17.11.1948
Sameinað þing: 17. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 764 í D-deild Alþingistíðinda. (5069)

61. mál, launakjör alþingismanna

Fyrirspyrjandi (Steingrímur Aðalsteinsson) :

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. glögg svör. Það hefur komið ljóst fram, að hæstv. ríkisstj. ætlar ekki að leggja frv. fram nema með stuðningi allra þingflokka. Ég vil taka undir ummæli hv. 1. þm. Eyf., að það lýsi ekki miklum kjarki, því þótt talað sé nú mikið um sparnað, held ég varla, að það mundi sæta miklu ámæli, þó að ekki væri haldið áfram á sömu braut og nú er, að ekki sé hægt að sitja á Alþ. fyrir aðra en þá, er eiga ákveðnar eignir eða vissar tekjur utan þingfararkaups. Ég held, að hæstv. ríkisstj. yrði ekki fyrir ámæli meðal þjóðarinnar, þótt hún breytti þessu ástandi. Það var lengi skilyrði fyrir kosningarrétti og kjörgengi, hér og annars staðar eins og kunnugt er, að menn ættu ákveðna eign, og ég endurtek það, að ég held, að hæstv. stj. yrði ekki fyrir ámæli, þótt hún breytti því ástandi, sem í vissum tilfellum er enn þannig, að alþingismenn, sem til þess eru kjörnir, geta ekki komið því við að sitja á þingi, nema þeir eigi eignir eða hafi aðrar tekjur, en þingfararkaup sitt. Ég vænti þess, að þingflokkarnir taki nú svo undir þetta mál, að hæstv. ríkisstj. sjái sér fært að flytja frv. um það. En ef svo verður ekki, þykir mér trúlegt. að einstakir þm. geri sínar ráðstafanir.