10.03.1949
Efri deild: 73. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 374 í C-deild Alþingistíðinda. (3765)

138. mál, eftirlit með rekstri ríkisins og ríkisstofnana

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég hafði fallið frá orðinu og ekki ætlað að ræða um málið á þessu stigi. En vegna ræðu hæstv. fjmrh. um meðferð fjvn. á 18. gr. fjárlagafrv. og vegna fjvn. vildi ég mega taka eftirfarandi fram og biðja hæstv. forseta að flytja það til hæstv. fjmrh., þar sem hæstv. ráðh. gat ekki verið viðstaddur. — Það er rétt, sem getið var um hér í umr. af hv. 1. landsk. þm., að það er mjög mikið ósamræmi í eftirlaunagreiðslum á 18. gr. fjárl. Á síðasta ári óskaði fjvn. eftir því, að þetta yrði sérstaklega athugað, áður en fjárlagafrv. fyrir árið 1949 væri lagt fram, og miðað væri við það að samræma eftirlaun hinna ýmsu embættismanna og starfsmanna ríkisins, og einkum og sér í lagi yrði horfið frá því að setja nýja embættismenn inn á full föst laun, eftir að þeir hafa látið af starfi. Árangurinn af þessu hefur enginn orðið annar en sá, að ósamræmið í þessu efni á 18. gr. hefur aldrei verið meira en í ár eða á fjárlagafrv., sem fyrir liggur. Fjvn. hefur út af fyrir sig ekki talið það vera sitt verkefni að gera þarna tillögur til niðurskurðar og breyt. á þessu kerfi móti vilja hæstv. ríkisstj., en þetta taldi hún vera á móti vilja ríkisstj., þar sem hæstv. ríkisstj. hefur ekki viljað fallast á till., sem fjvn. hefur gert í málinu. Á síðasta þingi lá það fyrir, að einn embættismaður hefði látið af starfi, og fjvn. vildi ekki taka hann inn á eftirlaun, sem svöruðu fullum starfslaunum. En hæstv. fjmrh. bar þá fram till. um að taka þennan mann á full laun og fékk það samþ. gegn vilja fjvn. Og nú er í fjárlagafrv. einn maður settur inn á full eftirlaun og mikið meira en full laun, og hefur ekki náðst samkomulag við hæstv. fjmrh. um að breyta þessu. Og meðan sú skoðun er í fjvn., sem ríkir nú um þetta, verður þetta ekki vel séð. Og eftir að þær umr. hafa farið fram hér, sem raun ber vitni, þá mun ég þess vegna sem form. fjvn. telja mér heimilt að taka aftur við 2. umr. fjárlaganna alla þá liði, sem snerta þetta atriði um full laun sem eftirlaun til nýrra embættismanna, sem láta af starfi, nema um það fáist fast samkomulag milli hæstv. ríkisstj. og fjvn. Ég vil ekki láta það orð hvíla á hv. fjvn., að það sé henni að kenna, að þessi mál séu í því ófremdarástandi, sem þau eru í.