23.02.1949
Sameinað þing: 42. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 368 í D-deild Alþingistíðinda. (4646)

7. mál, sjóminjasafn

Frsm. (Sigfús Sigurhjartarson):

Herra forseti. Menntmn. hefur athugað þetta mál og meðal annars leitað álits Fiskifélagsins, L.Í.Ú., F.F.Í. og þjóðminjavarðar. Það hefur þegar borizt svar frá Fiskifélaginu og F.F.Í. Sömuleiðis fékk nefndin bréf frá þjóðminjaverði, þar sem hann skýrir frá því, að það sé þegar hafinn undirbúningur að umræddu safni, og að því vinni nú þriggja manna nefnd. Enn fremur skýrir hann frá því, að safninu sé ætlað húsnæði í byggingu þjóðminjasafnsins. Að þessu athuguðu varð nefndin sammála um, að eðlilegast væri að vísa þessari þáltill. til ríkisstj. með þeim óskum, að hún hlynni að þeim vísi að sjóminjasafni, sem nú er til, svo að það geti þróazt eðlilega, en fjárskortur hamli ekki eðlilegum vexti þess.