10.02.1949
Neðri deild: 62. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 384 í B-deild Alþingistíðinda. (673)

16. mál, áburðarverksmiðja

Jón Pálmason:

Herra forseti. Það hafa þegar orðið allmiklar umræður um þetta frv., enda er hér um að ræða eitt stærsta málið, sem lagt hefur verið fyrir þingið.

Alþjóð er kunnugt, að tilbúinn áburður er ein sú nauðsynjavara, sem dýrust er og erfiðust í flutningi, og það hefur því fyrir löngu vaknað hér áhugi fyrir því að reisa áburðarverksmiðju hér á landi, þar sem enginn efast um, hve mikla þýðingu það mundi hafa. Árið 1940 flutti ég á Alþ. till. um að rannsaka, hvort takast mætti að koma hér upp áburðarverksmiðju. Framkvæmdir í því efni urðu þó frekar litlar. En fyrir þinginu 1945 lá svo aftur frv. um áburðarverksmiðju, sem borið var fram af þáv, atvmrh., Vilhjálmi Þór. Sú áburðarverksmiðja átti að vera í Eyjafirði og framleiða 3.150 smál. af köfnunarefni á ári, — svo þröngur stakkur var henni nú skorinn. Og þegar við athugun áætlunarinnar sáum við, að fyrirtækið gæti engan veginn borið sig. Málinu var því vísað frá á þingi til frekari rannsóknar nýbyggingarráðs. Nú hafa verið gerðar í þessu efni ýmsar athuganir, bæði innanlands og utan, og það hefur komið fyllilega í ljós, að sú andstaða, sem ég og aðrir beittu gegn frv. 1945, var fyllilega á rökum reist. Þeir, sem mesta vinnu hafa lagt í þessar rannsóknir, eru Björn Jóhannesson efnafræðingur og Ásgeir Þorsteinsson verkfræðingur.

Nú liggur hér fyrir frv., sem við í landbn. höfum haft til meðferðar og ekki orðið að öllu leyti sammála um. Það hefur réttilega verið fram tekið af frsm. meiri hl., hv. 1. þm. Skagf., að við leggjum á það megináherzlu, hve stór verksmiðjan skuli vera, og skal því ekki leyna, að mestar líkur eru til, að verksmiðjan geti sem stærst svarað þeim kröfum, sem til hennar verður að gera. Fyrst, þegar hún er 7–10 þús. tonna, er hún komin á það stig að geta borið sig, og öllum fræðimönnum ber saman um, að eftir því sem hún er stærri, séu meiri líkur fyrir því, að hún gefi arð.

Til dæmis um hlutfallið á milli stærðar og stofnkostnaðar má nefna, að stofnkostnaður 5 þús. tonna verksmiðju nemur 38 millj. kr., en 7.500 tonna verksmiðju 44,4 millj. — Munurinn er því aðeins um 6 millj. kr. Og ég vil taka það fram, að ég legg áherzlu á, að ekki verði ráðizt í að byggja minni verksmiðju en 7.500 tonna.

Þá kemur til athugunar, hvernig er aðstaðan að öðru leyti um þetta fyrirtæki og hvað á að segja um þá stóru brtt., sem hv. minni hl. landbn., 8. þm. Reykv., hefur borið fram. Um hana er það að segja frá mínu sjónarmiði, að það væri mjög ánægjulegt að geta byggt hér 30–40 þús. tonna áburðarverksmiðju og eiga von á því að geta haft þar framleiðslu á mikilli og verðmikilli útflutningsvöru til að selja. En því miður eru á þessu þeir annmarkar, að maður rennir býsna blint í sjóinn, í fyrsta lagi um það, hvernig hægt mundi vera að útvega svo mikið fjárframlag í stofnkostnað slíkrar verksmiðju, og í öðru lagi um það, hver trygging væri fyrir öruggum markaði fyrir alla framleiðslu slíkrar verksmiðju á komandi árum, sem reist væri hér svona stór. Þetta er rannsóknarefni, sem mjög æskilegt væri að geta fengið upplýst, því að það er sannarlega glæsilegt, ef þær áætlanir, sem hér hafa verið bornar fram í nál. hv. minni hl. landbn., gætu staðizt og þjóðin gæti fengið á þessu sviði svo glæsilega aðstöðu til aukins útflutnings eins og þar er vikið að. — Annars verð ég að segja það, að grundvöllurinn fyrir þessari starfsemi, hvort sem hún er í stærri eða smærri stíl, verður hjá okkur auðvitað alveg bundinn við raforkuframleiðsluna. Og í mínum huga spáir það alls ekki góðu í því efni, að það hefur komið hér breyting fram á áætlunum og umsögnum sumra þeirra manna, sem við leituðum til, frá því er þeir töluðu við okkur og þar til þeir svara bréfi nú fyrir skemmstu, þannig að samkv. þessu bréfi ber þeim saman um, að með næstu Sogsvirkjun sé ekki hægt að fá rafmagn til 10 þús. tonna áburðarverksmiðju, — sem þeir hins vegar töldu mjög líklegt, ef ekki öruggt, að mætti takast, þegar við áttum við þá fyrr tal um þetta. Nú verð ég að segja, að það, sem er höfuðatriði viðkomandi grundvellinum fyrir framkvæmd þessa máls og ríður mikið á að fá sem allra fljótast upplýst, er, hvort ríkisstj. getur fengið samninga við bæjaryfirvöldin í Reykjavík, sem hafa með að gera hina væntanlegu Sogsvirkjun, um það að tryggja þessu fyrirtæki, áburðarverksmiðjunni, nægilega raforku. Það er í raun og veru það, sem fyrst kallar að í málinu. Í öðru lagi hlýtur maður því miður að játa, að þótt ekki sé um stærri verksmiðju að ræða, en 7.500 smál., sem ég álít lágmarkið, þá kostar sú verksmiðja 44,4 millj. kr. Og við höfum ekki tryggingu fyrir að fá það fé að láni svo fljótt sem við þurfum á að halda. Vonir eru bundnar við Marshalllán til þess að fullnægja þörf að þessu leyti.

Þetta eru orsakirnar til þess, að ég sé mér ekki fært á þessu stigi að vera með brtt. hv. minni hl. Það er ekki sú ástæðan til þess, að ég telji ekki glæsilegt og æskilegt, ef við gætum farið út í svo stóra verksmiðjubyggingu, heldur eru hitt orsakirnar, að mig vantar upplýsingar um það, — og það er erfitt að fá þær að svo stöddu, — hvort við getum fengið fjármagn til þess að byggja verksmiðjuna, og hins vegar, hvort svo mikill markaður verði fyrir þessa framleiðsluvöru í nágrannalöndunum sem við þurfum á að halda, þegar slík verksmiðja væri komin upp. Annars er þetta mál að mínu áliti ekki það rækilega rannsakað, að ekki sé þörf á miklu víðtækari athugun á því. En á þessu tvennu veltur: Er hægt að fá samninga við bæjaryfirvöldin um raforku frá Sogsvirkjuninni? Og í öðru lagi: Er hægt að tryggja sér fjármagn fyrir stofnkostnaðinum eins og á þarf að halda?

Ég hef gengið inn á að fylgja meiri hl. landbn. í þessu máli með það fyrir augum, að bændastéttin og aðrir landsmenn geti átt von á því, að þetta fyrirtæki geti komizt sem allra fljótast á stofn.