31.03.1949
Sameinað þing: 60. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 216 í D-deild Alþingistíðinda. (4503)

177. mál, þátttaka Íslands í Norður-Atlantshafssamningi

Áki Jakobsson:

Herra forseti. Ég skal ekki fara að rífast um þetta mál, það gætu orðið um það nokkrar umr. En ég vil fyrst spyrja hæstv. forseta, hver gegni dómsmálaráðherrastörfum í vesturför hæstv. dómsmrh. (Forseti: Mér er ekki kunnugt um það.) Er engum ráðh. kunnugt um, hver gegnir dómsmálaráðherrastörfum á Íslandi? (SB: Ætlar hv. þm. að sækja um vernd?) Nei, en er enginn dómsmrh. á Íslandi sem stendur? (Fjmrh.: Ég vil beina því til hæstv. forseta, að hann fari fram á það við þennan hv. þm., að hann beini fyrirspurn sinni til hæstv. forsrh. Það er eðlilegast.) Er hæstv. forsrh. kominn í þingið? (Forseti: Sem stendur er hann ekki hér í þingsalnum.) Ég ætla að bera fram fyrirspurnir til þess, sem gegnir dómsmálaráðherrastörfum. (Forseti: Það mætti láta athuga, hvort hann er kominn í húsið.) Meðan það er athugað, vil ég út af því, sem hæstv. menntmrh. sagði, spyrja hann um það, af því að hann var að tala um, að skríll hefði verið æstur upp, hvort hann kannist ekki við flugmiða, sem dreift var út um bæinn og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Reykvíkingar! Kommúnistar hafa, án þess að leita leyfis, boðað til útifundar í dag og skorað á menn að taka sér frí frá störfum.

Við viljum því hér með skora á friðsama borgara að koma á Austurvöll milli kl. 12 og 1 og síðar til þess með því að sýna, að þeir vilji, að Alþingi hafi starfsfrið.

Ólafur Thors

form. þingflokks Sjálfstæðisflokksins,

Eysteinn Jónsson

form. þingflokks Framsóknarflokksins,

Stefán Jóh. Stefánsson

form. þingflokks Alþýðuflokksins.“

Maður verður að gera ráð fyrir, að þeir hafi að einhverju leyti verið teknir alvarlega og menn hlýtt þessu kalli. En þessir hæstv. ráðh. vita kannske ekki, að þetta fólk allt var friðsamt nema eitthvað af smádrengjum, sem stóðu innarlega á vellinum og voru að henda grjóti, og lögreglan gerði enga tilraun til að hindra það eða stöðva. Að þessu kvað þó alls ekki mikið, fyrr en lögreglan gerði árás á mannfjöldann, en ávarpaði hann aldrei til að koma í veg fyrir þetta. Það var sýnilega alls ekki í þökk þeirra mörgu, sem stóðu fyrir framan húsið. Þetta fólk, sem kom niður að þinghúsi samkvæmt orðsendingu Ólafs Thors, Eysteins Jónssonar og Stefáns Jóhanns Stefánssonar, var svo andvaralaust, að því datt ekki árás í hug. Þangað komu unglingar og gamalmenni og jafnvel konur með börn. Þetta fólk heyrði ekki orð frá þessum mönnum, sem höfðu hvatt það til að koma. Það fékk ekkert að frétta, hvað var að gerast inni í húsinu. Það fékk ekkert að vita, fyrr en sleppt var þar út óargadýrum; unglingsstrákum, sem höfðu verið fengnar kylfur í hendur og hjálmar á höfuð. Þessi lýður óð út úr húsinu og lamdi allt, sem fyrir varð. Þetta voru kveðjurnar, sem þetta fólk fékk, sem hlýddi kalli þessara formanna þingflokkanna. Ég vil mælast til þess við hæstv. menntmrh., að hann gefi yfirlýsingu um, í hvaða skyni þetta fólk var kallað hingað niður eftir og hvort það var með hans vitund og vilja, að fyrirskipuð var kylfuárás á þetta fólk, þegar það hafði hlýtt kalli hans og formanna hinna stjórnmálaflokkanna að koma hingað niður eftir. Það er rétt fyrir hann að svara þessu, af því að ég veit, að það eru margir menn úr hans flokki, sem eru undrandi yfir þeim kveðjum, sem þeir fengu frá formönnum sinna flokka, þegar þeir komu samkvæmt þeirra kalli.

Ég sé, að hæstv. forsrh. er mættur hér, og þá vil ég bera fram spurningu, sem hæstv. fjmrh. taldi síg ekki geta svarað: Hver gegnir dómsmálaráðherrastörfum á Íslandi, eins og sakir standa? Ég ætla að bera fram fyrirspurnir til þess, sem nú gegnir því starfi.