09.12.1948
Efri deild: 27. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 49 í B-deild Alþingistíðinda. (93)

27. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Ásmundur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég vil taka það fram, að ég varð fyrir nokkrum vonbrigðum vegna afgreiðslu meiri hl. fjhn. á þessu máli, af því að ég bjóst við, að meiri skilningur mundi ríkja innan þeirrar n. á því, hversu nauðsynlegt er að taka upp það fyrirkomulag að safna fé til brúargerða á stærstu stórfljót landsins, sem eins og hv. 4. landsk. tók fram, ættu að koma í fremstu röð. Ég varð einnig nokkuð hissa á því, hvernig vegamálastjóri afgreiddi till., vegna þess að ég þóttist hafa fyrir mér annað álit frá honum um svipað mál, sem lá fyrir síðasta þingi, álit, sem var nokkuð á annan veg en þetta, a.m.k. hvað aðalatriðin snerti, sem var endurreisn brúasjóðs. Þegar þetta frv., sem hér liggur fyrir, var lagt fyrir hv. d., lá ekki fyrir nein vissa um, að á þessu þingi yrði lagt fram sams konar frv. fyrir árið 1949. Hefði frv. fyrir 1949 verið komið við 2. umr. málsins, þá hefði ég flutt brtt. við það. Ég ætla, að það hafi verið fyllilega vitað í fjhn., að ég mundi sætta mig við, að till. yrði tekin upp í það frv. Hins vegar sé ég ekki annað en hægt hefði verið að afgreiða till. í sambandi við þetta frv. — Það er aðallega sú stefna, sem kemur fram hjá meiri hl. fjhn. í þessu máli, sem ég vildi gera að umræðuefni. Það er meira falið í þessari till. en að byggja brú yfir Jökulsá í Lóni. Það, sem er falið í þessari till, og er annað aðalatriði hennar, er að endurreisa eigi brúasjóð, sem var búinn að starfa í nokkur ár, en var síðan lagður niður. Með starfsemi þessarar stofnunar tókst að koma brú yfir Jökulsá á Fjöllum, sem annars væri ekki enn komin. Í öðru lagi leyfi ég mér að fullyrða, að þær brýr sumar, sem vegamálastjóri nefnir í áliti sínu, eiga ekki að koma undir ákvæðið um brúasjóð, vegna þess að það er þegar búið að veita í fjárl. nokkurt fé til þeirra, og því verður vitanlega haldið áfram. Það, sem ég vildi alveg sérstaklega taka fram í sambandi við þetta mál, er það, að mig undrar að nokkru leyti álit vegamálastjóra, vegna þess að þegar þetta mál, endurreisn brúasjóðs í þeirri mynd, sem hann áður var, þ.e.a.s. að 3/5 hlutar benzínskattsins færu til vegagerða, en 2/5 hlutar til brúargerða, var til umr. hér á síðasta þingi, þá var vegamálastjóri beðinn um álit, og það álit hef ég hér og vildi leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa það upp. Í sambandi við það vildi ég geta þess, að þegar ég talaði fyrir till. hér við 2. umr. málsins, þá gat ég þess, að hann væri ekki sammála mér um það, að Jökulsá í Lóni yrði brúuð fyrst. Álit vegamálastjóra er á þessa leið:

„Eins og um er getið í greinargerðinni, var með lögum nr. 53 1946 numið úr gildi ákvæði eldri laga um að 2/5 hlutar 5 aura innflutningsgjaldsins af benzíni skyldi varið til brúargerða og 3/5 til lagningar þjóðvega. Þessi upphæð nam alls um 1,5 millj. kr. Frá því ákvæði þetta var lögtekið 1941 til og að meðtöldu árinu 1946 nam hlutur brúasjóðs samtals kr. 2.077.273,31. Hefur öllu því fé verið varið til nýju hengibrúarinnar á Jökulsá í Axarfirði, og vantar þó um 225 þús. kr. á, að hún sé greidd að öllu úr brúasjóði.

Nú liggur samkv. ákvörðunum Alþingis fyrir að byggja stórbrýr á Þjórsá og á Hvítá hjá Iðu, sem samanlagt munu kosta um 5,2 millj. kr. Fjárveitingar til beggja þessara brúa tel ég verða að sitja fyrir brúargerð á Jökulsá í Lóni, en brú á hana ásamt varnargörðum er áætlað að kosti 2 millj. kr. Teldi ég mjög æskilegt, að unnt yrði að byggja þessar 3 brýr á næstu 4–5 árum, en til þess þarf 1,5–1,8 millj. kr. að meðaltali á ári.

Þar sem mjög lítil bílaumferð verður um væntanlega brú á Jökulsá, tel ég ekki eðlilegt að taka upp aftur ákvæði um brúasjóð og ákveða þar, að tekjum hans, líklega næstu 3 árin, skuli varið til að byggja brú á Jökulsá í Lóni, meðan ekki er séð nema taka þurfi þennan tekjustofn til þess að tryggja fé til byggingar Þjórsárbrúar og Hvítárbrúar.

Hins vegar er ég meðmæltur því, að ákvæði um brúasjóð verði tekin upp aftur, að því tilskildu, að hann fái svo háan hluta benzínskattsins, að árstekjur yrðu 1,5–1,8 millj. kr., til þess, ef þarf að tryggja, að fyrrgreindar brýr verði byggðar á næstu árum og síðan árlega eða annaðhvort ár ein stórbrú.

Mér þykir eins og komið er rétt að sleppa því, að nokkrum hluta slíks skatts skuli varið til vegagerða, heldur til brúargerða eingöngu.“

Þegar þessi viljayfirlýsing vegamálastjóra er athuguð, þá virðist hún vera í andstöðu við það, sem gert var 9. febr. 1948, því að þá er gengið fram hjá að endurnýja brúasjóð, en í stað þess veitt fé á fjárlögum til brúargerða. Ég tel því, að þessi till. eigi fullan rétt á sér, og sé ekki ástæðu til að taka hana til baka.

Réttmæti Þjórsárbrúarinnar rengi ég alls ekki, og var ekki nema sjálfsagt, að til hennar væri veitt fé á undan öðrum brúm í landinu. Hins vegar viðurkenni ég ekki, að brú á Hvítá hjá Iðu sé nauðsynlegri, en brú á Jökulsá í Lóni. Í fyrsta lagi vegna þess, að Hvítá er brúuð á öðrum stað, en í öðru lagi af því, að Jökulsá er hættuleg hindrun á aðalsamgönguleið héraðsins.

Að síðustu vil ég taka það fram, að ég hefði getað sætt mig við, þó að n. hefði talið nauðsynlegt að fresta þessum aðgerðum t.d. til 1950, en um það var ekki að ræða, og undrast ég mjög afgreiðslu málsins, sem meiri hl. virðist hafa gert að lítt athuguðu máli.