19.04.1949
Efri deild: 85. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 548 í B-deild Alþingistíðinda. (866)

8. mál, Landsbókasafn

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Hv. frsm. n. þurfti að bregða sér frá vegna gildra orsaka, og vegna þess ætla ég að segja nokkur orð fyrir hönd n. Hæstv. dómsmrh. taldi, að n. hefði haft fremur lítið upp úr þeim athugunum, sem hún gerði, eftir að málið var hér fyrst til umr. og n. hafði skilað áliti, og honum skildist það á frsm., að landsbókavörður og háskólabókavörður hefðu ekki haft annað fram að bera en það, að hægt væri að láta þessa bókaverði hafa eitthvað að dunda við. Ég skal taka það fram, að mér fannst ég hafa töluvert meira upp úr þessu, því að mér fannst landsbókavörður skýra það ljóslega, að þessir bókaverðir hefðu töluvert að gera, og ég held, að samkvæmt því, sem hann lýsti þessu og ég hef ekki ástæðu til að rengja, þá sé það klárt mál, að ef á að fækka bókavörðum frá því, sem nú er, — sem ég skal ekki leggja dóm á, hvort rétt er að gera í sambandi við almennan sparnað eða ekki, — þá verður líka að breyta starfstíma og starfsháttum safnsins. Lestrarsalur landsbókasafnsins er opinn til kl. 10 á kvöldin, og landsbókavörður sýndi n. alveg ljóslega fram á það, að með þessu móti væri nóg að gera og eiginlega ynnu bókaverðirnir lengri tíma, en unnið er á ýmsum skrifstofum. Hann taldi það alveg nauðsynlegt að hafa 2 menn á verði í einu til gæzlu í lestrarsalnum, þegar hann er opinn. Salurinn er það stór og er sóttur af það mörgum, að landsbókavörður taldi mjög óvarlegt, að aðeins einn maður væri þar til gæzlu. Öllum er það skiljanlegt, að þarna þarf að hafa vaktaskipti, og einnig þarf ýmsa vinnu aðra við bækurnar, en vörzlu á lestrarsal, og er þetta þá skiljanlegt. Að sjálfsögðu má taka það til athugunar í sambandi við aðrar sparnaðartill., hvort ekki megi minnka not almennings af safninu og þar með að spara, ef menn vilja leggja út í það að setja bókaverðina frá, sem þarna eru skipaðir fastir embættismenn. Það hefur venjulega verið svo, jafnvel þótt sparnaðarhugur hafi verið í mönnum, að niðurlagning embætta hefur verið látin koma til greina, þegar embættin losnuðu. Menntmn. fannst það ekki sérstaklega hlutverk sitt að gera till. um fækkun bókavarða frá því, sem verið hefur, en hér er ekki að ræða um fjölgun frá því, sem verið hefur, alls ekki, þó að vísu standi í gömlum l., að þeir skuli vera 2 fyrir utan landsbókavörð. En það eru mörg ár síðan út af því var breytt. — Hæstv. dómsmrh. spurði um það, hvenær þessi fjölgun hefði átt sér stað. Ég hefði að sjálfsögðu haft hér á takteinum upplýsingar um það, ef ég hefði verið frsm. n., en mér er kunnugt um það, að fyrrverandi menntmrh., Brynjólfur Bjarnason, skipaði 2 nýja bókaverði, en hinir 2, sem eru um fram það, sem l. mæla fyrir um, voru skipaðir alllöngu áður. Mér er kunnugt um, að ýmiss konar aðstoð hefur verið veitt við safnið frá því um 1920 eða 1930 a.m.k. Mér er kunnugt um, beinlínis af því að koma þar sjálfur, að það voru fleiri en hinir skipuðu bókaverðir, sem þar voru við störf. Jafnvel þó að þetta frv. væri samþ., mætti nú, eins og hæstv. menntmrh. gat um, koma við sparnaði með stjórnarráðstöfun. Í frv. stendur, að bókaverðirnir skuli skipaðir allt að 6, en ekki, að þar skuli vera 6 bókaverðir. Ég skal geta um það í þessu sambandi líka, út af því, sem fór fram milli mín og form. fjvn. við 2. umr. þessa máls, að þessi aðstoðarmaður bókavarðanna, sem var við safnið árið 1947, er farinn frá því, eftir því sem mér hefur verið skýrt frá, og koma hans laun ekki til greina.

Hæstv. dómsmrh. talaði um, að það væri alltaf verið að gera ríkisbáknið stærra og stærra. Þetta er rétt, og ég er honum sammála um, að það verði að taka fyrir það. Við erum ekki svo stór eða efnuð þjóð, að við getum þanið ríkisbáknið í það endalausa, jafnvel þó að það sé eins og víða sé þörf fyrir slíkt og fólkið í landinu biðji um alls konar nýja og nýja starfskrafta. En með þessu frv. er ekki verið að gera ríkisbáknið stærra, en það er. Það er að vísu ekki gerð tilraun til að minnka það með þessu frv., heldur er bara gengið út frá, að því sé slegið föstu, að núverandi ástand haldist. Ef hæstv. menntmrh. óskar þess, að enn sé beðið með þetta frv. til þess að athuga, hvort ekki sé hægt að koma þar við sparnaði í sambandi við aðrar sparnaðarráðstafanir, sem menn kynnu að hafa í huga, þá hygg ég, að menntmn. hafi ekki á móti því út af fyrir sig, en ef frv. á að ganga gegnum þetta þing og taka breytingum hér í þessari hv. d., þá hlýtur það að verða takmarkaður tími, sem hægt er að bíða með það.