi allt gengið að óskum í sambandi við bindingu hennar, verður ekki annað sagt en að þessi ráðstöfun hafi unnið töluvert gagn. Og að framfærsluvísitalan hefur ekki farið hærra en nú er, á rót sína að rekja til þess, að kaupgjaldsvísitalan er föst. — Í meiri hl. fjhn. leggjum við því til, að engin breyt. verði gerð á þessu, nema aðrar ráðstafanir verði gerðar um leið, sem hindri verðbólguna í að vaxa. En ef vísitalan væri ekki bundin, mundi hefjast á ný sú hringrás, að kaupgjald og afurðaverð hækkaði á víxl og verðbólgan þannig ykist, og þetta tvennt mundi fara óðfluga upp á við. Þetta gat verið þolanlegt, meðan afurðirnar fóru hækkandi í verði, sem við fluttum til útlanda. En úr því að þær hætta að hækka í verði, er verra að þola þetta. Og úr því að okkar útflutningsafurðir eru á niðurleið um verð; ættu allir að geta verið sammála um, að brýn nauðsyn sé á að festa kaupgjaldið í landinu. Náttúrlega hvílir sú skylda á ríkisstj. að gera það, sem hún getur, til þess að framfærsluvísitalan festist og helzt lækki. Mun hæstv. ríkisstj. hafa gert það, sem í hennar valdi stóð, til þess, og mun hún halda slíkri viðleitni áfram. — Ég sé svo ekki ástæðu til að segja meira um þetta fyrir hönd meiri hl. n., og hæstv. ríkisstj. mun standa fyrir sinu máli, að því er þetta mál snertir. En meiri hl. fjhn. er á móti afnámi festingar vísitölunnar, nema eitthvað sé gert annað um leið, sem tryggi, að verðbólgan vaxi ekki stöðugt.