04.11.1948
Neðri deild: 10. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 437 í C-deild Alþingistíðinda. (3894)

39. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Sigurður Guðnason:

Herra forseti, Hv. 7. þm. Reykv. talaði um það af miklu offorsi, að hagsmunir vinnuveitenda og atvinnurekenda færu alltaf saman. Ég hef heyrt þetta áður. Svona orð er hægt að segja á borgaralegum fundum: Við erum tilbúnir að taka ykkur alla í faðminn, og við skulum láta ykkur öllum líða vel. En ég er sannfærður um, að staðreyndirnar eru öðruvísi. Það er alveg víst, að hvenær sem verkamenn hafa verið að berjast fyrir bættum kjörum, þá hafa atvinnurekendur staðið á móti, og verkamenn hafa orðið að heyja harða baráttu og langa til að fá hagsmunamálum sinum framgengt. Það er leiðinlegt að heyra svona lagað frá manni, sem tekur að sér að mæla fyrir máli, sem hann hefur aldrei unnið að, og mér þætti gaman, að hann kæmi innan um þá fullorðnu menn, sem hafa dregið fram líf sitt 40–50 ár á verkamannavinnu, og segði við þá: Góðu, hagsmunir ykkar og vinnuveitendanna fara alltaf saman.

Ég vil nefna tvö dæmi til skýringar. Það eru tvö hagsmunamál verkalýðsins, sem hafa kostað harðasta baráttu, og annað þeirra kom inn í þingið. Það voru togaravökulögin og afnám næturvinnu við höfnina í Reykjavík. Ég er sannfærður um, að hver atvinnurekandi lítur nú svo á, að þetta hafi verið hin mestu hagsmunamál fyrir þá. En það er oft ekki fyrr en eftir á, að menn skilja, hvað er þeim til hagsmuna. Þeir skilja það ekki fyrr en þeir reyna það. Hagsmunaástæðurnar eru svo margar, og atvinnurekendur sjá oft ekki hlut sinn.

Hv. 7. þm. Reykv. talaði mikið um, að hv. 11. landsk. hefði áður verið fylgjandi þessu máli, þegar hann var í Sjálfstfl. Hvað hefur gerzt? Það er það, að þegar hann fór að vinna fyrir verkalýðinn, þá fann hann, að annaðhvort varð hann að snúa baki við verkalýðnum eða Sjálfstfl. Hagsmunabaráttan er nú þannig, að það verður að velja milli verkalýðsins og Sjálfstfl. Síðast þegar við sömdum um launakjör, þá voru í samningan. 3 sjálfstæðismenn frá okkar hálfu. Þeir höfðu greinilega sama álit á málinu og við hinir. Svo belgir hv. þm. sig út á því, að það sé einhver frámunalegur glæpur að halda því fram af mönnum, sem vinna fyrir verkalýðinn, að hagsmunir hans og atvinnurekenda fari ekki saman. Það er staðreynd, að atvinnurekendur berjast til að borga sem minnst kaup, til þess að þeir fái sem mestan gróða. Þetta er rétt frá þeirra sjónarmiði, en þeir eiga að kannast við það. Verkamenn aftur á móti berjast fyrir að fá hærra kaup til að fá betri lífsafkomu. Þetta er staðreynd, sem er ómögulegt að hrekja. Þetta getur ekki öðruvísi verið. Menn eru einu sinni þannig gerðir, að þeir fórna ekki sínum eigin mat fyrir hina. (JóhH: Það er ekki hægt að fórna atvinnurekstrinum og atvinnunni um leið) Ég hef unnið hér í Reykjavík milli 20 og 30 ár, og þetta hefur verið sagt í hvert einasta skipti, sem verkamenn hafa farið fram á kjarabætur, svo að þetta er ekki nýtt. En allt hefur komizt af hjá atvinnurekendum, og ég sé ekki betur, en að hagur þeirra fari yfirleitt batnandi.

Þá er það þetta með kosningarnar í búnaðarfélögunum. Ég fylgist þar ekki svo vel með, en ég held, að þetta mál hafi einmitt verið borið undir búnaðarfélögin og meiri hluti þeirra hafi samþ. að ganga inn á það. Eru þetta lík vinnubrögð? Hér er komið með þetta mál, þó að enginn í verkalýðsfélögunum hafi imprað á að fá þessi ákvæði í l., heldur þvert á móti hafa verkalýðsfélögin samþ. kröftug mótmæli gegn þeim. Og svo segir hann, að þetta sé aukið lýðræði í verkalýðsfélögunum, þegar á að lögbjóða, að minni hlutinn skuli ráða.

Hv. 4. þm. Reykv. sagði, að það gæti verið rétt að samþ. ákvæði um fundarreglur eða kosningar í verkalýðsfélögunum. Ég hef verið starfandi í verkalýðsfélögum milli 20 og 30 ár, og í hvert skipti hefur það verið sameiginlegt áhugamál allra að hafa kosningafyrirkomulagið eins fullkomið og hægt hefur verið, svo að það væri sízt hægt að vefengja það. Við höfum stöðugt verið að leita að sem fullkomnustu og beztu formi. En ef farið er að lögbinda þessa hluti, þá er loku skotið fyrir, að hægt sé að fá í þá meiri fullkomnun. Sú hefur reynslan orðið um öll þau mál, sem Alþ. hefur þannig blandað sér inn í. Þess vegna kærum við okkur ekki um afskipti löggjafarvaldsins af þessum málum, því að þá er girt fyrir, að þar verði meiri fullkomnun. Það er mín skoðun, að við eigum að byggja upp frjálsan félagsskap. Ég er því hissa á, að heill stjórnmálaflokkur skuli fylkja sér um mál eins og þetta.