22.02.1949
Neðri deild: 69. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 429 í B-deild Alþingistíðinda. (696)

16. mál, áburðarverksmiðja

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Það mun hafa verið við 2. umr., sem ég talaði hér nokkuð un ákvæði frv. um útsvarsálagningu á verksmiðjuna, og hélt ég þá fram, að mjög væri vafasamt, að það væri rétt, að það væri heimilt að leggja útsvar á þetta fyrirtæki í því bæjar- eða sveitarfélagi, þar sem það hefði aðsetur. Nú hefur hv. meiri hl. n. lagt fram brtt. á þskj. 363 um það að stilla meira í hóf útsvarsálagningu á verksmiðjuna heldur en upphaflega var gert ráð fyrir, og get ég fyrir mitt leyti sætt mig við það, ef sú brtt. verður samþ., og geri þá ekki ágreining um það atriði.

Annað er í frv., sem ég vil víkja að. Í 5. gr. þess, eins og það var upphaflega, var svo ákveðið, að fyrsta stjórn verksmiðjunnar skyldi ákveða, hvenær og hvar hún skyldi reist, enda komi samþykki landbn. til. Nú var hér nokkru breytt í þessari grein við 2. umr., og þetta ákvæði um það, að fyrsta stjórn verksmiðjunnar skuli ákveða, hvar verksmiðjan skuli reist, var fellt úr frv. — Mér þætti gott að fá að heyra um það frá hv. n. eða frsm. hennar, hvernig á því stendur, að n. hefur lagt til að breyta þessu, og hvað hún hefur í huga um þetta atriði, hvort hún gerir ráð fyrir, að það eigi að vera einhverjir aðrir aðilar, sem ákveði, hvar verksmiðjunni skuli valinn staður og hvenær hún skuli reist, heldur en stjórn verksmiðjunnar og landbrh. Ég minnist þess, að hér hefur verið útbýtt á þingi þáltill. frá nokkrum hv. þm., — ég held, að enginn þeirra sé í landbn. þessarar hv. d. það munu vera þm. af Suðurlandi, nokkrir, sem bera fram þáltill. um að kjósa þriggja manna nefnd til þess að rannsaka, hvar heppilegast sé að hafa þessa verksmiðju, þegar til kemur, að hún verði reist. Nú verð ég að segja, að mér finnst ákaflega einkennileg vinnubrögð að ganga fram hjá þriggja manna stjórn, sem gert er ráð fyrir í frv., að eigi að vera fyrir þessu fyrirtæki, og fara að velja aðra þrjá menn til þess að rannsaka, hvar heppilegast sé að velja þessari verksmiðju stað. Mér finnst það alveg óþarft að setja þarna upp nýja nefnd til þess. Þessi verksmiðjustjórn væntanlega, sem á að vera skipuð þrem mönnum, ætti alveg eins að geta gert þetta. Mér þætti því fróðlegt að heyra, hvað vakað hefur fyrir hv. landbn. um þetta atriði, þegar hún lagði til, að nokkur breyt. yrði gerð á 5. gr. frv. í þá átt, sem ég hef lýst, eða hvort n. gerir ráð fyrir, að það eigi einhverjir aðrir aðilar að ákveða þetta en verksmiðjustjórnin og ríkisstj. eða landbrh., því að vitanlega má skilja þetta svo, að þrátt fyrir það að það sé ekki beint tekið fram í lögunum, þá verði það þessir aðilar, sem ákveða þetta, þegar til kemur.