09.11.1948
Neðri deild: 12. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 453 í C-deild Alþingistíðinda. (3904)

39. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Ólafur Thors:

Það er ekki mikið hlutverk að glíma við þennan unga mann, en leiðinlegt er það. Hann segir, að ég hafi verið að belgja mig út á þinginu í fyrra. Vill hann ekki átta sig á því, að það skyldi nú aldrei vera, að ég hefði engar ræður haldið hér í fyrra. (GÞG: Þess þurfti ekki.) Hvað segir prófessor Gylfi Þ. Gíslason prófessor? (GÞG: Það sést á hv. þm. belgingurinn, bara ef hann gengur um.) Það er oflof, sem hann ber á mig, þegar hann segir, að ég hafi verið þaulsætinn í ráðherrastóli. Mitt sæti þótti nokkuð oft autt þá. En síðan hef ég sótt fundi enn síður. Það skyldi nú ekki standa í sambandi við þá leiðinlegu mælgi þessa ræðumanns, sem gerir ekkert nema standa upp og segja: Ég er ánægður með sjálfan mig. Hann skyldi aldrei hafa tekið eftir, að það vantaði hér í d. fleiri en mig. Hvað segir prófessor Gylfi Þ. Gíslason prófessor um það? Nei, ég var á fundum Sameinuðu þjóðanna fyrri hluta þingtímans í fyrra og lá rúmfastur eftir nýár, og ég held, að ég hafi þá aldrei tekið til máls, nema ég hélt eina útvarpsræðu. Þetta getur prófessor Gylfi Þ. Gíslason prófessor rannsakað. Um sæti mitt er það að segja, að ég hef alls ekki dregið um sæti. Ég hef setið hér, síðan ég hætti að vera forsrh., og ég geri ráð fyrir, að það sé vitalaust. A. m. k. hefur hæstv. forseti, flokksbróðir þessa hv. þm., ekki fundið að því, og ég hygg, að ég sitji hér, meðan mér sýnist.

Annars er það misskilningur, að ég hafi verið að belgja mig út yfir merkilegheitum hans. Hann er miklu fremur ómerkilegur en merkilegur. Hitt er alveg satt, að hann er hér eins og fuglahræða í varplandi. Menn fara úr d. í herbergin í kring, reykja og tala saman, meðan hann er að halda þessar ræður sínar, þessar óendanlegu ræður, og það er eina ástæðan fyrir því, hvað hér er fátt manna. Ég get sagt honum það, að hann er enginn maður til að fara í taugarnar á mér, en mér leiðist hann. Mér finnst hann svo leiðinlegur. Ég get ekki að því gert. Ég vildi heldur, að mér gæti þótt hann skemmtilegur, en ég get það ekki, og mér er ekki láandi, þó að mér þyki hann leiðinlegur, því að hann er leiðinlegur.