02.03.1949
Sameinað þing: 45. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 881 í D-deild Alþingistíðinda. (5335)

932. mál, mannahald og launagreiðslu hjá fjárhagsráði og deildum þess

Fyrirspyrjandi (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir þær upplýsingar, sem hann hefur gefið, og mun ég ekki ræða þetta mál frekar nú, að öðru leyti en því að benda á, að séu þessar tölur um starfsmannafjölda stofnananna bornar saman við upplýsingar frá þessum stofnunum, sem gefnar voru í júní s.l., þá ber ekki alveg saman. Hjá fjvn. liggur áætlun um útgjöld fjárhagsráðs og deilda þess, sem send var ríkisstj. vegna undirbúnings fjárlagafrv. Samkv. þeirri skýrslu eru 19 starfsmenn hjá fjárhagsráði, en nú eru þeir sagðir vera 21. Það lítur því út fyrir, að starfsmönnum hafi verið fjölgað um 2 síðan í júní. — Þá er það viðskiptanefndin, þar sem áður var gefið upp, að væru 48 starfsmenn, en nú er sagt, að þeir séu 47. Þar virðist því hafa verið fækkað um einn. — Á skömmtunarskrifstofunni voru í sumar 19 menn, en nú eru þeir sagðir 26, eða 7 mönnum fleira en þá. Útkoman sýnist því vera sú, að hjá þessum stofnunum hafi verið fjölgað um 8 menn frá því í júní. Þar af eru 2 lausamenn hjá skömmtunarskrifstofunni.

Ég ætla ekki að ræða þetta mál frekar nú, t.d. það, hvort hér sé um hæfilegan starfsmannafjölda að ræða, en ég vil aðeins vekja athygli á því, að samkv. 22. gr. fjárlaga fyrir árið 1948 er ríkisstj. heimilt að ákveða, að fjölgun starfsmanna ríkis og ríkisstofnana skuli vera háð samþykki fjármálaráðherra. Hafi þessi heimild verið notuð, hlýtur því þessi starfsmannafjölgun að hafa verið samþ. af hæstv. fjmrh.

Fyrirspurnin leyfð með 27 shlj. atkv.