17.03.1949
Efri deild: 79. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 542 í B-deild Alþingistíðinda. (854)

8. mál, Landsbókasafn

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Mér finnst þessi málsmeðferð vera fyrir neðan allar hellur. Hér um daginn kemur n. og hefur ekki hugmynd um, hve margir starfsmennirnir eru. Þeir eru allt aðrir og fleiri en n. gerir ráð fyrir. Hæstv. ráðh. bendir á, hvort eigi megi sameina háskólabókasafnið landsbókasafninu. N. var beðin um að athuga þetta. Nú er hæstv. ráðh. reyndar ekki við. En engar nýjar upplýsingar liggja fyrir, og þó á að fara að greiða atkv. um málið. Ég á ekki til orð yfir þessa aðferð. Dettur mér ekki í hug að fara að taka afstöðu til málsins hér. Vægast sagt átti að bíða, þar til hæstv. ráðh. gæti verið við, en hann óskaði eftir fleiri upplýsingum. Ég skil bara ekkert í hæstv. forseta að fara að taka málið á dagskrá, þegar hæstv. ráðh. var með einhverjar aths., og vera að reka málið áfram. (EE: Það á ekki að fara út úr d.) Ég vil biðja hæstv. forseta að athuga þetta.