31.03.1949
Sameinað þing: 60. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 218 í D-deild Alþingistíðinda. (4505)

177. mál, þátttaka Íslands í Norður-Atlantshafssamningi

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það eru nokkur orð út af því, sem hv. þm. Siglf. bætti við það, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði hér.

Það er ákaflega eðlilegt, að kommúnistum sé mjög illa við það, að talsvert kom af friðsömu fólki niður á Austurvöll í gær til að sjá, hvernig þeir höguðu sér. Það er ekki furða, þó að þeir séu lágkúrulegir og reyni að hrista af sér smánina. Það er ekki nema mannlegt.

Það veit hvert mannsbarn, að þegar þeir boðuðu til útifundar síns eftir hádegið í gær, þá var það til að koma af stað óeirðum og gera árás á þinghúsið. Það er í fullu samræmi við það, sem þeir höfðu áður sagt. Þá var það, sem við formenn þingflokkanna bentum friðsömu fólki á, að ef það vildi sýna, að Alþingi ætti að hafa starfsfrið, þá væri rétt fyrir það að koma niður að alþingishúsi. Og menn komu þúsundum saman. Þetta stendur eins og eiturfleinn í kommúnistum, að friðsamir menn skyldu koma, að þar skyldi ekki eingöngu vera árásarlýður þeirra. Hvers vegna? Vegna þess, að þegar friðsama fólkið var komið, þá gátu þeir ekki eins vel komið strákapörum sínum við. Þetta var ekki nema lítill hluti mannfjöldans, sem stóð fyrir óspektunum, og þeim var illa við að hafa friðsama borgara allt í kringum sig og komu sér ekki eins að því allir að taka upp grjótið, sem þeir höfðu með sér til árásarinnar. Það varð því til hins mesta gagns, að hinir friðsömu borgarar komu samkvæmt tilmælum formanna þingflokkanna. En það sýnir ósvífni kommúnista, að þeir skuli leyfa sér að standa upp hér á Alþingi og lýsa sök á hendur öðrum eftir þær þokkalegu tiltektir, sem þeir hafa staðið fyrir sjálfir.

Þá er annað, sem rétt er að taka fram, þó að það sé öllum vitanlegt. Það sýnir bezt, að þessir menn kunna ekki að skammast sín, að þeir voru sífellt að senda út sendiboða til að æsa lýðinn til að kasta grjóti. Það voru sendir menn með hátalara til að ljúga því upp, að þm. kommúnista væru fangar. Þetta var gert til að æsa skrílinn. Svo segir hv. þm. Siglf., að það hafi bara verið nokkrir smádrengir, sem voru að kasta grjóti. Heldur hann, að það þýði að bjóða nokkrum óvitlausum manni, sem hér var í gær, slíkar fullyrðingar? Heldur hann, að nokkur maður taki það tal alvarlega, að það hafi verið þessir smádrengir, sem áttu að fá skilaboðin um, að þm. kommúnista væru fangar? Var það vegna þessara smádrengja, að þeir lugu því upp, að þeir væru fangar? Eða var það til að stilla til friðar, eða til hvers var það? Ætli það hafi ekki verið til að panta fleiri steina inn í þinghúsið? Það er ekki þeim að þakka, að ekki varð meira slys af því, sem þeir stofnuðu til. (BrB: Landráðamaðurinn og föðurlandssvikarinn er hræddur við þjóðina.) Heldur þm., að það sé þjóðin, þessi æsingaskríll, sem var að kasta grjóti? Það ber að harma, að fólska þessa skríls og þessara grjótkastara skyldi ganga svo langt, að ýmsir af því friðsama fólki, sem kom þarna og gerði afar mikið gagn, skyldi verða fyrir óþægindum af táragasi. En ég hygg, að þeir telji það ekki eftir sér, þegar þeir vita, hvert gagn þeir gerðu með því að koma.