05.04.1949
Neðri deild: 86. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 547 í C-deild Alþingistíðinda. (4111)

172. mál, leigunám og félagsrekstur togara

Flm. (Skúli Guðmundsson) :

Herra forseti. Þetta frv. um leigunám og félagsrekstur togara var borið fram hér í d. áður en samkomulag varð í þeirri deilu, sem stóð langan tíma milli togaraeigenda og skipverja á togurum. Með flutningi þess frv. var bent á leið til þess að tryggja það, að ekki komi á ný til slíkrar stöðvunar eins og þeirrar, sem nú nýlega er afstaðin og stóð í 1½ mánuð. Sáttatilraunir fóru fram í þessari deilu, en lengi árangurslaust. Það er óþarft að orðlengja um afleiðingar þessarar löngu stöðvunar. Það er öllum kunnugt, að af henni hefur leitt mikið gjaldeyristap fyrir þjóðina. Sumir menn munu ef til vill telja, að þetta frv. sé óþarft, úr því að samkomulag náðist í þeirri deilu. En það, sem gerzt hefur á þessum vetri, stöðvun togaranna í lengri tíma vegna ósamkomulags þeirra manna, sem þar eiga hlut að máli, getur vitanlega gerzt aftur að óbreyttu fyrirkomulagi á þessum rekstri. Ég tel því fulla ástæðu til þess að hafa til löggjöf, sem getur komið í veg fyrir, að slík stöðvun endurtaki sig til stórtjóns fyrir þjóðfélagið í heild, og af þessari ástæðu vildi ég leggja til, að frv. yrði tekið til meðferðar í d., þó að samningar tækjust, eftir að frv. var fram komið.

Nýju togararnir, sem frv. nær til, voru keyptir af ríkisstj. samkv. ákvörðun Alþ. og fyrir almannafé, og það er því ekkert einkamál útgerðarmanna og sjómanna, ef þeir eru bundnir í höfn um langan tíma í stað þess að stunda veiðar. Það er mál, sem snertir alla þjóðina og ekki er hægt að láta afskiptalaust. Ég sé ekki ástæðu til þess að rekja efni frv. nákvæmlega í einstökum greinum. Ég vænti þess, að þær séu það ljósar, að Alþ. geti áttað sig á því, hvað hér er á ferðinni. Ég vil með örfáum orðum rifja upp, hvernig búið er að deiluaðilum, ef slíkt frv. yrði samþ. sem hér liggur fyrir og kæmi til framkvæmda. Togaraeigendur fá samkv. frv. greidda vexti af stofnlánum, sem hvíla á skipinu, og eins af eigin fé, ef um það er að ræða. Þar að auki greiðir leigutaki fyrningargjald, 6 af hundraði á ári af upphaflegu kostnaðarverði skipsins, auk þess hluta kostnaðar við flokkunarviðgerð skipanna eftir mati. Ég held, að togaraeigendur séu ekki órétti beittir. Sé hins vegar litið á það, sem skipshöfninni stendur til boða samkv. frv., þá er það þetta: Skipshöfnin á kost á því að fá skipið á leigu til eins árs. Áhöfn hvers skips hefur rekstur skipsins á hendi og leggur til stjórn og framkvæmdastjóra útgerðarinnar. Þeir eiga að borga af aflaverðmæti allan kostnað, viðhald skipsins, útbúnað og taka þátt í greiðslum vegna klössunar og auk þess leigu eftir skipið, sem áður hefur verið lýst. Þetta er allt kostnaður, sem alltaf þarf að borga, hver sem rekur togaraútgerðina. Þarna eru engin óeðlileg útgjöld lögð á leigutaka. Skipverjar á hverju skipi skipta síðan öllu aflaverðmætinu á milli sín, eftir að allur óhjákvæmilegur kostnaður hefur verið greiddur, eftir reglum, sem þeir sjálfir setja. Þeir fá allan hagnað, sem verða kann af útgerðinni. Ég tel, eins og ég sagði áðan, að þó að þessi deila sé leyst í þetta sinn, þá sé full ástæða fyrir Alþ. að athuga þetta mál, og ég leyfi mér að leggja til, að frv. þessu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.