24.11.1948
Sameinað þing: 21. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 794 í D-deild Alþingistíðinda. (5124)

913. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Fyrirspyrjandi (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Ég hef borið fram fsp. um hag S. R. á þskj. 114. Ég tók eftir því í fjárlagaræðu hæstv. fjmrh., að rúmar 7 millj. króna hefðu verið lagðar út til þeirra vegna ábyrgða. En nú spyr ég um það, hversu miklar skuldir verksmiðjanna hafi verið þ. 1. okt. 1948 og hvernig þeim er fyrir komið. Hafa miklar byggingarframkvæmdir átt sér stað hjá þessu fyrirtæki undanfarin ár, og álít ég sumar þeirra ekki verið hafa sem hagkvæmastar. Í öðru lagi spyr ég um afkomu verksmiðjanna í ár. En nú ætti að liggja fyrir vitneskja um hana, þar eð vitað er um afla á sumarvertíðinni og tap á vinnslu Hvalfjarðarsíldarinnar. Þá spyr ég að lokum um ábyrgðir ríkissjóðs vegna verksmiðjanna, hversu þær eru miklar, þ. e. beinar ábyrgðir. Álít ég þó, að ríkissjóður standi í ábyrgð fyrir öllum skuldum ríkisverksmiðjanna, þó að eigi sé gert ráð fyrir því í l. Eins og rekstrinum hefur verið háttað hingað til, virðist rétt að líta þannig á, að ríkissjóður beri a. m. k. móralska ábyrgð á öllum skuldum S. R.