05.05.1949
Efri deild: 97. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 614 í B-deild Alþingistíðinda. (992)

184. mál, hlutatryggingarsjóður bátaútvegsins

Frsm. meiri hl. (Björn Kristjánsson):

Herra forseti. Ég hafði hugsað mér að svara 1. landsk. nokkrum orðum, en þar sem hann er ekki við, þá mun ég beina máli mínu til 1. minni hl., hv. þm. Barð. Hv. þm. kvaðst furða sig mjög á því, að nefndin, sem samdi þetta frv., skyldi ekki taka meira tillit til tillagna Gunnars Þorsteinssonar. Því er til að svara, að meðal annarra till. G. Þ. í nefndinni var sú, að bætur væru ákveðnar hærri til útgerðarmanna. Andstaða okkar í n. við þessa till. G. Þ. var ekki vegna þess, að við sæjum ekki þörf útgerðarinnar fyrir hærri bætur. Hitt réð okkar afstöðu, að okkur var ljóst, að erfitt mundi að afla sjóðnum tekna og þar af leiðandi þýðingarlaust að skuldbinda sjóðinn til bóta, sem engar tekjur stæðu fyrir. Þessi till. hafði því enga þýðingu, þegar ekkert fé var fyrir hendi. Hins vegar er ákveðin heimild í frv. til að hækka bæturnar, ef þörf er fyrir hendi og geta sjóðsins leyfir slíka hækkun. Það var þessi ástæða, sem réð afstöðu okkar, því að við vildum ekki leggja sjóðnum meiri skyldur á herðar, en hann gæti staðið undir.

Þá ætla ég að snúa mér að till. í nál. á þskj. 614. Fyrst er þar brtt. við 3. gr. frv., tveir stafliðir, a. og b. Þessar till. eru ekki þýðingarmiklar, og ætla ég að sleppa að tala um þær, þó að ég hins vegar telji þær ekki nauðsynlegar og muni greiða atkv. á móti þeim. — Um 2. brtt., við 4. gr., verð ég aftur á móti að segja nokkur orð, því að þar er um gerbreytingu á frv. að ræða. Þessi brtt. er þess efnis, að í stað þess að ákveða í l. vissar reglur fyrir sjóðinn til að starfa eftir, verði það reglugerðaratriði, sem sjóðsstjórnin semji, en þó skuli samþ. af Landssambandi ísl. útvegsmanna, Alþýðusambandinu og Fiskifélaginu. Þessa breytingu tel ég alveg ófæra, bæði vegna þess, að með því móti krefjast útgerðarmenn, að meðalaflinn verði settur sem hæstur og hins vegar bæturnar sem hæstar, auk þess sem ég er hræddur um, að tilgangur sjóðsins náist ekki með þessu móti, sem líka er játað af frsm. 2. minni hl. (StgrA). Það er ekki ætlunin með þessu frv. að tryggja útveginn fjárhagslega, til þess er ekki aðstaða, heldur er tilgangurinn að forða vandræðum, sem hljóta að verða, þegar mikill aflabrestur er, miðað við reynslu undanfarandi ára. Ég tel því bæði rétt og sjálfsagt, að meðalaflinn verði ákveðinn eftir meðalafla undangenginna ára, eins og gert er ráð fyrir í frv., en ekki tilbúinn af einhverri nefnd, sem ákveður hann eftir eigin duttlungum, auk þess sem slík ákvörðun gæti orðið pólitískt bitbein, er varla væri heppilegt fyrir sjóðinn. Það hefur verið talað um, að auðvelt væri að breyta l. og fá breytingar á meðalverðinu með því móti. Það er auðvitað rétt, að l. má breyta, en þó verða lögfest ákvæði ekki eins laus í reipunum og hin, sem ákveðin eru með reglugerð. Ég er því algerlega á móti þessari till. og mun greiða atkv. gegn henni. Hins vegar gæti vel komið til mála að samþ. undirliðina í 2. brtt., við 4. gr. frv., ef þeir væru sérstaklega bornir fram sem brtt. við frv., því að annars yrðu þeir vanskapnaður, en ég get ekki fallizt á, að þetta verði reglugerðaratriði.

3. brtt., við 5. gr. frv., er aðeins tilfærsla, og ræði ég hana því ekki frekar.

4. brtt., við 6. gr. frv., fyrri liður, fjallar um, að stjórn sjóðsins skuli skipuð 3 mönnum, í stað 5 eins og frv. gerir ráð fyrir. Ég tel þetta ekki mikilvægt atriði, og ætti að vera auðvelt að ná samkomulagi um það. Hins vegar tel ég till. 6. landsk. um, að allir stjórnendurnir verði tilnefndir af félögum eða stofnunum, ekki heppilega, því að ég hef þá skoðun, að ráðherra eigi að hafa þar hönd í bagga. (StgrA: Það er gert ráð fyrir í minni till., að ráðh. skipi form. stjórnarinnar af þessum tilnefndu mönnum.) Um b-liðinn, þar sem gert er ráð fyrir, að ráðherra ákveði laun sjóðsstjórnar, er það að segja, að starf þessara manna ætti ekki að verða svo mikið, ef Fiskifélagið tæki að sér alla skýrslusöfnun og ynni úr þeim skýrslum, sem nauðsynlegar væru fyrir sjóðinn, og þar af leiðandi ekki ástæða til, að þessir menn hefðu föst laun. Hins vegar get ég ekki fallizt á till. 6. landsk. um, að þessir menn verði alveg ólaunaðir, og tel því rétt og sanngjarnt, að þeim verði greidd einhver þóknun, sem fari eftir því, hvað starf þeirra verður mikið, og sama er að segja um endurskoðendur sjóðsins. C-liður brtt. gerir ráð fyrir, að fiskveiðasjóður annist afgreiðslu sjóðsins í stað Fiskifélagsins. Þetta atriði var til athugunar í n., og held ég, að enginn hafi lagt neina höfuðáherzlu á það. Þess vegna ætti að geta orðið samkomulag um þá breytingu.

5. brtt., við 7. gr. frv., gerir ráð fyrir, að annar meginmálsliður gr. falli niður, en sá liður er svo hljóðandi, með leyfi forseta: „Nú nær stofnfé samkvæmt þessari grein ekki fimm millj. kr., og skal ríkissjóður þá leggja fram það, sem til vantar.“ Þetta vill þm. Barð. fella niður. Ég held, að allir hljóti að vera sammála um, að sjóðnum muni ekki veita af þessari upphæð, og þess vegna komi ekki til mála að fella þetta ákvæði niður. Ég fyrir mitt leyti hef þá skoðun, þó að ýmsir hafi talið, að það kynni að verða ákaflega litið, sem hefðist af þessum skatti, að ekki komi til mála, að skatturinn allur nemi minna en 10 millj. kr. Og þá kæmi af sjálfu sér, að þessi sjóður fengi 5 millj. kr., og ekki kæmi til kasta ríkisins að bæta þar neitt upp. Ég held því, að ekki sé hætta fyrir ríkissjóð, þó að þetta ákvæði standi. En ég held, ef svo illa færi, að skatturinn næmi töluvert minna, þá mættum við ekki leggja út í þessa sjóðsstofnun með minna fé en 5 millj. kr. Ég er því á móti því, að þessi málsgr. sé felld niður.

Þá kem ég að 6. brtt., sem er við 8. gr. og er kannske þýðingarmesta till. af brtt. hv. þm. Við, sem sömdum frv., lögðum til, að árlegar tekjur sjóðsins væru 1% af óskiptum vertíðarafla bátaflotans og framlag úr ríkissjóði að jöfnu þar á móti og í þriðja lagi vextir og aðrar tekjur sjóðsins. Þessu vill hv. þm. Barð. breyta öllu. Fyrsta brtt. við þessa gr. er um það, að í staðinn fyrir 1% af óskiptum vertíðarafla bátaflotans verði tekið 1/2% útflutningsgjald af öllum útfluttum sjávarafurðum, öðrum en þeim, sem koma frá botnvörpuskipum, hvalveiðum og selveiðum. Og ég held, að það hafi verið fært fram sem rök fyrir þessari brtt., að innheimtan væri svo erfið, ef taka ætti þetta 1% gjald eftir frv. Ég skal játa, að líkur eru til þess, að innheimtan mundi verða auðveldari, ef gjaldið væri innheimt af útflutningsverðmæti. Og fyrir bátatryggingasjóðinn mundi þetta koma sennilega alveg að sama liði, hvor aðferðin sem yrði höfð á þessu, því að eftir þeim skýrslum, sem upp eru gefnar um útflutning og aflamagn, þá mundi þetta koma í sama stað niður fyrir sjóðinn. En ég held, að of mikið sé gert úr erfiðleikunum við að innheimta þetta samkv. frv. Ég hygg, að það mundi ekki vera ákaflega erfitt fyrir lögreglustjóra í hverju héraði og embættismenn þeirra, sem munu vera í hverju fiskiþorpi landsins og útgerðarstað. Ég held, að þetta yrði mjög vel framkvæmanlegt eins og innheimta annarra gjalda, að innheimta þetta af heildarverðmæti afla hvers báts. Og ég get þess vegna ekki fallizt á þessa breyt. En aðalrökin gegn þessari brtt. eru þau, að eins og frv. nú er, er ekki gert ráð fyrir því, að þeir, sem stunda veiðar á sumrin á smábátum, greiði þetta gjald í sjóðinn. (GJ: Það breytist við samþykkt brtt. við 4, gr., ef samþ. verða.) Hins vegar verða þeir að borga þetta útflutningsgjald. Ef þeir menn, sem stunda veiði á þeim bátum, hafa engin réttindi, þá eiga þeir engar skyldur að hafa. Ég veit um marga menn á Norðausturlandi, sem ekki stunda sjó að staðaldri, en þegar tækifæri og veður gefst, fara á sjó á smámótorbátum, og ef þeir eiga að fá réttindi til bótagreiðslna úr sjóðnum, sem ég teldi sjálfsagt, ef þessi brtt. væri samþ., þá er ákaflega erfitt að fínna það út, hvert væri meðaltalsaflamagn hjá þeim, og því erfitt að ákveða þeim bætur. Og þetta er ástæðan til þess, að við, sem vorum að semja frv., töldum varla fært að taka sumarveiðarnar með.

Annar liðurinn í tekjuöflun til þessa sjóðs eftir till. hv. þm. Barð. er um að taka 1/2% innflutningsgjald af verðmæti allra innfluttra vara, hverju nafni sem nefnast, og að banna að leggja gjaldið á í útsöluverðinu. Mér finnst þetta ákaflega ósanngjarnt og óheppilegt ákvæði. Hvers vegna ætti ríkissjóður að fara að afla fjár á þennan hátt fyrir þessa starfsemi frekar en fyrir ýmislegt annað? Og hvaða vit væri í því að stofna til hinna og annarra framkvæmda og segja bara: Þessi stétt á að borga þetta, hún ein á að standa undir þessu? Þetta finnst mér ekki ná nokkurri átt. Landsmenn allir í heild eiga að borga þetta tillag til sjóðsins, gegnum skatta og tolla, og það á þess vegna að taka það beint úr ríkissjóði, en ekki á þennan hátt. Ef það þykir fært að leggja eitthvað sérstaklega á þessa stétt manna, sem þetta gjald á að koma niður á eftir till. hv. þm. Barð., þá er leið til þess miklu eðlilegri sú að gera það annaðhvort með hækkun á sköttum eða bæta þessu gjaldi við aðra tolla, sem fyrir eru, en ekki reikna þetta svona. Auk þess, ef ætti að heimila að leggja þetta á vörur og láta neytendurna borga þetta, eins og hv. þm. Barð. skaut fram áðan, að hann gæti kannske fallizt á, þá horfir þetta öðruvísi við að sumu leyti. Og þá yrði að taka tillit til þess við álagningu á vörurnar. Og það eru sannarlega nógar sermoníur og reglur, sem settar eru gagnvart þeim, sem verzla með vörur, gegnum verðlagsákvæði og alls konar ákvæði, þó að þetta bætist ekki við. Ég er þess vegna alveg á móti þessu.

Þriðji liður þessarar brtt. hv. þm. Barð. er að efni til alveg eins og ákvæði í frv., og ég þarf þess vegna ekki um hann að tala. Sama er að segja um 7. brtt., við 9. gr. Þar er fram tekið það, sem við álitum, að nauðsynlegt væri að taka fram um þetta í 9. gr. frv. Þar (í frv.) segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Stjórn sjóðsins flokkar skip hvorrar deildar eftir stærðum. Skipa skal hverju skipi í flokk strax við innritun, þannig að skip með svipaða aflamöguleika verði sér í flokki.“ Þetta er í raun og veru sama efni og er í 7. brtt. hv. þm. Barð., og það er kannske greinilegar tekið fram hjá honum. En það skiptir ekki miklu máli, álít ég, hvort af þessu tvennu samþ. yrði. Það eru nokkru nánari reglur um tilkynningar í till. hans viðkomandi því, þegar skip byrja veiðar og þegar þau hætta veiðum, og um réttindi til bótagreiðslna.

Þá kem ég að 8. brtt. hv. þm., við 9. gr. frv., sem er gerbreyt. frá því, sem stendur í frv. Ég verð að segja, að mér finnst orðalag þessarar brtt. ekki vera líkt því nægilega ljóst, enda kom það fram í morgun, þegar við áttum tal um þetta atriði á sameiginlegum fundi beggja sjútvn. þingsins, að þá höfðum við skilið þetta á fleiri en einn veg. Og ég er ekki enn þá alveg klár á því, hvernig á að skilja þetta. En mér skilst þó helzt, að þar sé átt við, að ef einhver flokkur hefur ekki náð meðalaflamagni, þá eigi að bæta skipum í þeim flokki upp, án tillits til aflamagns einstakra skipa innan flokkanna. Mér skilst á þessu orðalagi, að meiningin sé, að hvert skip innan þess flokks eigi að fá sömu upphæð í bætur úr sjóðnum, en til bóta komi ekki fyrr en afli skipanna sé kominn niður fyrir 75% meðalaflamagns. En ef þessi skilningur er réttur, þá leiðir af því, að skip, sem er mjög langt niðri með afla, það er mjög illa haldið samanborið við skip, sem er rétt fyrir neðan markið, sem sett er. En ef þetta er ekki réttur skilningur, þá er annað um þetta að segja. En ég hygg, að reglan, sem sett er um þetta í frv., sé sæmileg og ekki sé ástæða til að breyta henni. Það er líka sá kostur við hana, að það er ekkert hægt um hana að della. Þar er settur fram ákveðinn stigi fyrir bótum, þannig að bætur hækka og lækka eftir aflamagni skipa. Og það er hægara fyrir stjórn sjóðsins að bæta eftir henni, en eftir þeim reglum, sem settar eru fram í brtt. hv. þm. Barð., og er ég því á móti þeirri brtt.

Þá er 9. brtt., við 11. gr. frv., og þar vill hv. till.-maður, hv. þm. Barð., að algerlega sé fallið frá þeim ákvæðum, sem standa í frv. um röð á þeim skuldum, sem kunna að hvíla á útgerðarfélagi eða útgerðarmanni, eins og tekið er fram í frv. um það, hverjar þessar skuldir skuli meta meir en aðrar. Ég skal nú ekki segja um það, hvort þetta stenzt fyrir dómstólum, og það má vera, að lögveð gangi fyrir öllu öðru, þannig að til lúkningar skuldum gegn þeim verði greiðslurnar að ganga á undan öllu öðru. Ég álít þó, að dálítið sé vafasamt, hvort réttur þess kröfuhafa, sem lögveðið hefur, sem er ríkissjóður í þessu tilfelli, nái til þess, sem útgerðarmaður fær úr þessum sjóði.

Og mér mundi þykja það eðlilegur skilningur, að það næði aðeins til annars afla, sem maðurinn eða útgerðarfyrirtækið hefur fengið eða eignazt við rekstur skipsins. En þetta er auðvitað atriði, sem lögfræðingar verða að skera úr. Annars vil ég segja, að einmitt þetta ákvæði var tekið orðrétt upp úr frv. Landssambands íslenzkra útvegsmanna. Það er ekki breyt. frá okkur, sem sömdum þetta frv., heldur er þetta einasta gr. úr því frv., sem við tókum upp orðrétta. Og skilningur á þessu atriði hefur þá verið svipaður hjá þeim eins og hjá okkur. En við vorum allir sammála um, að kaup yrði að ganga á undan öllu öðru, þegar til bótanna kemur, þannig að þeir, sem bótanna nytu, yrðu áður en þeir tækju bæturnar, að setja tryggingu fyrir því, að kaup mannanna, sem á skipunum hefðu unnið, væri greitt. Hitt getur orðið deiluefni, í hvaða röð aðrar skuldir eiga að ganga. En þetta er sem sagt bein till. frá útvegsmönnum sjálfum.

10. brtt., við 14. gr., er um breyt. á orðalagi, sem skiptir ekki miklu máli.

Loks er 11. brtt., sem er svo, með leyfi hæstv. forseta: „Á eftir 14. gr. komi ný grein, er orðist svo: Fella skal niður greiðslu til hlutaútgerðarfélaga samkvæmt 7. gr. laga nr. 45 12. febr. 1940, eftir að lög þessi taka gildi.“ Ég skal ekki segja mikið um þetta. Það má vera, að það sé eðlilegt að fella niður þau lagaákvæði. En ég efast um, að ástæða sé til þess að setja lagaákvæði um það. Skal þó ekkert fullyrða um það.

Auk þessara brtt., sem ég hef minnzt á, liggja hér fyrir frá hv. 6. landsk. þm. brtt., sem hann talaði um í gær. Sumar þeirra hef ég minnzt á í sambandi við nál. hv. 1. minni hl. sjútvn., því að þær eru þær sömu. Hv. 6. landsk. þm. telur í nál. sínu, að hann geti fallizt á sumar þær brtt., þ. á m. till. um uppbyggingu þessa frv., þ.e. hvort skuli standa í lögum þau ákvæði, sem ég minntist á, eða hvort þau ættu að vera í reglugerð. Annars eru aðalbrtt. hans um tekjuöflun til sjóðsins. Hann vill innheimta útflutningsgjald, sem nemi 1/4% af öllum útflutningsafurðum bátaflotans. Þetta finnst mér ekki koma til mála að samþ., heldur sé réttara að halda sig við þau ákvæði um tekjuöflunina, sem eru í frv., en vera ekki að margskipta þessu meir, en þar er gert. Þar næst vill hv. till.—maður, 6. landsk. þm., láta renna í þennan sjóð 1/10 hluta af nettó-viðskiptahagnaði Landsbankans og Útvegsbankans. Það hefur verið upplýst hér í hv. þd., að þetta mundi vera brot á landsbankalögunum og þegar af þeirri ástæðu ekki framkvæmanlegt. Að öðru leyti vil ég segja það, að þó að það sé rétt, að bankarnir hafi grætt mikið á þessum árum, þegar allt hefur flóið í peningum og viðskiptin hafa verið mikil, þá getur svo farið, að mikil breyt. verði á því, og er þegar orðin mikil breyt. á því. Auk þess er rétt að benda á, að bankarnir hafa átt mikla áhættu í sambandi við lán til útvegsins. — Svo kemur hér að lokum hjá hv. 6. landsk. þm. nýr stigi fyrir bótum, sem hann hefur sett upp og hann segist byggja upp á sama hátt og í frv. er gert. En breyt. er aðeins sú, að bæturnar eru þar hækkaðar frá því, sem í frv. er gert ráð fyrir. Ég get endurtekið það, sem ég sagði áðan, að við höfðum sannarlega hug á því, að útgerðinni gæti orðið sem mestur stuðningur að þessum aflatryggingasjóði og að það væri ekki nema gott eitt um það að segja að hækka bæturnar, ef unnt væri. En það eru svo mjög litlar líkur til þess, að hægt verði að bæta upp afla eftir þeim ákvæðum, sem frv. tiltekur, og þá því síður eftir þessum brtt., sem eru um töluvert hærri bætur. Ég er sammála hv. 6. landsk. þm. um það, hve æskilegt þetta væri, sem hann leggur til, ef hægt væri. En ég hef ekki von um það. Við byggðum bótastigann á því, að sjóðurinn fengi 1% af óskiptum vertíðarafla bátaflotans og framlag ríkissjóðs á móti, svo að þetta næmi því að vera jafnmikið og 2% af heildaraflanum. Og þrátt fyrir það sáum við okkur ekki fært að hafa bótastigann hærri en hann er tiltekinn í frv., og enn síður þegar búið er að lækka þetta um helming og ríkissjóðsframlagið á sama hátt. Og þó að þessi brtt. hv. 6. landsk. þm. um bótagreiðsluna yrði samþ., þá mundi hún aldrei verða nema pappírsgagn, þar sem það stendur í frv., að bæturnar megi lækka hlutfallslega, ef fé sjóðsins hrekkur ekki til.

Ég held, að ég hafi hlaupið yfir eina af brtt. hv. þm. Barð., sem er um það, að stofnfé sjóðsins megi aldrei skerða, en hins vegar skuli leggja í stofnsjóðinn 5% árlega af tekjum sjóðsins. Um þetta töluðum við allmikið, þegar við vorum að semja þetta frv. Og okkur fannst öllum æskilegt, að það þyrfti ekki að skerða stofnsjóðinn, og að það væri mjög æskilegt, að hægt væri að láta ganga í hann hluta af árlegum tekjum sjóðsins, svo að hann gæti orðið sterkari stofnun, sem gæti bætt e.t.v. meiri aflabrest en frv. gerir ráð fyrir. Hins vegar álitum við, að eins og ástæðurnar eru nú hjá útgerðinni, þá væri varla fært annað en að heimila að taka meira og minna af stofnsjóðnum, ef á þyrfti að halda, þó að það gæti kostað það eftir tvö, þrjú eða fjögur ár, að stofnsjóðurinn yrði að mestu upp étinn. Við álitum, að útgerðarmenn óskuðu þess, — eða a.m.k. hélt ég það, — að þetta ákvæði væri sett í frv., að það mætti eyða stofnsjóðnum að miklu leyti í bætur, ef á þyrfti að halda. En ég hef dálítið breytt um skoðun á því, því að bæði tel ég, að skoðanir hv. þm. Barð. muni vera í samræmi við óskir útgerðarmanna, og hins vegar heyrði ég það á hv. þm. Ísaf., sem mikið hefur verið við útgerð riðinn, að hann var á því að samþ. þá breyt., að stofnféð mætti ekki skerða og að því væru áætlaðar árlegar tekjur, ákveðinn hundraðshluti af árlegum tekjum sjóðsins eða þá allir vextir af honum, svo að ég hallast miklu frekar nú að þeirri till., að sett verði ákvæði um þetta inn í frv. En þó vil ég að svo komnu ekki ganga lengra en það, að sjálfan stofnsjóðinn megi ekki skerða, en ekki ganga inn á hitt að bæta við hann vöxtum af árlegum tekjum aflatryggingasjóðsins eða þá vöxtum af stofnsjóðnum sjálfum. Hv. 1. landsk., sem talaði hér í upphafi þessa fundar í dag, er ekki viðstaddur nú, en ég verð að minnast á það, sem hann hafði aðallega út á frv. að setja. Það var sérstaklega ákvæðið um það, að tillög til sjóðsins yrðu tekin sem hundraðshluti af óskiptum afla bátanna. Það er ekki hægt að neita því, að með þeirri aðferð hljóta sjómenn að borga ofur lítið í sjóðinn. Þetta finnst hv. 1. landsk. þm. alveg ófært og ekki koma til mála. Ég er á annarri skoðun um það. Ég álít, að þetta gjald sé svo lágt, sem kæmi til með að lenda á þeim, þannig að það væri hverfandi hluti af tekjum þessara manna, því að maður, sem fær 10 þús. kr. hlut, þarf þá að borga 100 kr. í sjóðinn eftir þessu ákvæði, og maður með 12 þús. kr. hlut 120 kr. Ég held, að þetta sé svo lágt gjald, að það sé ekki hægt að setja þetta fyrir sig, ekki sízt þegar þess er gætt, að með þessu fær hlutaðeigandi sjómaður aukna tryggingu fyrir því, að hann fái kauptryggingu sína borgaða refjalaust, í stað þess að í mörgum tilfellum verður hann að ná kaupinu gegnum lögveð í skipi, sem kostar hann í mörgum tilfellum að verða að biða eftir því, og auk þess á hann alls ekki víst að fá það, ef skipið t.d. er svo lítils virði, að það hrekkur ekki til þess að borga lögveð, sem á því hvíla, eins og hv. 1. landsk. þm. benti sjálfur á í ræðu sinni í dag. Ég held, að þetta sé þess vegna ekki til þess að setja fyrir sig. Auk þess hefur það verið tekið fram af hv. þm. Barð. og fleirum, að það er sannarlega ekki einskis virði fyrir hlutarmanninn heldur, ef þetta gæti miðað að því að tryggja útgerðina og þar með atvinnu hans af henni. Þessi hv. þm. lét greinilega í ljós, að hann óskaði þess, að þetta frv. yrði ekki samþ. á þessu þingi, heldur athugað betur og ýmsum skýrslum safnað til þess að undirbyggja þessa löggjöf. Ég held, að þetta væri nú ekki heppilegt. Það er nú fyrst og fremst, að því hefur verið yfir lýst af hæstv. ráðh., — enda hefur maður einnig heyrt það úr öðrum áttum, að því hefur verið lofað, að löggjöf um þetta mundi verða afgr. á þessu þingi. Og ég tel ekki fært að rjúfa það loforð. Að öðru leyti hygg ég, að það græðist ekki mikið á því þó að safnað yrði ýmsum skýrslum um afla og annað þessu viðkomandi. Við höfum ekki reynt starfsemi slíka sem þessa eða löggjöf um hana. Og ég hygg, að reynslan ein geti sýnt okkur, hvað það er í lögunum, sem síðar þarf að breyta. Það hefur verið stofnaður einn hlutatryggingasjóður á einum stað í landinu, samkv. l. frá 1943, sem eru aðeins heimildarlög. Og sjóðurinn hefur starfað þangað til nú og starfar sjálfsagt enn, og ég veit ekki annað en að sú starfsemi hafi gengið sæmilega vel. En að öðru leyti vantar alla reynslu um starfsemi slíka sem þessi löggjöf gerir ráð fyrir, sem hér er frv. um. Og ég hygg, að reynslan ein geti sannað, hvað það er, sem síðar þarf að breyta í l.

Hv. 1. þm. Reykv. spurði hér í dag hæstv. ráðh. um það, hvort hann mundi sjá sér fært að taka inn á fjárl. nú þær upphæðir, sem til þess þyrfti að byggja upp þennan sjóð. Ég held, að það sé kannske ekki mikil ástæða til þess að tala um þetta nú, af þeirri ástæðu, að þessi lög geta aldrei tekið gildi, fyrr en í lok vetrarvertíðar. Og ég hef a.m.k. haldið, að þau yrðu ekki látin gilda aftur fyrir sig þannig, að það yrði krafið um gjald frá útgerðinni fyrir þann hluta ársins, sem liðinn er, þegar lögin taka gildi. Og sé sá skilningur réttur, þá er það ekki mikið, sem útgerðin þarf að leggja á sig á þessu ári vegna þessa sjóðs, og þá ríkissjóður ekki heldur. Mér heyrðist á þessum hv. þm., 1. þm. Reykv., að hann gerði sér ákaflega litlar vonir um þetta framlag af eignaraukaskattinum. Ég verð að segja, að ég er miklu bjartsýnni en hann á það. Ég held, að það hljóti að koma svo mikið þar inn, að það komi ekki til þess, að ríkissjóður þurfi að borga þetta, sem sé það, sem vantar á fimm milljónirnar. — Ég hef nú minnzt á flestar þessar till. og sé því ekki ástæðu til að lengja mál mitt og mun þess vegna ekki hafa um þetta fleiri orð.