11.05.1949
Neðri deild: 106. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 408 í C-deild Alþingistíðinda. (3828)

138. mál, eftirlit með rekstri ríkisins og ríkisstofnana

Axel Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vildi gera grein fyrir fyrirvara þeim, sem ég hafði í fjhn. um fylgi við frv. til l. um eftirlit með rekstri ríkisins og ríkisstofnana. Jafnframt vildi ég víkja orðum að brtt. þeirri á þskj. 703, sem hv. 2. þm. Reykv. flytur ásamt mér. Það er góðra gjalda vert, að hæstv. ríkisstj. hefur skilizt það, að taka þarf upp sparnað og eftirlit með rekstri þessum, enda er þess engin vanþörf. Geri ég og ekki ráð fyrir, að opinberir starfsmenn mundu leggja stein í götu þess, að ríkið hefði beint eftirlit með rekstri og fyrirkomulagi á fjármálum ríkisins í heild. Ég fullyrði, að þeir séu ekki svo vanþroska, að þeir skilji ekki, að ríkið þarf að spara, því að það er einmitt hagnaður opinberra starfsmanna, að slíkt sé gert. Ég vil þá að nokkru ræða um það, hver ætlun okkar hv. 2. þm. Reykv. var með brtt. þeirri, er áður gat ég. Get ég ekki séð, að hæstv. ríkisstj. eða hæstv. fjmrh. ættu að hafa neitt við það að athuga, þó að stj. eða fulltrúar frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja væru kvaddir til ráða um þessi mál, því að þau geta snert ærið mikið hagsmuni þeirra og jafnvel einnig orsakað misskilning. Orkar ekki tvímælis, hversu hæstv. ríkisstj. eða sá eftirlitsmaður, er hún ætlast til skv. frv., að alræðisvald hafi í þessu efni, hefði þægilegri störfum að gegna, ef hann hefði samtökin með sér. Ég vil leyfa mér að halda því fram, að nokkuð mikill misskilningur sé það hjá hv. þm. Borgf., að það gerði starf þessa manns örðugt eða drægi mikið úr starfsmöguleikum hans, þótt hann þyrfti einstöku sinnum að hafa samráð eða leita samvinnu við þessi samtök. Þannig er lagt fyrir í 3. gr. frv., að skrifstofustjórar stjórnarráðsins, ríkisbókari, aðalendurskoðandí og forstöðumenn ríkisstofnana, sem heyra beint undir ráðh., skuli vera ráðsmanni ríkisins til ráðuneytis. Mér finnst ekkert við það að athuga, þó að bætt sé aftan við þessa gr., að ráðsmaður ríkisins hefði líka samvinnu við eða kveddi sér til ráðuneytis stjórn samtakanna eða fulltrúa frá þeim. Ég mun fylgja þessari brtt. við frv. og álít, að það mundi mikið bæta vinsældir þess hjá opinberum starfsmönnum, ef brtt. næði fram að ganga.