04.11.1948
Efri deild: 8. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 45 í B-deild Alþingistíðinda. (85)

27. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Ég kvaddi mér aðallega hljóðs til að þakka n. fyrir afgreiðslu á þessu máli, en eftir það kom sá hv. þm., sem síðast talaði, með fyrirspurnir, sem hann lagði fyrir lögfræðinga n., eins og hann orðaði það. Þess vegna er ég ekki í réttri röð til að svara því, og skal ég ekki þreyta lög við hv. þm. Það er alveg rétt, það þarf ekki að kenna fjhn. síðasta Alþ. um það, heldur fjmrn., að þessi skattur var ekki endurnýjaður löglega á réttum tíma. Frv. það, sem hér er fram komið, er gert til að leiðrétta þá niðurfellingu. Hins vegar var gert ráð fyrir því af Alþ. eða fjvn. að þessi skattur héldist. Þetta er ekki nýr skattur, sem um ræðir, heldur er hann hér innifalinn í þeirri benzínskattuppbót, sem í núverandi fjárl. stendur, en þótti, þegar ljóst varð, að láðst hafði að endurnýja hann, nauðsynlegt að fara fram á að fá þessa heimild lögfesta á þennan hátt, sem gert var með brbl., sem hér er leitað staðfestu Alþ. á. Ég vona eftir atvikum, að hv. d. fallist á að veita þetta samþykki. Ég skal hins vegar fúslega viðurkenna, að hér er um vanrækslu ráðun. að ræða, sem enginn ber ábyrgð á annar en ég, eins og sakir standa.

Mér þykir það leitt, en ég var sjálfur óafvitandi um þetta fyrr en komið var langt fram á árið. Um hitt, sem hv. þm. minntist á, að taka ætti í sérstakan sjóð hluta af benzínskattinum, og eins það, að benzínskatturinn eigi að hækka, skal ég segja það, að yfirleitt finnst mér það leiðinleg aðferð, þó að það hafi átt sér stað, að vera að ákveða vissa skatta til vissra, ákveðinna hluta. Um hækkun á benzínskattinum yfir höfuð að tala mun ég ekki deila að þessu sinni. Það má vel vera, — ég hef heyrt það úr fleiri áttum — að það sé rétt, að hann sé allt of lágur. Það getur vel verið,. að nauðsynlegt reynist á síðara stigi málsins að bera fram einhverja lögheimilaða till. í því efni, en það liggur ekki fyrir eins og sakir standa. Ég ætla ekki að fjölyrða um þetta frekar. Ég get því miður ekki tekið þátt í frekari umr. í hv. d. Ég kom til að vera við afgreiðslu á þessum tveimur málum, en af því að ég átti að vera mættur á öðrum fundi kl. 2, verð ég að hverfa burt og vona, að hv. d. sjái sér fært að láta málið ganga áfram til 3. umr.