11.05.1950
Sameinað þing: 48. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 950 í B-deild Alþingistíðinda. (1174)

38. mál, fjárlög 1950

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Ég hef flutt hér ásamt hv. 8. þm. Reykv. brtt. á þskj. 724 við brtt. hæstv. ríkisstj. á þskj. 713 við frv. til fjárl. Brtt. okkar gengur út á það, að ákvæðið í brtt. ríkisstj. um lengingu vinnutíma á opinberum skrifstofum falli niður. Um leið og ég fylgi þessari till. úr hlaði með nokkrum orðum, get ég ekki látið hjá líða að gera nokkra grein fyrir afstöðu minni til launamálsins. Ég hef átt sæti í n., sem skipuð var á s.l. hausti til endurskoðunar launalaganna. Ég harma það, að ekki varð unnt að ganga fyrr en svo seint frá þessu nál., að ekki vinnst tími til á þessu þingi að afgreiða launalögin. í till. hæstv. ríkisstj. er þó farið eftir till., sem n. gerði um launauppbæturnar. Þær eru að vísu ekki háar, en ef ekki hefði fylgt lenging vinnutímans, hefði ég talið þessa bráðabirgðalausn ekki óviðunandi. Annars ber þess að gæta, að þessar till. frá launalagan. eru engar kröfur frá B.S.R.B.; þar er um að ræða samkomulag á milli fulltrúa bandalagsins annars vegar og hæstv. ríkisstj. hins vegar, og hlýtur þar að verða um nokkra tilslökun að ræða frá því, sem æskilegast mætti telja af hálfu opinberra starfsmanna. Ég hefði þó ekki skrifað undir nál., ef ég hefði ekki verið sannfærður um það, að laun opinberra starfsmanna væru þar nokkurn veginn að fullu samræmd eins og annars staðar gerist. Þau laun, sem ákveðin eru opinberum starfsmönnum, eru þó nokkru lægri, en laun manna við einkaatvinnurekstur, en þó er mismunur ekki meiri en svo, :að sanngjarnt getur talizt, á grunnlaunum ca. 400 kr. á ári miðað við hæsta launaflokk, og er það eftir atvikum viðunandi. Hvað snertir samræmingu á kjörum hinna ýmsu launaflokka, þá var skoðun mín sú, að fyrst og fremst beri að rétta hlut þeirra, sem byggju við lökust kjör. Og til dæmis um, að það sjónarmið hefur verið látið gilda, má t.d. nefna, að samkvæmt till. n. eru laun í hæsta launaflokki ekki meira en 4 sinnum hærri en í lægsta flokki, en í Noregi t.d. eru þau 10 sinnum hærri. Til dæmis má líka nefna, að hjá Skipaútgerð ríkisins hafði þriðjungurinn af starfsfólkinu, sem á skipunum vinnur, hærri laun en ráðherrar, fyrir utan ýmis hlunnindi. Annað dæmi má einnig taka fá Danmörku, þar sem laun presta eru talsvert hærri, en meistara í ýmsum iðngreinum, en hér eru prestar aðeins hálfdrættingar á móts við þá. Hvað snertir hærri launaflokkana, vantar talsvert á, að þeirra hlutur sé réttur, og í heild verður að teljast, að opinberir starfsmenn væru ekki illa að því komnir að fá eitthvað meira, en gert er ráð fyrir í till. hæstv. ríkisstj. Og ég mun greiða atkvæði með brtt., sem fram eru komnar frá Alþýðuflokksmönnum og sósíalistum við brtt. hæstv. ríkisstj. Ég tel það hóflega í sakirnar farið í þeim till., að ekki geti talizt óábyrg afstaða að greiða þeim atkvæði. Útgjöld, sem af þeim hækkunum stafa, standa a.m.k. að helmingi undir sér sjálf sem skattar. Og ég vona, að mér takist að öðru leyti að sýna þá íhaldssemi, að það geti ekki talizt óábyrg afstaða af mér að fylgja þessum till., þó að ég láti hjá líða að benda á tekjuöflunarleiðir á móti útgjöldum, er af því stafa. Svo er annað mál, hvort daun opinberra starfsmanna eru ekki eftir sem áður of lág. En í sambandi við það kemur bara spurningin um möguleikana á því að bæta kjör manna með launahækkunum. Og varðandi þá spurningu get ég ekki stillt mig um að láta í ljós, að það er ekki kaupgjald og gengi, sem ákveður lífskjörin. Ef svo væri, þá væri útrýming fátæktarinnar einfalt mál — það þyrfti þá ekki annað en hækka hvort tveggja. En að stjórnarflokkarnir hafa takmarkaða trú á slíkum aðgerðum, sést á því, að þeir hafa ekki flutt till. um að skrá dollarinn t.d. á krónu og pundið á 30 aura. Þetta hefðu þeir auðvitað getað gert og ákveðið jafnframt, að kaup Dagsbrúnarverkamanna skyldi vera 20 kr. á klst. En slíkar aðgerðir eru bara álíka gagnslitlar eins og að ætla sér að bæta úr kjötskorti með því að reikna kjötþungann í grömmum í staðinn fyrir kíló.

Um það má deila, hvað sé eðlilegur vinnutími á opinberum skrifstofum. Það er oft talað um, að hann sé óhæfilega stuttur, miðað við vinnutíma manna við framleiðslustörf. En ég vil vekja athygli á því, að það er engin meining, að sami vinnutími eigi að gilda við öll störf. Ég hef bæði unnið við landbúnaðarvinnu og á skrifstofu, og ef ég miða við 9 klst. vinnu við hvor tveggja störfin, þá hygg ég, að flestir, sem þekkja þann samanburð, viti, að maður er ólíku þreyttari eftir að hafa setið á skrifstofu þann tíma. En hvað sem því líður, kann að vera, að eitthvað mætti lengja þann tíma, sem nú er unnið á opinberum skrifstofum. En ég tel þó aðalatriðið að bæta vinnubrögðin, og ég játa, að mér þykir sennilegt, að agi á sumum opinberum skrifstofum mætti vera meiri. En ég álít rangt að lögbjóða lengri vinnutíma, og ég tel, að fyrsta sporið ætti að vera að koma á betra eftirliti með því, hvernig menn rækja störf sín. Það væri réttmæt ráðstöfun og við því er ekkert að segja, og því ber að mæta með velvilja. Hins vegar get ég ekki séð, að lenging vinnutímans mundi bera þann árangur, sem til er ætlazt, og sú ráðstöfun mundi mæta andúð. Ég álít sparnaðinn af henni hæpinn og tel, að sama árangri mætti ná með einfaldara móti, sem mundi ekki mæta eins mikilli andúð. Því vænti ég þess, að hv. alþm. sjái sér fært að veita þessari brtt. okkar nægilegt fylgi, til þess að hún nái fram að ganga.