02.11.1948
Efri deild: 7. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 26 í B-deild Alþingistíðinda. (9)

26. mál, happadrættislán ríkissjóðs

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Það er leiðinlegt, að þetta skyldi grípa hv. þm. á þennan hátt. Ég fer að halda, að þetta sé sannfæring hans, sem hann er að tala. Það er alveg þveröfugt við það, sem hann segir, þegar, eins og hér er ástatt, að seðlaveltan er búin að ná því hámarki, sem hún hefur haldið í langan tíma og seðlainnköllunin út af fyrir sig gat ekki stöðvað. Það sótti í sama horfið aftur. Menn héldu, að hún mundi minnka verulega og varanlega við innköllun seðlanna, en eftir misseri sótti hratt og jafnvel hraðara, en áður, í sama horfið. Samfara þessu eru miklir peningar milli handa manna víðs vegar um landið og vöruþurrð í landinu, örlítið hægt að kaupa af gagnlegum hlutum og allt skammtað, sem menn geta veitt sér. Aðstaðan verður þannig, að menn hafa nóg af peningum, en lítið gagnlegt til að kaupa fyrir þá, og ég tel það ekki nema til bóta, að ríkið geri ráðstöfun til að draga úr seðlaveltunni, eins og þá, sem hér um ræðir. Ég ætla ekki að endurtaka það, sem ég sagði um þetta happdrætti. Það verður fyrir einhverja menn, sem taka þátt í því, happdrætti, en á hinn bóginn verður það ekki til skaða eða tjóns fyrir neinn, sem tekur þátt í því. Þetta er yfirleitt þægileg leið til að draga saman fé, eyða því ekki. Þetta fé, sem lagt er í bréfin, er sett fast þau árin, sem um er að ræða. þangað til þau verða á sínum tíma innleyst. Það er að því er virðist orðið happdrætti, sem hefur hertekið huga hv. þm., en ef hann hugsar rólega um málið og athugar það með skynsemi, hvað um er að ræða, sér hann, að hér er ekki verið að gera neitt til skaðræðis fyrir landsfólkið, alls ekki. — Um þörf ríkissjóðs fyrir að afla lánsfjár á þennan hátt þarf ég ekki að eyða mörgum orðum. Ég hef ekki haft neina ánægju af því að sitja uppi í fjmrn. mánuðum saman og vera í stökustu vandræðum með að svara út því, sem réttilega hefur verið þaðan krafið samkv. ákvörðunum Alþ. Þetta hefur svona gengið um alllangan tíma, svo að séð frá þeirri hlið líka er verið að létta undir á þennan hátt með fjáröflun. Það er verið að gera tilraun til að draga úr seðlaveltunni og gefa þeim, sem það vilja, tækifæri til að spara fé, leggja það til hliðar vissan árafjölda, og svo eiga eigendurnir vissan aðgang að höfuðstólnum aftur, en er um leið gefið tækifæri til að hagnast á því á þennan hátt, sem hér segir.

Það var ein aths. hv. 1. þm. N–M., sem ég fór óviljandi fram hjá, sem var réttlát. Hitt var allt óréttlátt. Það var þetta, að það er gengið nokkuð til móts við kaupendur happdrættisbréfanna, til þess að örva þá til að kaupa þau, á þann hátt, að þau eru ekki skattskyld að öllu leyti. Ég skal játa, að það er rétt athugað hjá hv. þm., að það má telja frá „skattteknísku“ sjónarmiði vafasama ráðstöfun. Það var álitið af öllum, sem um þetta hafa fjallað, nauðsynlegt, að einhver uppörvun væri fyrir fólkið til þess að það frekar léti peninga fyrir þessi bréf, heldur en að eyða þeim á annan hátt, og út frá þeirri hugsun var sett inn í frv. þetta ákvæði um skattfrelsi að hálfu leyti. Ég skal játa, að um hentisemi þeirrar stefnu má deila.

Það er svo ekki á þann veg að skilja, að ekki hafi verið reyndar margar aðrar aðferðir til þess að ná inn fé. Við höfum setið og sitjum með lánsheimild ofan á lánsheimild til ýmissa framkvæmda í landinu, sem við höfum hvað eftir annað otað framan í lánsstofnanir og reynt að fá fé út á þá. Þrátt fyrir það að seðlaveltan er svona mikil, þá er sífellt meiri vandkvæðum bundið að fá banka og lánsstofnanir til að lána, jafnvel ríkinu, fé til langs tíma. Það er ekki svo, að allar dyr aðrar hafi staðið opnar ríkisstj. til fjáröflunar og hún hafi bara upp á „fikt,“ ef nota mætti það orð, farið inn á þessa leið, sem hér um ræðir. Þó að undarlegt sé, er lánsfé ákaflega takmarkað og lánsfjármöguleikar, og það verður að vonum, að eftirspurnin eftir slíku fé er gífurleg og er búin að vera það í fleiri ár. Á hinn bóginn er það vitað af seðlaveltunni, að ákaflega mikið af lausu fé er manna á meðal, og það var álit landsbankastj. og ríkisstj., að þetta fé væri miklu betur farið að einhverju leyti fest í þessum happdrættisbréfum ríkissjóðs en eytt í þarft og óþarft, kannske allt of mikil óþarfakaup á ýmsu, sem hér er á boðstólum, bæði leyfilega og óleyfilega. Hv. þm. segist ekki leggja upp úr því, þó að slík lán sem þetta ættu sér stað hjá öðrum þjóðum, og yfir höfuð að tala ekki miða sitt álit við það, hvað aðrar þjóðir gerðu í þessum málum. Hv. þm. er frjáls að því að hafa sína skoðun um þetta, eins og aðrir að taka tillit til hennar. Hitt er þó rétt, að svona lánsfjáröflun og fjárfesting hefur verið notuð hjá Svíum og Dönum og reynzt þar ákaflega góð og auðveld, og þess vegna varð okkur hér starsýnt á þessa fjáröflunarleið. Það, sem gert er með góðum árangri í þjóðfélagsmálum hjá nágrannalöndum okkar, er a.m.k. þess vert að athuga það og taka tillit til þess. Ég er ekki að segja, að við eigum að apa í öllum hlutum í blindni eftir öðrum þjóðum, en við getum aldrei horft fram hjá þeirri staðreynd, þegar um jafnskyldar þjóðir og Svía, Dani og Íslendinga er að ræða, að hafi einhver þjóðfélagsleg aðgerð gefizt vel í einu landinu, þá má einkennilega við bregða, ef hún er alveg forkastanleg í öðru landinu. — Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta frekar, en ég vona, að hv. d. fallist á álit fjhn.