29.03.1949
Sameinað þing: 58. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 134 í D-deild Alþingistíðinda. (4409)

177. mál, þátttaka Íslands í Norður-Atlantshafssamningi

Katrín Thoroddsen:

Þingsályktunartillöguna á þskj. 499, um þátttöku Íslands í Norður-Atlantshafssamningi, má ekki samþykkja, er ekki hægt að samþykkja. Þetta virðulega Alþingi, þessi samkoma 52 háttvirtra þingmanna hefur hvorki nokkra heimild né hið minnsta vald til þess að veita fullgild, samþykk svör við tilboði því, sem hér liggur fyrir. Til þess skortir Alþingi bæði lagalegan og siðferðilegan rétt. Hvorki sú kynslóð Íslendinga, sem nú er uppi, né nokkur önnur er þess umkomin að veita slíkt vald, slíkan rétt. Ísland hefur verið, er og verður ávallt ævarandi eign hins íslenzka ættbálks, ættaróðal, sem ekki er hægt að farga, ekki er hægt að ráðstafa undan íslenzkum yfirráðum, íslenzku valdi í hendur og umsjá annarra kynkvísla, annarra þjóða, annarra ríkisstjórna. Það er staðreynd, sem enginn og ekkert fær um þokað, meðan íslenzk þjóð er enn í tölu lifenda og byggir þetta land; og íslenzka þjóðin er enn á lífi og hefur ekki í hyggju að yfirgefa Ísland né láta af hendi eða afsala sér neinum af réttindum sínum undir vald erlendra þjóða.

Lagasamþykktir og samningar, gerðir af hálfu Alþingis, er í þá átt ganga að skerða landsréttindi Íslendinga, geta því aldrei orðið bindandi fyrir hina íslenzku þjóð, hversu rammlega sem frá þeim er gengið, en þær geta, ef illa tekst til, fjötrað þjóðina um ófyrirsjáanlega framtíð, meitt hana og jafnvel myrt. Og því hvílir svo þung ábyrgð á alþingismönnum nú, aldrei meiri og aldrei þyngri en einmitt nú, og því verður aldrei of brýnt fyrir íslenzkum alþingismönnum að sjást vel fyrir og gæta þess vandlega að játa ekki á þjóðina, á þroskaða og óþroskaða þjóðfélagsþegna, á ókomnar kynslóðir, já einmitt allra sízt þær, neitt það, er skerði réttindi landsins og frelsi Íslendinga. Aðgæzlan er öllum hent og alltaf hent, en þó ríður engum öðrum meir á henni en örlítilli smáþjóð, sem á land sitt, fjör og frelsi að verja fyrir ásælni og ágengni eins öflugasta og ósvífnasta auðvaldsríkis heimsins. Kjörnum fulltrúum þjóðar, sem aðeins fyrir skömmu síðan hefur losnað úr margra alda ánauð og nú er í slíkum vanda stödd, er vissulega skylt að vaka á verðinum og viðhafa fyllstu gætni í gerðum sínum öllum. Það ætti að vera með öllu óþarfi að hvetja Alþingi Íslendinga, að hvetja ríkisstjórn Íslands til gætni og varúðar, þegar svo mikið er í húfi og raun ber vitni um: Ættjörðin sjálf í yfirvofandi hættu, meiri hættu en nokkru sinni fyrr, fullveldi landsins stefnt í voða og landsréttindi, tunga, menning, frelsi og jafnvel líf þjóðarinnar í veði, ef ógæfusamlega tekst til. Og svo er það fullyrði ég, ef svo hörmulega fer, að sáttmáli sá, sem hér liggur fyrir, er gerður, — sáttmáli, er lýst hefur verið sem vita meinlausu og að því er manni skilst marklausu samúðarskeyti til vinveittra þjóða.

Atlantshafssáttmálinn og hinar geigvænlegu afleiðingar, sem gerð hans mundi hafa fyrir land og þjóð, verður ekki að fullu skilið nema í ljósi þess, sem liðið er, nema í ljósi nokkurra staðreynda, og vil ég mega rifja upp ofur lítið af því, sem á undan er gengið, og get farið fljótt yfir sögu, því að aðrir ræðumenn hafa þegar að því vikið. Það er óhrekjanleg söguleg staðreynd, að í skiptum og samningsgerðum, sem auðvaldsríki standa að, gætir siðgæðis alls ekki og hreinskilni þaðan af síður, hún er óþekkt hugtak. Þar þykir kurteisi að segja eitt og meina annað. Auðvaldsþjóðir, eða öllu heldur ríkisstjórnir hlutaðeigandi þjóða, reyna hver um sig að koma sinum áformum fram, að ná því marki, sem þær hafa sett sér, með hvaða hætti sem er. Og markið er ávallt fólgið í hagsmunum þeirrar klíku eða þess hóps manna, sem að stjórninni stendur, önnur sjónarmið komast ekki að. Það eru hagsmunir þessarar klíku eða þessara manna, sem stefnu stjórnanna ráða, og sá hópur ræður einnig, hvaða aðferðum skuli beitt til að koma áhugamálunum fram, og þær aðfarir eru næsta ófagrar, svo ljótar sem unnt er að gera sér í hugarlund, og eitt er það, sem aldrei kemst að, aldrei verður vart, og það er tillitssemi við aðra. Enginn glæpur er svo auvirðilegur, ekkert það illvirki til svo illt, að klíku, sem að stjórn auðvaldsríkis stendur, bresti geð til að framkvæma það sér og sínum áhugamálum til framdráttar. Hvers konar brögðum og klækjum er beitt til hins ýtrasta, en bregðist lævísin, þá eru ógnanir, einkum viðskiptalegs eðlis og á sviði atvinnumála, kúgun, lygar, skipulagður ófyrirleitinn áróður, mútur, svik, fangelsun, launmorð, réttarmorð og manndráp, vopnin, sem beitt er, og að lokum er alltaf hægt að stofna til styrjalda, koma á stað innanlandsóeirðum, borgarastyrjöldum, eða stríði landa í millum, og til slíks þarf augsýnilega oft að grípa.

Það, sem af er þessari öld, hefur alltaf verið einhvers staðar stríð í heiminum og er það enn, mannskætt, stöðugt stríð í Kína, Indókína, Indónesíu, Madagaskar, Burma og Grikklandi, en miklu víðar er það þó. — Og stríð er reyndar ekkert neyðarúrræði, því að mikið má upp úr því hafa, selja vopn, olíu o. fl., sem til slíkra hluta telst nauðsynlegt, og stríð er betra en kreppa að dómi auðvaldsríkjanna, eins og einn þingmaður Bandaríkjanna orðaði það nýlega, en um annað en þetta tvennt er ekki að ræða, þar sem hagkerfi auðvaldsins ræður. En til þess að heyja stríð, jafnt heitt sem kalt, þarf aðstöðu til sóknar og varnar, og einmitt af þeim sökum og þeim einum er ágirnd Bandaríkjanna á Íslandi sprottin.

Ágirnd Bandaríkjastjórnar á Íslandi er ekki gömul að árum, en hefur vaxið og magnazt því örar. Áhuga hennar á Íslandi verður fyrst vart svo vitað sé, er Roosevelt forseti lýsir því yfir í sept. 1940, eftir að hafa setið á ráðstefnu með herforingjaráði sínu, að öryggislína Bandaríkjanna sé austan Íslands. Í ævisögu sinni segir Cordell Hull frá því á bls. 946, að á aðfangadag jóla 1940 hafi honum borizt fyrirspurn frá þáverandi utanríkisráðherra (núverandi forsætisráðherra, Stefáni Jóhanni Stefánssyni) um það, hvernig Bandaríkjastjórn mundi snúast við, ef Alþingi Íslendinga bæði Bandaríkin um vernd gegn Þjóðverjum. Hvort hér var um að ræða framtak einstaklingsins eða hvort öll ríkisstj. stóð að fyrirspurninni, hermir ekki saga, og þá ekki heldur hitt, hvort fyrirspurnin var fram komin að undirlagi Breta, sem hertekið höfðu Íslendinga þann 10. maí 1940, eða hvort hér var á ferðinni hin fyrsta fyrirskipun til íslenzkra stjórnarvalda frá bandarísku stjórninni, sem þau hlýddu aðgæzlulaust án þess að yfirvega í minnsta máta, hvað af slíkri málaleitan kynni að leiða fyrir Ísland í framtíðinni. Og auðvitað fékk Alþingi, fengu Íslendingar sjálfir ekkert um slíkt að vita, það var viðkvæmt utanríkismál, sem ekki mátti nefna, og því var haldið fram, að sósíalistar, sem vöruðu við, hvað í ráði væri, færu með gaspur, og þeim sagt að þegja, hvað þeir auðvitað ekki gerðu.

Hull svaraði mjög kurteislega málaleitan hins íslenzka utanrrh. 18. jan. 1941 og kvað Bandaríkjastjórn vilja hafa frjálsar hendur til að verja eigin hagsmuni og engar skuldbindingar takast á hendur. „En,“ heldur Cordell Hull áfram í ævisögunni, „flotastjórninni var þegar falið að athuga aðstæður allar.“ Þessi afstaða Bandaríkjastjórnar er ofur skiljanleg og eðlileg, en hún sýnir glöggt það, sem fyrr var vitað og enn er vitað, að auðvaldsríkjastjórnir stórveldanna hugsa alltaf fyrst og fremst um sjálfar sig og sína eigin hagsmuni og aðeins þá, en eru ekki að hendast á stað til að hjálpa litla bróður, sem í vanda er staddur. Þær láta tröllin taka hann, nema það borgi sig betur að gæta hans, að gleypa hann sjálfur, og á jólunum 1940 vissu Bandaríkin ekki glöggt, hve vel hann færi í maga. En herstjórn Bandaríkjanna athugaði vel og vandlega, hvernig hernaðaraðstaða Íslands væri og hvert gildi hún hefði fyrir Bandaríkin, og árangur þeirrar athugunar var, að Ísland væri kjörstaður sem útvörður til árása og varna, herstöð, sem að vísu yrði dýr í rekstri, — því að Ísland útheimti mikið lið og mikinn vígbúnað, á landi, í lofti og á sjó. Þessum athugunum var lokið um vorið, og síðan hefur Bandaríkjastjórn og herráð hennar aldrei gleymt mikilvægi Íslands sem virki til árásar og sóknar, virkis í fremstu víglínu árásarkerfis Bandaríkjanna.

Hinn 7. júlí 1941 steig bandarískur her á land til að vernda Ísland, samkvæmt bráðabirgðasamningi við ríkisstj. Alþingi áréttaði síðan gerðir ríkisstj. í nýjum og nánari sáttmála, þar sem Bandaríkjunum var falin hervernd Íslands til stríðsloka, en þá skuldbundu þau sig til að verða á brott með allt sitt lið. Það var í almæli haft þá, að Bandaríkjastjórn hefði fylgt eftir kröfunni um hernaðarstöðuna með hótun um hungurmorð þjóðarinnar, ef ekki væri að gengið, og ekki var veittur langur umhugsunarfrestur þá fremur en síðar. Hvernig svo sem það hefur verið, er hitt víst, að nokkrir þeirra 39 þingmanna, sem sáttmálanum greiddu atkvæði, létu þess getið, að þeir litu á hann sem nauðungarsamning. Aðeins þrír þm. Sósfl. greiddu atkv. á móti, einn af þm. flokksins var sem kunnugt er erlendis í haldi hjá Bretum fyrir að halda uppi málstað Íslands og íslenzks verkalýðs og brottfluttur samkvæmt áeggjun íslenzkra manna.

Um sjálfa hervernd úrvalsliðsins skal ég ekki fjölyrða, hún hefur sjálfsagt ekki orðið árekstrameiri, en við mátti búast: rán, gripdeildir, nauðganir, spilling unglinga af báðum kynjum, manndráp, og yfirleitt hvers konar siðspilling, sem ávallt fylgir hernámi og hersetu, einnig þó á friðartímum sé: Nokkur hundruð íslenzkra kvenna hurfu Íslandi, fluttu til Bandaríkjanna sem eiginkonur og unnustur Bandaríkjamanna, og var það allmikil blóðtaka okkar fámennu þjóð. Að vísu hafa allmargar þeirra skilað sér aftur, ekki unað hag sínum hjá hinni vinveittu vestrænu lýðræðisþjóð. En illa hefur þeim gengið að fá innheimt meðlög sín, og ekki hefur þess orðið vart, að íslenzk stjórnarvöld styddu hinar fráskildu konur til að reka réttar síns.

Í herverndarsamningnum hét Bandaríkjastjórn því, eins og kunnugt er, að hverfa þegar á brott með allt sitt lið að stríðinu loknu. Þau loforð sviku Bandaríkin, eins og líka er kunnugt, en í þess stað fór Bandaríkjastjórn fram á að fá herstöðvar á þrem tilteknum stöðum til 99 ára. Slíka kröfu hefðu Bandaríkin aldrei af hagsýnum ástæðum sent Alþingi Íslendinga, ef þau hefðu ekki áður talið sér tryggt að, að þeim yrði gengið, og er engum vafa undirorpið, að þáverandi utanríkis- og forsætisráðherra (ÓTh) hafði léð máls á því við Bandaríkin að láta þeim herstöðvar í té. Það er svo sennilegt, að telja má fulla vissu, að hann, Ólafur Thors, hafi í yfirlætisfullu ábyrgðarleysi heitið Bandaríkjastjórn herstöðvum. Í þann mund að þetta gerðist, haustið 1945, var andrúmsloftið hér á Alþingi þannig, að ekki fékk dulizt, að þar átti Ísland formælendur fáa, en Bandaríkin það margt handgenginna manna, að kröfurnar hefðu getað náð samþykki Alþingis. En þá kom babb í bátinn. Þjóðin reis upp undir forustu Sósfl. og annarra þjóðhollra manna og andmælti kröfum Bandaríkjastjórnar af slíkum þunga, að hinir handgengnu sáu sitt óvænna og treystust ekki til að fylgja þeim fram, með því líka að kosningar fóru í hönd. Því varð úr, að herstöðvabeiðninni var hafnað, en ekki af þeirri einbeitni sem skyldi, enda mun Bandaríkjastjórn hafa verið með í ráðum. Og nú skyldi brögðum beitt.

Bandaríkjastjórn gerði út sérstakan útsendara, Cumming að nafni, til að segja fyrir verkum, hvaða aðferðir skyldu viðhafðar og hvernig framkvæmdum skyldi hagað. Bandaríkin skyldu sætta sig við að fá herstöðvarnar í áföngum í stað einnar lotu, en að því þó tilskildu, að ekki yrði á Íslandi þjóðholl stjórn, þ. e. a. s. engir sósíalistar í stjórn. Seinna var svo fyrsta stjórn Alþfl. á Íslandi mynduð.

Fyrir kosningarnar 1946 hétu allir frambjóðendur trúnaði við íslenzkan málstað, að undanskildum Jónasi Jónssyni og Birni Ólafssyni, en hann hafði verið svo opinskár í blaði sínu, Vísi að ekki þótti tiltækilegt að skipa honum í vonarsæti á lista íhaldsmanna, en þeim málalokum undi Björn Ólafsson illa og mun hafa haft í heitingum um að kljúfa flokkinn, og þá var það, sem hæstv. dómsmrh., Bjarni Benediktsson, beitti hann drengskaparbragðinu góða, sem ógleymt mun. En þessa get ég hér til að nefna ofurlítið dæmi um það, með hvílíkum fláttskap til kosninga var gengið. Að þessum tveimur þingmönnum undanskildum lofuðu aðrir frambjóðendur, sem kosningu náðu, að standa vörð um frelsi landsins. Að kosningum loknum kom á daginn, að þar var af litlum heilindum mælt. Fjörráð þeirra Ólafs Thors og ameríska útsendarans birtust fyrst í Keflavíkursamningnum, sem Ólafur Thors lagði fram með þeim skilaboðum, að Bandaríkjastjórn gerði það að skilyrði fyrir að standa við orð sín í herverndarsáttmálanum, að þau fengju herstöð í Keflavík, að vísu ekki þannig orðað, en þó þannig meint. Herstöðinni var lýst sem eins konar sæluhúsi fyrir lofthrakta menn. En þótt íslenzk alþýða sé öllum þjóðum örlátari og hjálpfúsari, gat hún ekki sýnt þá rausn að lána óræktarmela til þessarar mannúðarstarfsemi, og enn reis hún upp til öflugra andmæla. En nú voru kosningar afstaðnar, og nú rufu 32 þingmenn trúnað sinn við land og þjóð og eigin drengskaparheit og samþykktu flugvallarsamninginn alræmda, illu heilli.

Á samningsuppkastinu fengust gerðar hér á Alþingi ofurlitlar breytingar til hins betra, og það þrátt fyrir margendurteknar fullyrðingar Ólafs Thors um hið gagnstæða, en fum hans var svo mikið í fjálgleikanum að sýna Bandaríkjastjórn hollustu sína, harðfylgi og völd, að ekki hafði hann gefið sér tíma til að láta þýða plaggið á skammlaust íslenzkt mál og þaðan af síður ætlað nokkurn tíma til, að það yrði athugað og rætt eða borið undir þjóðaratkvæðagreiðslu. Þjóðaratkvæðagreiðsla fékkst auðvitað ekki, það fór ekki meira fyrir lýðræðinu þá en nú. Samningnum var flaustrað af í flýti, og framkvæmd hans hefur verið með þeim hætti, að hagur Íslendinga og réttur hefur verið látlaust fyrir borð borinn, íslenzk lög margbrotin og þverbrotin, og það allt saman óátalið af núverandi dómsmrh. (BBen). Eftirlitið af hans hálfu hefur verið slíkt, að jafnvel hér á Alþingi, sem þó er skipað skaplitlum mönnum, sem honum eru eftirlátir og auðsveipir svo um munar; þorði hann ekki að láta þáltill., sem Áki Jakobsson flutti hér á þingi í fyrrahaust, fá þinglega meðferð og athugast í nefnd, og enn hefur ekki verið svarað á þinglegan hátt fyrirspurnum, er fyrir þessu þingi liggja, um lögbrotin á Keflavíkurflugvelli.

Það er ekki að undra, þótt Bandaríkjastjórn fari sínu fram á Keflavíkurflugvelli. Bandaríkjastjórn hefur alltaf litið á flugvöllinn sem herstöð sína, og því nafni hefur hann óhikað verið nefndur í bandarískum blöðum. En sjálfsagt hefur framkoma utanrrh. og dómsmrh. (BBen) komið á óvart mörgum Íslendingum, sem höfðu trúað, að hér væri aðeins um sæluhús að ræða, og auðvitað yrði íslenzkum lögum framfylgt þar, jafnvel þótt það kynni að kosta eitthvert nudd og erfiði að halda í við Bandaríkjamenn. Við öðru hefur líklega enginn búizt, en að þeir sýndu yfirgang allmikinn og ágengni. Íslendingar hafa reynslu af því frá skiptum sínum við erlend stjórnarvöld, norsk og dönsk, á öldum áður, að ekki tjáir að láta hlut sinn með öllu afskiptalausan, og þeir gerðu það heldur aldrei og fengu því haldið í við konunga um réttindi sín og sjálfstæði að verulegu leyti. Landsmenn voru þá minnugir á sögu sína og lögmenn kunnu þá íslenzk lög og gátu vitnað í forna sáttmála máli sínu til stuðnings og gerðu það óspart og óhikað, hver sem í hlut átti, og það jafnvel á hinum mesta niðurlægingartíma seytjándu aldar til dæmis.

Núverandi utanrrh. og dómsmrh. (BBen) er mjög gjarn á að miklast af því í ræðum sínum hér á þingi, hve lögfróður hann sé og einkum laginn að skýra lög, en þess verður ekki vart, að hann hafi hina nýrri sáttmála, er gerðir hafa verið við Bandaríkjastjórn, ávallt handbæra eða hugfasta, og fylgja þeir þó í prentuðum eintökum embætti hans, en ekki á þvældum skrifuðum blöðum eins og gamli sáttmáli fylgdi lögmannsembættinu til forna. En þar sem ástæðulaust er að draga í efa lagakunnáttu hæstv. dómsmrh., getur ekki verið öðru til að dreifa en að viljann skorti og duginn til að fylgja eftir, að íslenzkum lögum sé framfylgt, þegar Bandaríkjamenn eiga í hlut. Það er óhamingja Íslands, að á þessum örlagaríku tímum er það verr á vegi statt að því er mannval áhrærir í ábyrgðarmiklum stöðum, en nokkru sinni fyrr í öllum sínum hörmungum og nauð á fyrri öldum. Með stjórn landsins fara á örlagatímum ótrúir menn og dyggðasnauðir, lítil sigldir og illviljaðir, hugdeigir og hæfileikasnauðir erindrekar erlends valds, ef dæma skal eftir afleiðingum gerða þeirra og afrekum öllum á sviði stjórnmálanna, bæði innanlands og utan, og þótt ill sé óstjórnin í innanlandsmálum, er þó hitt miklu örlagaríkara, hvernig haldið hefur verið á utanríkismálum, sjálfstæðismálunum, á undanförnum árum og er enn.

Þremur síðustu hæstv. ráðherrum, er með utanríkismálin hafa farið, hefur verið ærið tamt, er Íslendingar vildu sjálfir fylgjast með og ræða stjórnarfarsleg viðskipti við önnur ríki, að skjóta sér bak við þann talshátt, að hér væri um svo viðkvæm utanríkismál að ræða, að ekki mætti óvarlegt orð um þau falla í ótíma og nauðsyn væri slíkrar varfærni, að einungis væri ábyrgðarmiklum og aðgætnum mönnum sem sjálfum þeim þar nærri komandi. Vissulega eru öll utanríkismál viðkvæm, en þó eru þau fyrst og fremst vandasöm og viðsjál, og hvernig hefur varfærnin og aðgæzlan verið hjá þessum ábyrgu og aðgætnu mönnum? Hún hefur verið slík, að með mikilvægustu mál hefur verið farið sem hégóma einberan. Aðgætnin hefur verið miklu minni, en venja er að viðhafa í einföldum viðskiptum manna á meðal. Hvort sem í hlut eiga ættingjar eða óskyldir einstaklingar, félög eða fyrirtæki þykir sjálfsagt að gæta ávallt ýtrustu aðgæzlu í samningagerðum öllum, og því meira sem í húfi er, því meiri alúð er sýnd við samningsgerðina. Og enda þótt mótaðilinn sé valinkunnur sæmdarmaður, þekktur að orðheldni og heiðarleik í hvívetna, þykir samt alltaf rétt að athuga allar aðstæður vel og vandlega, áður en frá gerðinni er gengið, og það eins þótt ekki sé það sérlega veigamikið, sem um er samið. En sérstaklega þykir þó alltaf ástæða vera til varkárni, ef í hlut á sá samningsaðili, sem gruna má um græsku eða þekktur er að óheiðarleik, ágengni og ofbeldi og reyndur er að því frá fyrri skiptum að ganga á gerða samninga, hafa að engu hátíðleg loforð, virða eignir og rétt annarra að engu. Flestum mönnum og öllum sómamönnum er svo farið, að þeim er óljúft að eiga skipti við þá, sem þannig haga sér, og kjósa þó allra sízt að eiga nokkurn hlut undir þá að sækja. En neyðist menn allt um það af óviðráðanlegum atvikum að semja um einhver mál við slíka menn, mun vandfundinn sá maður, sem einhverra hagsmuna á að gæta og óbrjálaða greind hefur, að hann reyni ekki af fremsta megni að búa svo um hnútana, að réttur hans sé að fullu tryggður, svo að öruggt sé að hlutur hans verði ekki enn á ný fyrir borð borinn, og hann gengur ekki til nýrra samninga við blendinn mann í barnslegri einfeldni og með trúnaðartrausti, heldur með tortryggni, aðgæzlu og varúð, og vitanlega setur hann það sem ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir því, að samningar geti hafizt, að fyrri gerðir verði haldnar, því að samningar eiga að verða gagnkvæmir, að bætt verði fyrri brotin. Og heiðarlegur maður byrjar ekki samningagerð á því að taka á móti fjárfúlgum, mútum, enda þótt þær væru nefndar ölmusur og vinargjöf og enda þótt hann hafi aldrei vikið að því einu orði áður, að slíkt lítillæti mundi sig aldrei henda. Og hagsýnn maður hefur ekki samningsfundinn á því að lýsa yfir fyrir fram í eyru mótaðilans, í blaðaviðtölum og útvarpi, að hann ætli hiklaust að ganga að samningstilboðinu eins og það liggur fyrir, enda þótt það hafi að geyma alls konar fyrirmæli, sem háskasamleg eru hagsmunum sjálfs hans, veraldarvanur maður veit, að eftir slíkt gaspur er ekki að vænta neinna sérstakra kostakjara eða ívilnana, og sízt tekur gætinn maður sér slík ummæli í munn áður en hann veit með vissu, hvað í samningsákvæðunum felst, áður en hann fær að vita, hvaða kvaðir og skyldur sáttmálinn leggur honum á herðar.

Nei, þannig hegðar sér enginn heiðarlegur maður, sem semja á um sjálfs sín kjör, enginn, sem fer með eða telur sig fara með umboð annarra. Þannig hegðar sér aðeins sá, sem algerlega er á valdi mótaðilans, í hans brauði og á mála hjá honum, og er lítilsiglt dindilmenni í þokkabót. En einmitt á þessa leið hefur framkoma hæstv. utanrrh. (BBen) verið og eins fyrirrennara hans í starfanum, hv. þm. G-K. (ÓTh), og hæstv. forsrh. (StJSt), í hinum viðkvæmu utanríkismálum. Aðgæzlan engin og hagsmunir erlends valds settir hagsmunum Íslands ofar. Framkoma þeirra verður ekki skýrð með því, að þeir viti ekki, hvað þeir eru að gera. Þeir vita það mætavel og allt of vel. Þetta er gamla sagan um samvizkulausa menn, menn, sem ekkert er heilagt, sem öllu vilja fórna til þess eins að öðlast völd, til þess að halda völdum og þeirri aðstöðu, sem völdin veita, og þeir vita vel, allt of vel, að þeirri aðstöðu fá þeir aðeins haldið undir verndarvæng Bandaríkjahers. En menn undir aga hafa ekki mikil völd, menn undir heraga engin, en hlýðnisskylda því meiri, og þess vegna er nú slíkt ofurkapp lagt á annan áfangann í herleiðingu Íslands, þann áfanga, er þeir hétu Bandaríkjastjórn að skyldi nást, þegar um haustið 1945, fresturinn, sem þá var gefinn, er á enda liðinn og örlagastund Íslands upp runnin.

En var Atlantshafsbandalagið þá þegar ákveðið? Nei, um aðferðina var ekkert ákveðið að sinni, aðeins áformið, markmiðið. Þessi leið var valin af Bandaríkjastjórn, og auðvitað hlýða kvislingarnir kalli: Their's not to reason why, their's but to do and knigh, og þeir hneigðu sig og koma nú fyrir Alþingi Íslendinga með tillögu til þingsályktunar um þátttöku Íslands í Norður-Atlantshafsbandalagi, tillögu um, að gengið verði að Atlantshafssáttmálanum viðstöðulaust, án þess að alþingismenn fái tóm til að ræða hann í ró og næði, án þess að þjóðin fái að athuga samninginn. Þó fullyrða þeir, að engri þvingun sé beitt til að knýja Ísland að gerast aðili að samningi, sem þeir viðurkenna, að vel mætti bíða með, vegna þess að engin árás sé yfirvofandi, en þó má ekki draga í nokkra mánuði að gerast aðili að honum, að því er hæstv. menntmrh. (EystJ) tók fram í gær, svo mikið lægi á að gera ráðstafanir, líklega til varnar Íslandi, sem þó að þeirra eigin sögn á ekki að vígbúa á friðartímum. Þeir fagna samningnum ýmist sem friðarboða eða þeir lýsa honum sem meinlausri viljayfirlýsingu um óvirka samúð með þjóðum þeim, er að sáttmálanum standa, eða þeir ögra með samningnum sem ávísun á hin öflugustu morðtól og vígvélar, ávísun, sem þó á aldrei að innleysast, eftir því sem þeir fullyrða í næsta orði.

Íslendingar eru friðsöm þjóð og hafa tjáð friðarvilja sinn með því að leggja fyrstir manna niður vopn og lýsa yfir ævarandi hlutleysi sínu, hlutleysi, sem er jafnóhaggað fyrir yfirlýsingum Stefáns Jóh. Stefánssonar, hæstv. forsrh., og lögskýringum dómsmrh. hæstvirts (BBen). Það er víst, að íslenzka þjóðin vildi fús eitthvað á sig leggja til að friður mætti komast á í heiminum, en við vitum það, að þá fyrst lögðust niður vígaferli hér á landi, er landsmenn hættu að bera vopn, og við treystum því lítt á friðarvilja þeirra, sem gráir eru fyrir vopnum, hervæðast í óða önn og heimta af okkur herstöðvar. Til þess að tryggja frið er afvopnun eina leiðin, en ekki þessi sáttmáli, og því ber að fella hann.

En sáttmálinn á, að því er segir í 2. málsgr. formálans, að tryggja frelsi, sameiginlega arfleifð og menningu þjóðarinnar og það eftir meginreglum lýðræðis og laga. Þetta er gott, og víst væri hæstv. ríkisstj. hollt að leggja sér þau orð á minnið og væri af þeim sökum, ef til vill ráðlegt að athuga afstöðu sína til samningsins nánar, en við nánari athugun á þjóðunum, sem að sáttmálanum standa, hlýtur sú spurning að vakna: Er það lýðræðið í Bandaríkjunum, sem átt er við, þar sem tíundi hluti þjóðarinnar er dæmdur úrhrak og sætir af þeim sökum ekki mannameðferð, aðeins vegna litarháttar, þar sem réttaröryggi fátæks manns er ekki til, hvort sem hann er hvítur, rauður eða svartur? Er það lýðræðið, sem Bandaríkjamenn hafa verið að hjálpa Grikklandsstjórn að koma á hjá sér á undanförnum árum, eða er það lýðræðið, sem Frakkar eru að koma á í Indókína og Hollendingar í Indónesíu? Það er áreiðanlega einhver önnur tegund af lýðræði, en íslenzka þjóðin á við með því orði og því ekkert undir því eigandi að vera í slíkum félagsskap og af þeim sökum ráðlegast að fella sáttmálann. En bíðum við. Í 3. málsgr. er lofað að leitast við að auka öryggi og velmegun á Norður-Atlantshafssvæðinu, — en það er sama saga, manni dettur í hug, hvort flytja eigi t. d. öryggi Burmabúa norður í Atlantsála, — og fyllist skelfingu. Formálinn er fagur, en félagsskapurinn flár. Þó mætti ekki láta slíkt fæla sig frá sáttmálanum sjálfum, ef hann hefði eitthvað gott að bjóða. Og 1. gr. er afbragð. Þar er því lofað að leysa hvers konar milliríkjadeilumál, sem þeir kunna að lenda í, á friðsamlegan hátt, þannig að alþjóðafriði, öryggi og réttlæti sé ekki stofnað í hættu, og að beita ekki hótunum né valdi í milliríkjaviðskiptum á nokkurn þann hátt, sem ósamrýmanlegur er markmiðum Sameinuðu þjóðanna. Með öðrum orðum, við mundum aldrei framar eiga von á nótu eins og Bretastjórn sendi okkur haustið 1946, þar sem sagt var, að Bretar mundu líta á það með vanþóknun, ef við gengjum ekki að afarkostum Keflavíkursamningsins. Bandaríkjastjórn mundi aldrei framar ógna okkur til samninga, ekki einu sinni á þann einfalda hátt að neita að efna fyrri loforð, nema ný fríðindi væru veitt. Bretar semdu með sanngirni um kaup á sjávarafurðum, og við gætum þá selt lýsið fullu verði, og fleira mætti til telja. Það er aðeins trúnaðartraustið, sem vantar, og að fenginni reynslu tel ég ráðlegra að láta samningsgreinar ekki ginna sig til neins. Alveg það sama er að segja um 2. gr., það er traustið, sem skilur. En í formálanum og 1. og 2. gr. felst það, sem til hlunninda mætti telja fyrir okkur Íslendinga, og það er að minni hyggju ekki svo veigamikið, að rétt sé að farga sér fyrir slík fyrirheit.

En svo koma skyldurnar. Þær hefjast þegar í 3. gr., en þar er öllum bandalagsríkjum gert að skyldu að halda við hervörnum sínum og efla þær og hervörnum alls bandalagsins, Íslandi ekki síður en öðrum. Það er viðurkennt, að Íslandi er ekki heimilt að gera neinn fyrirvara við undirskrift samningsins, enda slíks ekki að vænta, eftir framkomu hæstv. utanrrh. og reynslu Bandaríkjastjórnar af talhlýðni íslenzkra stjórnarvalda. Íslendingar verða, úr því sem komið er, að gera annað tveggja, ganga að samningnum eða hafna honum. Að vísu er því haldið fram, að heitið muni að taka tillit til sérstöðu Íslands sem vopnlausrar þjóðar, er sökum mannfæðar og féleysis sé þess ekki megnug að uppfylla slíkar kvaðir og vilji engar herstöðvar eða her á friðartímum. Íslendingar hafa áður lýst því yfir, að þeir vilji heldur ekki herstöðvar á ófriðartímum, en eftir slíku virðist nú enginn muna, þótt ekki sé lengra síðan, en 1946, að það var gert. Og Íslendingar hafa enn fremur lýst yfir ævarandi hlutleysi. Hvers vegna þá að skuldbinda sig til að efla hér hervarnir og halda þeim við vegna þess eins, að Bandaríkjastjórn, að herstjórn Bandaríkjanna hentar það og hernaðaráætlun Barnaríkjastjórnar krefst slíks? Og Bandaríkjastjórn fer sínu fram, ef hún fær aðstöðu til, hvað sem samningar segja, það þekkjum við Íslendingar af eigin raun, hún hefur rofið á okkur samninga of oft til þess, að við treystum þeim um hársbreidd, og ætti að vera óþarft að minna hv. þm. á, að þrátt fyrir ákvæði Keflavíkursamningsins hafa Bandaríkin komið þar upp herstöð, einum stærsta hernaðarflugvelli heimsins, og eru þegar að undirbúa hann sem öfluga kjarnorkustöð. Að taka mark á ósamningsbundnum fyrirheitum og loforðum frá þeim, sem reyndir eru að samningsrofum, er ekki einungis ófyrirgefanlegt aðgæzluleysi, það eru ófyrirgefanleg afglöp. Og þegar einnig er höfð í huga auðsveipni þeirra manna, sem enn eru við völd hér á landi, gagnvart ágengni Bandaríkjastjórnar, þá væri það glæpur. Verði gengið að þessari grein samningsins, verður Íslandi breytt í útvirki Bandaríkjahers, Bandaríkin fá hér ekki aðeins herstöðvar á þrem tilteknum stöðum, þau taka allt landið til herstöðva. Það væru að vísu svik við gefin fyrirheit, en ef að líkum lætur, yrðu þau svik framin með fullu samþykki íslenzkra stjórnarvalda, ef núverandi ríkisstj. er þá enn við völd. Alþingi Íslendinga hefur engan rétt, enga heimild til að leiða slíkan voða yfir þjóðina, engan rétt til að stofna landsréttindum í slíka hættu. Þessa grein er ekki hægt að samþykkja.

4. gr. er geysivarhugaverð; samkvæmt henni er erlendum ríkisstjórnum gefinn kostur á ekki einungis afskiptum af innanríkismálum, t. d. hvaða stjórn fer hér með völd, og er t. d. hætt við, að Bandaríkjastjórn yndi því illa, að hér væri þjóðholl stjórn við völd, og freistaði að gera viðeigandi ráðstafanir til að koma á eða viðhalda leppstjórn sinni eins og nú, en það er ekki þar með nóg, heldur er erlendum ríkisstjórnum líka veittur réttur til að kveða á um, hvað beri að telja ógnun við öryggi Íslands, og auðvitað þá einnig til að gera viðeigandi ráðstafanir. Slíkum ákvæðum er ekki hægt að ganga að, og því ber að fella þessa grein.

Af 5. gr. er ljóst, að gerist Ísland aðili að sáttmála þessum, hefur það tekið á sig þá skyldu að fara í stríð og heyja stríð. Ísland hefur lýst yfir ævarandi hlutleysi sínu, og því er ekki hægt að samþykkja þessa grein, jafnvel þótt ekkert tillit væri tekið til hins, að Íslendingum er það ekki unnt vegna fæðar, vegna fámennis. Og Íslendingar vilja frið við allar þjóðir, Íslendingar hafa viðbjóð á manndrápum, Íslendingar eru á móti stríði og láta ekki etja sér út í stríð. Utanríkisráðherra hefur sagt frá því, að tekið mundi tillit til mannfæðarinnar og Íslendingar undanþegnir herskyldu. En enga undanþágu eða fyrirvara er leyft að gera, ef að samningnum er gengið á annað borð, og loforð gefin af þeim, sem reyndir eru að brigðmælum, hafa ekkert gildi. — Þessa grein verður því að fella.

Sama er að segja um 6. gr. Íslendingar geta ekki tekið á sig kvaðir um að heyja stríð, ekki heldur þó að skotin yrðu niður loftför suður í Berlín eða Algier. Að þessari grein er ekki hægt að ganga.

Um 7. og 8. gr. sé ég ekki ástæðu til að orðlengja, og hið sama er að segja um 10., 11., 12. og 13. gr., en læt þess aðeins getið, að skárra er en ekki, að hafa ákvæðið um endurskoðun samningsins eftir tíu ár og uppsögn eftir tuttugu ár. En um 9. gr. vil ég segja þetta: Þar er svo kveðið á, að ráð Atlantshafsbandalagsins skuli þegar í stað stofnsetja varnarnefnd, er geri tillögur um ráðstafanir til framkvæmdar 3. og 5. gr. í ræðum þeirra ráðherra kom hvað eftir annað fram sú skoðun, að eina trygging friðarins væru varnir, geysiöflugar, svo öflugar að enginn þyrði á þær að ráðast, jafnframt því sem þeir héldu hinu fram, að hér yrðu engar herstöðvar á friðartímum. Er nú ekki hætt við, að ráðinu, sem gera á tillögur um ráðstafanir til framkvæmda sem ráðgerðar eru í 3. og 5. gr., þyki varnirnar hér ekki nægar, jafnvel þótt þægindin á Keflavíkurflugvelli og Hvalfjörður séu reiðubúin? Á því getur enginn vafi leikið, að Bandaríkjastjórn má sín nokkurs í því ráði, og hitt jafnvíst, að hún vilji þá gera meiri og víðtækari víggirðingar hér á landi og hafa hér meiri og öflugri árásartæki, en nú og er raunar farin að framkvæma það á Keflavíkurflugvelli. Og ekki má gleyma því, að „facilitas“ þýðir ekki aðeins þægindi, heldur líka ráðþægni. Og efar nokkur ráðþægni ríkisstj. hæstvirtrar? Hún veit, hvað hún ætlast fyrir, og því er hún hrædd, ofsahrædd. Þess vegna hefur hæstvirtur utanrrh. um sig lífvörð, og þess vegna er alþingishúsið nú víggirt og fullt af lögregluliði og hvítliðum. Það er af því, að ríkisstj. er hrædd, lafhrædd, og þá hræðslu losnar hún aldrei framar við, aldrei á ævinni framar. Hræðslan hverfur ekki þótt verkinu sé lokið, níðingsverkinu sem ríkisstj. er að fremja. Háttvirtir alþingismenn, látið ekki þau föðurlandssvik viðgangast. Fellið þingsályktunartillöguna um þátttöku Íslands í Atlantshafsbandalagi.