28.01.1949
Neðri deild: 54. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 274 í C-deild Alþingistíðinda. (3627)

44. mál, jeppabifreiðar

Sigfús Sigurhjartarson:

Ég er þakklátur flm. þessa frv. fyrir að hafa gefið Alþ. skýrslu um störf Þingvallan. Ég verð að líta svo á, að mér sé leyfilegt að ræða þá skýrslu, þó að hún komi beint ekki því máli við, sem hér liggur fyrir. Það er alveg rétt, að Þingvallan., sem skipuð er af Alþ., gefi þessa skýrslu við og við, og er þá ekki nema sjálfsagt, að þingið láti í ljós skoðun sína um það, hvernig n. hefur tekizt starfið.

Ég hygg, að n. hafi margt vel gert og af áhuga og með það sjónarmið í huga að vernda þennan stað, sem er í senn okkar helgasti sögustaður og einnig einhver fegursti staður af hinum mörgu fögru stöðum þessa lands. En mér finnst þó, að að ýmsu leyti hafi n. mistekizt, og hef ég sérstaka ástæðu til þess að gagnrýna eitt í ræðu hv. flm. Hann skýrði frá því, sem er alkunnugt, að n. hefur farið inn á þá braut að leigja utan þjóðgarðsins suður og vestur með vatni land undir sumarbústaði. (Forseti: Ég vil vekja athygli hv. 6. þm. Reykv. á því, að hv. 5. þm. Reykv. hefur lokið við sinn ræðutíma. Það er enn fremur æskilegt, að umr. komist ekki mjög langt frá aðalefni málsins.) Ég er ekki með neinar ásakanir á hendur hv. 5. þm. Reykv. eða Þingvallanefnd, heldur er þetta sagt aðeins að gefnu tilefni, sem hv. þm. skýrði frá, að leyft hefði verið að byggja sumarbústaði, sem menn vita, að eru svo að segja allir eign auðmanna í höfuðstaðnum. Með öðrum orðum, rétt utan við hinn helga þjóðgarð hafa þessir auðmenn höfuðstaðarins helgað sér umráðarétt yfir einu fegursta svæði við Þingvallavatn, og þeir hafa afgirt sínar lóðir, afgirt ströndina meðfram vatninu og meinað þannig almenningi að njóta og nota þetta svæði, sem er eitt hið fegursta við Þingvallavatn, sem liggur þarna rétt hjá þjóðgarðinum. Þetta tel ég að sé mjög misráðið af n., og ég vil ekki, að málið sé rætt hér á Alþ. án þess, að þetta komi fram. Einmitt þetta svæði, þessi strönd, hefði átt að vera opin fyrir almenning, og einmitt á þessum stað hefði átt að rísa upp ódýrt hótel fyrir almenning, sem byggt hefði verið á einfaldan og ódýran hátt, og þannig reynt að gera mönnum ódýrt að búa á þessum fagra stað í sumarleyfi. Slíkt hefði verið miklu æskilegra, en að það sé aðeins opið örfáum auðmönnum. — Ég skal svo ekki fjölyrða meir um það. Ég vil, að hv. þm., sem eru trúnaðarmenn Alþingis í þessari n., heyri álit mitt, og ég hygg, að ég standi ekki einn að þeirri skoðun.

Annað atriði er það, sem ég vildi aðeins minnast á, það er skógurinn á Þingvöllum. Nefndin hefur lagt mikla áherzlu á að græða skóg á Þingvöllum. Ég skil það afar vel. Það er nú svo í okkar skóglausa landi, að skógurinn hefur orðið okkur draumaparadís, og hinn mikli draumur er að klæða landið skógi. Ég er þeirrar skoðunar, að það sé eitt af okkar stærstu framfaramálum að klæða landið skógi, og það af hagrænum ástæðum til þess að verja jarðargróðurinn fyrir uppblæstri, og við getum áreiðanlega vænzt þess, að við höfum miklar nytjar af skógi í framtíðinni. Sú ástæða er ekki fyrir hendi í þjóðgarðinum á Þingvöllum, heldur að koma skóginum til þess að þroskast það, sem við höfum ástæðu til að ætla, að hann hafi eitt sinn verið, sem sé að fá þann eðlilega gróður til að ná þroska, sem var á Þingvöllum áður en mannshöndin kom þar til sögunnar. Nú tel ég, að sé komið út í öfgar með skóggræðslu á Þingvöllum, sérstaklega að því er snertir barrskóginn. Með þeirri tilraun í stórum stíl held ég, að sé verið að breyta okkar helga sögustað, færa hann í búning, sem hefur aldrei skreytt hann. Ég held í raun og veru, að þótt sjálfsagt sé að græða nokkurn skóg á Þingvöllum, megi ganga of langt. Það er misskilningur, að skógurinn sé fallegur, eða þannig lít ég á hann, og mér finnst, að þar sem hann er þéttastur, sé búið að útrýma því, sem er bezt og sérkennilegast í íslenzku umhverfi, Ég held, að n. ætti að láta sér nægja að rækta nokkur skógarbelti og halda sig við björkina og viðinn, sem er eðlilegasti gróðurinn á þessum stað, en ekki að planta barrskóg á stór svæði, og reyna að koma Þingvöllum í það horf, sem þeir áður voru í. Hávaxinn skógur á Þingvöllum mun ekki auka á fegurð staðarins.

Ég vil biðja hæstv. forseta afsökunar, en hv. þm. leiddi þetta mál inn, og þótti mér rétt, að n. heyrði álit þm. á því, hvernig henni hefur tekizt í starfi sínu.