17.11.1948
Sameinað þing: 17. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 745 í D-deild Alþingistíðinda. (5040)

905. mál, bændaskólar

Jónas Jónsson:

Herra forseti. Það er mikið ánægjuefni fyrir mig að heyra ræðu hæstv. landbrh. varðandi skipulag bændaskólanna og að hann hefur nú fengið á því, að ég held, miklu réttari skilning en hann hafði í fyrra, þegar hann fjallaði um þessi mál. Ég flutti þá þáltill. hér um þessi mál, sem varð ekki útrædd, enda seint fram borin, en borin fram til þess að hafa áhrif á gang þessara mála.

Það, sem liggur í augum uppi og kom fram í svari hæstv. ráðh., er, að bændaskólarnir hafa verið allt of lítið sóttir á undanförnum árum, og eru einu skólarnir í landinu, sem ekki eru alltaf fullskipaðir nemendum. Að húsmæðraskólunum, t. d., sem eru mjög hliðstæðir bændaskólunum á sínu sviði, er stundum þreföld aðsókn miðað við það, hvað þeir geta tekið á móti af nemendum. Og það er alveg rétt af hæstv. landbrh., þegar hann bendir á í þessu sambandi, að betra skipulag þurfi á þessum skólum að vera til þess að bæta úr þessu.

Það, sem ég benti á í fyrra og vil enn benda á, er, að það á að gera bændaskólana að 8–9 mánaða skólum, og þeir eiga að vera aðallega verklegir viðvíkjandi öllu því, sem búfræðinni kemur við. Og enn fremur þurfa að vera haldnir þar fræðandi og vekjandi fyrirlestrar, því að það skólakerfi, sem nú er hjá okkur, og á það ekki sízt við um bændaskólana, er á þá leið að þvinga alla til bóknáms meir en góðu hófi gegnir, og það hefur í mörgu tilliti niðurdragandi áhrif á marga unglinga. — Það er mjög algengt, að ungt fólk, sem hefur góða þekkingu í útlendum tungumálum, það hefur aldrei heyrt um Einar Benediktsson, hvorki sem skáld né stjórnmálamann. Þetta sýnir, hvernig búið er að þreyta æskuna með óheppilegu bóknámi. Og eitt af því versta af því tagi er fyrirkomulag búnaðarskólanna. Okkar búnaðarskólar, sem stofnsettir voru ekki löngu eftir aldamót, voru miðaðir við búnaðarháskóla Dana, en þeir skólar hjá Dönum voru miðaðir við það að ala upp embættismenn fyrir landbúnaðinn, svo sem ráðunauta og aðra slíka: Svo voru íslenzku búnaðarskólarnir gerðir eftir þessum dönsku búnaðarháskólum, og við það situr enn hjá okkur. Og þetta óheppilega fyrirkomulag búnaðarskólanna er undirrót þess, hve þeir hafa verið illa sóttir. En sannarlega ættu okkar búnaðarskólar að vera svo um allt fyrirkomulag, að aðsóknin að þeim væri eins og aðsóknir. að húsmæðraskólunum, — þar sem eru góðir kennslukraftar, — þannig að það væri margföld aðsókn að þeim miðað við það, sem þeir nú geta tekið á móti. — Það gleður mig, að hæstv. ráðh. er farinn að skilja þetta nú, að breyta þarf fyrirkomulagi þessara skóla, og það væri hans gæfa að taka málið á þeim grundvelli að láta fara fram þær breyt. á skólum þessum í sinni ráðherratíð, að koma búnaðarskólunum í betra horf, en þessar tilraunir með þessa skóla, sem gerðar hafa verið, hafa verið í.

Viðvíkjandi Skálholti sem skólastað, þá er sá staður óvirtur með því, sem fyrirhugað er að hafa þar, ef hugsað er að búa til nýbýli þar í eyðimörk, þar sem ekki er til kalt- eða heitt vatn og ekki hægt að leiða þangað rafmagn. Það er sjálfsagt fallegt útsýni þarna. En það hefur enginn áhugi verið á Suðurlandi fyrir því að hafa skólann þarna, en allt málið er loddaraleikur frá upphafi til enda. Sunnlendingar kæra sig ekkert um þetta. Það sjá allir menn, eins og líka fyrrv. hæstv. landbrh., Pétur Magnússon, hafði heldur aldrei látið sér detta í hug.