25.11.1948
Efri deild: 20. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 585 í C-deild Alþingistíðinda. (4210)

78. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Ég vil fyrst taka til athugunar það síðasta, sem hv. þm. sagði, sem sé, að hægt sé að bæta úr þessu ástandi með því að taka af öðrum félögum það, sem þau hafi ranglega fengið í fríðindum, og átti hann þar við hlutafélögin. Má ég ekki benda þm. á, að til er annar félagsskapur í landinu, sem heitir samvinnufélagsskapur og hefur miklu meiri fríðindi, hvernig sem á allt er litið, fyrir sinn rekstur en hlutafélögin. Þess vegna finnst mér koma úr hörðustu átt, að hv. þm. skuli halda því fram, að hlutafélagsreksturinn í landinu sölsi undir sig óbeinlínis fríðindi. Í frv. því, sem ég er með hér, er á það bent, að ef hlutafélögin í landinu væru háð þessum sömu skorðum og einstaklingsreksturinn, gætu þau ekki starfað, en það er kannske það, sem hv. þm. stefnir að, að þessi hlutafélög séu gerð óstarfhæf með sköttum. Skattalögin hafa fyrir rás viðburðanna orðið þannig, að skattgreiðendur rísa ekki undir þeim lengur. Hv. 1. þm. N-M. er þetta vel kunnugt. Ég er ekki að halda því fram, að samvinnufélögin séu ekki lífvænleg starfsgrein, en það eru hlutafélögin líka. Ef draga ætti frá þeim þessi litlu fríðindi varðandi varasjóðstillögin, þá gætu þau ekki starfað áfram. Ég skal ekki mæla bót einstökum tilfellum, þar sem misnotkun hefur átt sér stað, — ég veit, að þau eru til, en það afsakar ekki, að öll hlutafélög séu mæld á sams konar mælikvarða, sum þeirra hafa stórkostlega framleiðslustarfsemi með höndum.

Ég skal svo ekki hafa þetta lengra að sinni. Það verður vafalaust tækifæri til þess síðar að ræða hér á Alþ. einmitt þetta mál. Eins og hv. þm. Barð. sagði, bætir þetta frv. lítið skattalögin í heild, en verði það að l., bætir það úr einum stórum ágalla þeirra. Skattalögin þurfa endurskoðunar við, og menn hafa vonað, að n. sú, sem haft hefur þétta með höndum, mundi taka l. til rækilegrar endurskoðunar. En ég verð að segja, að von mín er ekki mikil. Þótt bætt verði úr stærstu ágöllunum, hefur það ekki í för með sér neina heildarbót á l. eins og þau eru orðin fyrir rás viðburðanna á undanförnum árum.