31.03.1949
Sameinað þing: 60. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 225 í D-deild Alþingistíðinda. (4514)

177. mál, þátttaka Íslands í Norður-Atlantshafssamningi

Áki Jakobsson:

Ég vil þakka hæstv. forsrh. fyrir svörin. Hann hefur ekki átt frumkvæðið að fangelsun þessarar ungu stúlku, eftir því sem hann sagði, en það er leitt, að hún skuli hafa setið í fangelsi í alla nótt. (LJóh: Átti hún það ekki skilið?) Ég skil ekki, að hún geti fengið aðra refsingu en sekt, og þá er ekki heimilt að setja hana í fangelsi. (BrB: Hún hefði átt að fá verðlaun. — ÓTh: Ekki var Hermann verðlaunaður, þegar hann gaf þér á kjaftinn.) Ég hefði talið hæstv. forsrh. meiri mann, ef hann hefði hlutazt til um það, að stúlkan væri ekki fangelsuð, en hver og einn hagar sér eftir sínu innræti, og það hefur hæstv. forsrh. gert nú. Svör hæstv. dómsmrh. við spurningum mínum voru ekki ljós, en mér skilst, að það sé í athugun hjá honum að víkja lögreglustjóranum úr embætti. Hæstv. forsrh. treysti sér ekki heldur til þess að andmæla því, sem ég sagði.

Hæstv. ráðh. hafa talað um kommúnistískan skríl með vasana fulla af grjóti. Það er eðlilegt, að þeir séu taugaóstyrkir. Þeir pukruðust með málið fram á mánudag og ætluðu að afgreiða það á einni nóttu. En það þýðir ekkert að fullyrða, að einn eða annar hafi verið með grjót. Ég veit að lögreglurannsókn mun sanna, að það var lögreglustjórinn, sem stofnaði til óspektanna. Án hans aðgerða hefði ekki komið til neinna óspekta. Enginn gerði sig líklegan til þess að ráðast á þm., en þeir voru svo hræddir, ef þeir heyrðu hljóð, að þeir héldu að árás væri yfirvofandi. Hjá hæstv. menntmrh. kom fram ímyndaður ótti, sem á rætur sínar í sektartilfinningu út af því máli, sem verið var að afgreiða. Lögreglurannsókn mun leiða það í ljós, að engar árásir voru skipulagðar. Enginn hafði hvatt fólkið til að safnast saman á Austurvelli nema form. stjórnarflokkanna, og þeir heilsuðu því með kylfum og táragasi. Fyrir það verður þeim áreiðanlega þakkað, hverjum einum í sínum flokki.