26.01.1949
Sameinað þing: 32. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 833 í D-deild Alþingistíðinda. (5217)

922. mál, þingfréttir í útvarpi

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson):

Herra forseti. Það er alveg rétt, að nokkrir hv. þm. hafa látið í ljós sterkan óhug á fyrirspurnum hér á Alþingi og höfðu við orð að breyta lögum um þetta atriði. Beiskja þeirra í sambandi við fyrirspurnirnar mun hafa staðið í sambandi við það m.a., að spurt var um mál, er snerti ýmsa af forustumönnum þjóðarinnar og nazistastjórnina þýzku, og olli þetta miklu umtali og þótti sumum óheppilegt, en nú veit þjóðin, hvaða hug nazistarnir höfðu á Íslandi. Þegar í haust bólaði á því, að þm. vildu fella niður fyrirspurnirnar, en þeim var þó haldið áfram sem áður, en allt í einu er hætt að skýra frá þeim í þingfréttum útvarpsins og sagt, að skipanir um það væru komnar frá hærri stöðum. Það var vitað, að forseti sameinaðs Alþingis átti þar ekki hlut að máli, og frá hvaða hærri stöðum átti skipunin að koma nema frá hinum yfirmönnum þingfréttanna? En sé það rétt hjá hv. 9. landsk., að deildarforsetarnir hafi ekki bannað að skýra frá fyrirspurnunum, þá er um vítaverða vanrækslu hjá þeim að ræða að láta ekki halda áfram að skýra frá þeim. Annars er vitnishæfni hv. 9. landsk. dregin það mikið í efa yfirleitt, að þetta mun athugað betur, áður en hann verður sýknaður af málinu.