11.05.1950
Sameinað þing: 48. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 880 í B-deild Alþingistíðinda. (1151)

38. mál, fjárlög 1950

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja ásamt samþingsmanni mínum tvær till. á þskj. 712, III. og X. Reyndar flytjum við líka þriðju till., en hún er ekki á þessu þskj. og hefur ekki verið útbýtt enn, en verður það fljótlega. Fyrri till. á þskj. 712 er um hækkun á styrk til hafnargerðar á Eyrarbakka. Hv. fjvn. lagði til við 2. umr., að veittar yrðu 15 þús. kr. til hafnarbóta, og kann ég henni þakkir fyrir það. En svoleiðis stendur nú á þar, að varnargarður hafnarinnar, sem er til varnar sandburði úr Ölfusá, er bilaður, það hefur brotnað úr honum á stóru svæði, svo að óhjákvæmilegt er að gera við hann á þessu sumri. Enn fremur er bryggjan mjög illa farin, og þarf að gera við hana. Loks ber brýna nauðsyn til þess að dýpka höfnina, því að hún er nú orðin svo grunn, að stærstu bá2arnir þar taka orðið niðri. Allt krefst þetta mikils fjármagns, en dráttur á því að gera þessar framkvæmdir veldur því, að síðar verður það enn kostnaðarsamara og krefst enn meira fjármagns. Þeir eiga að vísu nokkurt fé í hafnarsjóði sínum, en þó að það sé lagt við, þá dugir það samt engan veginn til þess að gera þetta. Ég vona því, að Alþ. sjái, að það er hyggilegt að bæta svolitlu við þessa upphæð, því að það er sparnaður fyrir ríkissjóð að gera það núna, þar sem það kemur í veg fyrir enn meiri fjárútlát síðar, ef stórspjöllum verður ekki forðað nú.

Þá er önnur tillagan um, að 50 þús. kr. verði veittar til umbóta og þurrkunar á ræktunarlöndum Stokkseyringa. Á frv. er ekki lagt til, að neitt verði veitt til þessara mannvirkja, enda þótt annars staðar sé ætlazt til, að fé verði veitt í líkum tilgangi. Nú er í ráði hjá Stokkseyringum að gera umbætur á innsiglingunni hjá sér, og verða þær aðgerðir að fara fram í yztu skerjum í brimgarðinum, og þurfa þeir m.a. að sprengja þar mikið. En eins og gefur að skilja og allir vita, sem til þekkja, þá er slíkt ekki hægt nema sjór sé algerlega dauður og stillilogn sé, því að hvað litill sem sjór er, brýtur á milli skerja, en það er auðvitað ekki auðgert að sjá fyrir veðráttu hér á landi um lengri tíma, það þekkja menn svo vel, að ég þarf ekki að ræða það, en þá er nauðsynlegt að hafa einhverjar aðrar framkvæmdir til þess að nota vinnuaflið í, þegar ekki er verið að vinna í höfninni. Nú stendur svo á, að ræktunarlöndin eru full af vatni, en Stokkseyringar eru þegar byrjaðir á umbótum þarna, — ég ætla, að þeir séu búnir að flytja til sín steyptar pípur, sem ætlað er að leiða vatnið í gegnum malarkambinn og út í sjó. Eru þeir komnir dálítið áleiðis með þetta verk, og ber því brýna nauðsyn til þess að koma þessu mannvirki lengra áleiðis. En þar sem nú svo í viðbót við þessa hafnargerð hagar þannig til um framkvæmdir hafnarinnar að öðru leyti, að nauðsynlegt er, svo að full not verði að vinnuaflinu, hvort sem þeir, sem þarna vinna, geta unnið að hafnarbótunum sjálfum eða ekki, að þeir hafist þá eitthvað annað að, þá verður óhjákvæmilegt að ætla þessum mönnum eitthvert starf í landi, þegar ekki gefur við að vinna við endurbæturnar á höfninni. Með því fyrirkomulagi að ætla verkamönnum, sem að hafnargerðinni starfa, aðeins að vinna að hafnargerðinni einni, gæti það leitt til þess, að það verk yrði um það bil tvísvar eða þrisvar sinnum dýrara, en annars mundi verða, og væri þá illa farið með vinnuaflið, ef það yrði svo óhyggilega notað þarna.

Ég sendi nú hv. fjvn. erindi þetta, til áréttingar því, sem Stokkseyringar höfðu sent fjvn. um málið, og benti á þetta, að nauðsynlegt væri að sjá um, að þeir, sem ynnu við hafnargerð þarna, sætu ekki auðum höndum, þegar þeir geta ekki unnið að hafnargerðinni vegna veðurs. Og mig furðar, að hv. fjvn. skuli ekki hafa gert að till. sínum eitthvað í þessu skyni. Ég veit vel, að hv. fjvn. hefur í mörg horn að líta og margs að gæta. En það er mjög hæpin ráðstöfun þetta hjá hv. fjvn. að synja þessari málaleitun. Úr því að varið er stórum fjármunum til endurbóta á höfninni, þá er það alveg nauðsynlegt, að þeir menn, sem að þessu verki vinna, þurfi ekki að sitja auðum höndum, þótt ekki gefi til endurbóta á höfninni, því að það er ekki hægt að vinna að endurbótum á höfninni, nema þegar bezt og blíðast er veður, alveg ládauður sjór, svo að ekki arði á steini, því að það er í yzta skerjagarðinum, sem sprengingin þarf að fara fram. Og þeir, sem kunnugir eru sjólagi við suðurströndina, einmitt á þessum stað, vita, hve lítið þarf til þess, að óstætt verði við slíkt verk sem þetta. — Hitt veit ég, að hv. fjvn. hefur skilning á, hvernig sjómönnum á Stokkseyri muni vera innanbrjósts, þegar sjóveður er dágott og skip við veiðar fyrir utan skerin, en svo brýtur á milli skerja, að þeir komast ekki á sjóinn úr landi, þó að gnægð sé fisks á miðunum fyrir utan skerjagarðinn. Það fara menn nærri um, sem stundað hafa sjó og vita, hvaða þýðingu það hefur fyrir þá að komast á sjóinn, og einnig fyrir þjóðarbúið.

Ég veit, að það verður ekki skoðað sem óviðeigandi, þó að ég drepi með örfáum orðu.m á þá brtt., sem er ekki enn búið að útbýta hér — til þess að spara mér að taka til máls aftur - og við flytjum, hv. samþm. minn, 2. þm. Árn., og ég, um, að húsmæðraskóla Árnýjar Filippusdóttur í Hveragerði verði veittur lítilfjörlegur byggingarstyrkur. Hún hefur ráðizt í mikla stækkun á húsmæðraskóla sínum, vegna þess að skólinn hefur verið svo mikið sóttur, að hún hefur ekki haft pláss fyrir námsmeyjar sínar, nema með því að auka við bygginguna. Hún fékk í fyrra lítils háttar styrk, sem hrekkur skammt til þess verks. Okkar till. nú er um að veita henni 20 þús. kr. styrk í þessu skyni. Og ég vil vænta, að þó að gæta þurfi allrar aðgæzlu í fjármálunum, þá samþ. hæstv. Alþ. samt sem áður þennan lítilfjörlega byggingarstyrk. Það væri illa séð við þessa konu hennar mikla starf og árvekni í þessu starfi, ef henni væri synjað um þessa fyrirgreiðslu, því að hún hefur sannarlega nóg á sinni könnu í sambandi við fjármálin út af byggingarkostnaðinum við skólann, þó að henni verði sýndur þessi litli vottur fyrirgreiðslu, sem hér er um að ræða, til að standa straum af skólabyggingunni.