04.11.1948
Neðri deild: 10. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 427 í C-deild Alþingistíðinda. (3889)

39. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Hermann Guðmundsson:

Herra forseti. Þetta frv. er þannig vaxið, að ég get ekki látið hjá líða að kveðja mér hljóðs við 1. umr. þess, ekki sízt þar sem hún verður væntanlega útfararsálmur þess.

Hv. 1. flm. málsins talaði um það áðan, að þetta frv., sem hann flytur nú ásamt öllum þm. Sjálfstfl. í þessari hv. d., væri hið sama og hann flutti hér fyrir 2 árum og þá var fellt. Og ástæðuna til þess, að það er nú flutt í annað sinn, kvað hann vera þá, að tíminn hefði leitt í ljós réttmæti málsins. Hann gat þess um leið, að þau mótmæli, sem komið hefðu þá fram gegn frv., hefðu haft litla þýðingu. Ég skal nú gera þeim ummælum nokkur skil.

Þetta frv. snertir fyrst og fremst verkalýðshreyfinguna í landinu, og hún hefur því sjálf mest að segja um málið, hennar orð er hér þungvægast. Og nú geta hv. flm. þessa máls ekki státað af því, að verkalýðsfélögin hafi mælt með þessari breytingu, það er eitthvað annað. Á síðasta alþýðusambandsþingi, sem menn af öllum stjórnmálaflokkum sátu á, voru einróma samþ. mótmæli gegn þessu frv. og þau eru skjalfest. Þannig hafa verkalýðssamtökin í heild borið fram einróma mótmæli, og þau mótmæli eru þungvæg, en ekki léttvæg.

Um þetta frv. er það að segja, að ef sá háttur yrði upp tekinn, sem það gerir ráð fyrir, að verkalýðsfélögunum yrði fyrirskipað með lögum að taka upp innan sinna vébanda ákveðið kosningafyrirkomulag til stéttarþings og stjórnar- og trúnaðarstarfa, þá verð ég að segja, að það væri hrein árás á félagafrelsið í landinu og það dæmafá árás, eins og hv. síðasti ræðumaður benti á. Og ég sé ekki, að neitt réttlæti þá árás, þótt hv. 7. þm. Reykv. teldi í ræðu sinni, að rökstuddar ástæður lægju til þess, að þetta mál er flutt hér að nýju. En honum láðist að nefna þær ástæður. — Eitt hefur þó verið reynt að telja þessu frv. til gildis. Það er það, að það muni innleiða meira lýðræði í skipulagi verkalýðshreyfingarinnar, skilst manni, og minni innbyrðis átök en verið hafa að undanförnu.

Þess ber að gæta, að verkalýðshreyfingin er samsett af mönnum úr öllum flokkum, og það er rétt, að átaka hefur gætt innan hennar vegna þess. Hins vegar gengur enginn þess dulinn, sem er hlynntur verkalýðshreyfingunni, að bezt væri að þjappa henni saman um áhugamál sín án tillits til flokksskoðana einstaklinganna. Það væri bezt, að menn skipuðu sér eftir málefnum, og það hafa verkalýðssinnar oft gert, þess eru mörg dæmi. En með því að ákveða og lögbjóða hlutfallskosningar í félögunum er um leið verið að ákveða, að stjórnmálabarátta skuli alltaf vera háð innan samtakanna, því að þá mundi óhjákvæmilega verða stillt upp til kosninga eftir flokkum, flokkarnir mundu kanna fylgi sitt. Og upp úr þessu sprytti eingöngu og héldist pólitísk barátta innbyrðis í verkalýðsfélögunum, í stað þess að samtök vinnandi fólks eiga að leysa hagsmunamál sín í sameiningu. Ég væni hv. flm. ekki um, að þeir ætlist til, að þannig fari, en ég bendi á þá staðreynd, að þannig mundi fara, ef frv. þeirra næði fram að ganga, þetta yrði afleiðingin af því.

Hv. síðasti ræðumaður gat þess í sinni ræðu, sem ég minntist á áðan, að eitt blómið, sem ætlað væri að skreyta þetta frv., væri það, að það fullnægði betur lýðræðinu, en núverandi fyrirkomulag, en fullnæging lýðræðisins er sú, að gert er ráð fyrir, að einn fimmti hluti félagsmanna geti ákveðið kosningafyrirkomulag gegn fjórum fimmtu hlutum félagsmanna. En er þetta ekki að fara aftan að hlutunum í öllu lýðræðisskvaldrinu? Þegar talað er um lýðræði í kosningum, þýðir það, að meiri hlutinn ráði. Það gildir að sjálfsögðu um kosningar í verkalýðsfélögum eins og annars staðar. En hér er þessu snúið við og 1/5 gert hærra undir höfði en 4/5. Afleiðingin yrði sú, að ef um ágreining væri að ræða, réði þessi fimmti hluti, en vilji mikils meiri hluta yrði fyrir borð borinn. Slíkt er ekki lýðræði.

Ég gat þess í upphafi þessa máls, að alþýðusambandsþing hefði fyrir tveimur árum samþykkt einróma mótmæli gegn þessu frv. Þar greiddu menn af öllum flokkum atkv. gegn frv., meðal þeirra sjálfstæðismenn. Það kom mér ekkert einkennilega fyrir sjónir, að hv. 7. þm. Reykv. skyldi flytja þetta frv. fyrir tveimur árum, þar sem það er á allra vitorði, að það er stefna Sjálfstfl. á þingi, að hlutfallskosningar verði teknar upp í verkalýðsfélögunum. En mér kemur einkennilega fyrir sjónir, að það skuli nú vera flutt hér í annað sinn og þá af öllum sjálfstæðismönnum í deildinni, því að það er nú svo um þann flokk eins og aðra, að ég hélt hann hefði vit á að draga sig til baka með mál, sem ekki eru í neinu samræmi við vilja fólksins, heldur þvert á móti. Ég hélt, að hann hefði rekið sig svo rækilega á í þessu efni 1946, að hann gleymdi því ekki strax aftur, en það lítur ekki út fyrir það. Þótt nú hafi eðlilega komið til átaka í verkalýðsfélögunum við kosningar til alþýðusambandsþings, þá geri ég fastlega ráð fyrir og veit raunar fyrir víst; að verkamenn sjá ekkert annað en óhag í því að samþykkja þetta frv., það mundi ala á sífelldri sundrung og veikja stéttarsamtök þeirra og brjóta þau niður.

Ég verð því að lokum að segja, að ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því, að þetta frv. komist lengra, en til nefndar, fremur en síðast. Síðan verður það fellt.