11.05.1949
Neðri deild: 106. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 401 í C-deild Alþingistíðinda. (3825)

138. mál, eftirlit með rekstri ríkisins og ríkisstofnana

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. hélt alllanga ræðu hér í gær og var allgustmikill á köflum. Hann andmælti mjög þeim brtt. við frv., sem ég flyt á þskj. 665, og hélt því fram, að nú þegar þyrfti að stofna þessa deild í stjórnarráðinu og setja yfir hana nýjan embættismann, annað kæmi ekki að gagni. Hann sagði raunar, að hægast væri að láta allt danka, en það er einmitt það, sem hæstv. ráðh. og rn. hafa gert. Einkum hefði hæstv. fjmrh. borið skylda til að hafa eftirlit, en það hefur hann vanrækt. Alltaf er verið að fjölga starfsmönnum, eins og hv. þm. A-Húnv. benti réttilega á, en þrátt fyrir það dragast störfin oft óhæfilega lengi, og má í því sambandi benda á ríkisreikningana, er nýlega var rætt um, og er ekki ástæða til að rekja það hér á ný. Ég tel, eins og ég sagði áður, að fjmrn. hafi borið skylda til að hafa þetta eftirlit og að það hafi haft fullt vald til þess. Samkvæmt 1. gr. frv. er hinni fyrirhuguðu deild ætlað að hafa eftirlit með rekstri ríkisstofnana og starfsmanna ríkisins, starfsaðferðum, starfsmannahaldi, vinnuafköstum og vinnuskilyrðum þessara aðila, að leiðbeina ríkisstofnunum og ríkisstarfsmönnum um starfstilhögun og mannahald og gera till. til hlutaðeigandi ráðh. um bætta starfstilhögun og breytt skipulag og sparnað o. s. frv. Allt þetta hefði rn. getað gert og getur, en það lítur út fyrir, að það hafi ekki verið gert. Og í staðinn fyrir að herða sig upp, hafa eftirlit með ríkisrekstrinum og taka upp hagkvæmari vinnubrögð, kemur hæstv. ráðh. andvarpandi til Alþ. og biður um nýja deild í stjórnarráðinu og nýjan embættismann, er auðvitað þarf aðstoðarmann sér við hlið. Með sama áframhaldi kæmi mér ekki á óvart, þó að hæstv. ráðh. segði næsta ár, að þessi nýja deild gæti ekki leyst þetta starf af höndum, nema sett yrðu l. um ráðskonu ríkisins. (Fjmrh.: Auðvitað þarf ráðsmaðurinn að hafa konu sér við hlið.) Ég get búizt við því. (Fjmrh.: Það er ekki gott, að maðurinn sé einn.) Það kann að vera, að hæstv. ráðh. vanti mann, og því hef ég viljað gefa honum heimild til að ráða sérstakan mann til eftirlitsins, en ég vil ekki slá því föstu nú að stofna þessa deild eða skipa fastan embættismann í þessu skyni. Ég tel hyggilegra að ráða manninn til bráðabirgða og sjá, hver árangur verður af störfum hans. „En hver fæst aðeins til eins árs?“ spyr hæstv. ráðh. og heldur því fram, að nýtur maður fáist ekki í þetta starf, nema það verði lífstíðarstarf. Þeir eru að vísu margir, sem telja það sáluhjálparatriði að komast á lífstíðarlaun, sérstaklega hjá ríkinu, og hæstv. fjmrh. virðist líka ganga út frá því, þar sem hann efast um, að hann geti fengið mann, ef starfið er ekki tryggt til æviloka. Ég held, sem betur fer, að enn séu til hæfir menn, sem mundu taka þetta að sér án slíkra trygginga. Ég þekki marga, sem vinna vel þau störf, er þeir ganga að, án tryggingar fyrir lífstíðarstarfi. Ef enginn fæst, er hefur það hugarfar, að hann vilji vinna starfið án slíkrar tryggingar, þá hef ég takmarkaða trú á árangri þessarar lagasetningar. Hæstv. ráðh. segir, að ég ætlist til þess, að þetta verði valdalaus fígúra. Það er ekki dregið úr valdi hans í mínum brtt. Ég vil aðeins hafa eins til tveggja ára reynslutíma og sjá árangurinn, áður en Alþ. lögfestir þetta sem framtíðarembætti, en samkvæmt mínum brtt. hefur ráðsmaðurinn sama vald og honum er ætlað í frv.

Hv. þm. A-Húnv. talaði um þetta mál og nokkuð á sama veg og hæstv. fjmrh. Hann vildi slá því föstu þegar, að þessi deild yrði stofnuð strax. Ég verð að segja, að það var öðruvísi í honum hljóðið í gamla daga, er rætt var um starfsmannafjölgun og stofnun nýrra ríkisfyrirtækja.

Ég geri ráð fyrir því, að mönnum, sem lesa till. mínar, sé ljóst, hvað þar er á ferð, og sé því ekki ástæðu til að eyða fleiri orðum um þær að þessu sinni.