06.02.1950
Neðri deild: 41. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 986 í B-deild Alþingistíðinda. (1250)

11. mál, togarakaup ríkisins

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að leggja fram tvær brtt. við þetta frv. Eins og hv. þm. muna, hef ég áður borið fram tvær brtt. við 2. umr. málsins. Hin fyrri af þessum brtt. er við 1. gr., á þá lund, að þeim kaupendum íslenzkum, sem fá togara hjá ríkisstj., skuli tryggt, að þeir fái þá með þeirri gengisskráningu á kaupverðinu, sem gilti 1. janúar 1950. Það á að vera meiningin með þessum togarakaupum að tryggja það, að skipin komizt á íslenzka eigu, og ekki aðeins í eigu ríkisstj., heldur fyrst og fremst í þær hendur, sem eru reiðubúnar; og það verður því að búa svo um hnútana, að það verði aðilar innan lands, sem treysti sér til að kaupa þá.

Þegar nýju togararnir voru pantaðir, þó seint væri, þá komu þegar fram margar umsóknir frá aðilum innanlands um að fá þá keypta, enda þótt fjárhagsgeta væri misjöfn. Það var upplýst af fyrrv. forsrh., er hann skýrði frá togarakaupunum upphaflega, að lánsheimild mundi verða um 75% og kaupverð hvers togara um 41/2 millj. króna, en gæti þó orðið nokkru hærra. Nú virðast líkur til, að gerð verði gengisbreyting hér á Íslandi á næstunni, a.m.k. hafa framsóknarflokks- og sjálfstæðismenn haft hana á baugi og vísbendingar komið um, að hún væri í vændum, meira að segja frá hæstv. ríkisstjórn. Ef krónan verður lækkuð gagnvart sterlingspundi, er sagt, að útgerðinni yrði bjargað með því. En þótt þessir flokkar hefðu þá trú, gæti samt enginn haldið því fram, að það yrði léttir fyrir útgerð þessara nýju togara, sem um ræðir í þessu frv. Kostnaðarverð þeirra, sem áætlað var 41/2 millj., mundi þá að líkindum fara upp í 7 millj. kr. á skip, og alveg gefið, að það yrðu fáir til þess hér innanlands að kaupa þá á 7 millj. kr. stykkið, og jafnókleift yrði að reka þá svo dýra. Þeir, sem fengju þessa togara, yrðu að geta staðið jafnt að vígi um rekstur þeirra og hinir, sem fengu eldri togarana. Gengisfellingin, sem á að vera bjargráð fyrir útgerðina, yrði hvað snertir þessa togara hinn mesti ógreiði, ef hækkun kaupverðs af völdum hennar ætti að skella á þeim aðilum, sem kaupa þá. Gagnvart þeim aðilum ber Alþingi vissa ábyrgð. Með því að fella á sínum tíma tillögur okkar sósíalista um kaup fleiri togara, þegar það var heppilegt og þeir hefðu komið í gagnið án nokkurra þeirra ráðstafana, sem nú þarf að grípa til, þá tók sá meiri hluti, sem felldi þær tillögur, vissa ábyrgð á sig gagnvart þeim aðilum, sem með því voru útilokaðir frá að fá togara á þeim tíma.

Eftir að ákvörðun var tekin um þessi nýju togarakaup, hafa gefizt mörg tækifæri til að borga af skipunum. Hins vegar hefur þessum togurum ekki verið úthlutað til kaupenda né þeim gefinn kostur á að forðast hugsanlega gengislækkun. Ríkisstjórnin getur þannig ekki verið þekkt fyrir að láta afleiðingar gengislækkunarinnar skella á kaupendum þessara 10 togara. Það hefur verið tekið fram fyrir hendurnar á þessum aðilum, og ríkisstjórnin verður að taka afleiðingarnar á sínar herðar.

Hins vegar vil ég taka það fram, að þótt ég gagnrýni ýmislegt, sem gerzt hefur í þessu máli, þá er ég ekki að gagnrýna það, að togararnir skuli hafa verið keyptir; þó seint væri hafizt handa, var sú ráðstöfun réttmæt. Og ef sæmileg stjórn væri á efnahagsmálum okkar í heild, þá gætu þessi skip gert fullt gagn. En nú ganga sögur um, að viss máttarvöld hugsi sér að selja togarana til útlanda. Og þrátt fyrir tvennar kosningar hefur ríkisstjórnin ekki fengizt til að láta í ljós, hverjir eigi að fá þá. Það þarf nú ekki að fara í neinar grafgötur um það, hvaðan þessi hugmynd muni vera komin. Kaupin á nýsköpunartogurunum mættu á sínum tíma mikilli andstöðu úr ákveðinni átt, og ekki er ósennilegt, að þessi hugmynd sé undan sömu rifjum runnin. Þjóðina á að losa við sinn „háa lífsstandard“, og togarana á að selja útlendingum til að gera þá svo út á Íslandsmið. — En eins og ég sagði, álít ég, að ríkisstjórnin beri ábyrgð gagnvart þeim aðilum íslenzkum, sem neitað var um togarana á sínum tíma, ásamt þeim meiri hluta á Alþingi, sem að því stóð. Og sé það rétt, að þessir flokkar hugsi sér nú að fara út í gengislækkun, þá ætti að vera umbrotalítið að bæta fyrir vanrækslu í þessu efni með því að samþykkja till. mína. Hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: [sjá þskj. 296.]

Þá hef ég í öðru lagi leyft mér að leggja fram brtt. samhljóða þeirri, sem felld var við 2. umr., og liggur hún hér fyrir skrifleg. Þar er þó aðeins farið fram á 75% lán til kaupanna á togurunum, í stað 85%, sem gert var ráð fyrir á till. á þskj. 111 í samræmi við það, að sú upphæð var lánuð bæjar- og sveitarfélögum út á nýsköpunartogarana. Í 2. gr. frv. er gengið út frá 10% láni aðeins, en ekkert bæjar- eða sveitarfélag er svo statt, að það geti keypt þá með slíkum kjörum. Það hefur verið sagt, að þau gætu fengið lán úr stofnlánadeild sjávarútvegsins, en úr henni er ekki von um nein lán nema gerð verði breyting á löguxum um stofnlánadeildina, en um þá breytingu hef ég lagt fram frv., sem nú liggur fyrir sjútvn. Þeir togarar, sem ríkisstj. hefur veitt víxillán, gætu þá fengið lán í stofnlánadeildinni, ef þetta frv. yrði að lögum, en samt mundu líða nokkur ár, unz hún gæti veitt slík lán. Ég álít því eðlilegt, að hlaupið sé undir bagga með þeim, sem vilja kaupa þessa togara, á þann hátt, sem gert er ráð fyrir í brtt. minni. Svo er hins vegar spurningin um það, hvort það sé rétt að gera ráðstafanir til þess að tryggja það, að það verði fyrst og fremst bæjar- og sveitarfélög, sem fái þessa togara, en koma um leið í veg fyrir, að einstakir auðmenn hér innanlands eða auðfélög fái þá keypta. Ef þessi brtt. mín yrði samþ., þá væri þar með alls ekki útilokað, að ýmsir fjárhagslega sterkir menn, sem vildu kaupa þá, gerðu það. En þá er það þó stefna Alþingis í þessu máli. sem væntanlega mundi ráða, þ.e.a.s., hverjir eiga að eiga þessa togara, hvort þessi framleiðslutæki eiga að vera einkaeign eða eign bæjar- og sveitarfélaga.

Það hefur oft verið um það talað og ekki hvað sízt í blöðum Framsfl., að það beri að beina fjármagninu meira út á landsbyggðina en gert hefur verið að undanförnu, svo að fólkið haldi ekki áfram að streyma hingað til Reykjavíkur og Hafnarfjarðar. Þetta verður að gera með því að veita fjármagn til þessara staða til þess að kaupa framleiðslutæki, sem skapa svo mikla atvinnu, að fólk leiti ekki þaðan, en til þess þarf sérstök hlunnindi af hálfu bankanna og hins opinbera. Það þarf að veita þessum stöðum svo rífleg lán, að þeir virkilega treysti sér til þess að ráðast í að kaupa slík framleiðslutæki. En ef hins vegar það, sem kallað hefur verið hið eðlilega lögmál viðskiptalífsins, á að halda áfram, þá verða það ekki bæjar- og sveitarfélögin, sem þetta fá, heldur þeir ríku fyrst og fremst. Ef það er meiningin að stuðla að því, að sveitar- og bæjarfélög fái þessi hlunnindi, þá verður að gera ákvörðun um það nú, en ef hún verður ekki gerð, þá er það öruggt, að þessi framleiðslutæki lenda til hinna ríku einstaklinga og hlutafélaga. Þess vegna hef ég leyft mér að bera fram þessa till. Ég vil taka það fram, að ég álít, að þessi 75% séu það allra minnsta, sem sveitar- og bæjarfélög geta komizt af með, og það sé allt of lítið að hafa ekki nema 10%, eins og lagt er til í 2. gr. frv., því að það verður víst ábyggilega nógu erfitt fyrir viðkomandi bæjar- og sveitarfélög að slá sér út lán fyrir þessum 25%. Það er ekki til neins að hafa ekki nema 10%, eins og í 2. gr. er sagt. Það er vitanlegt, að nokkur bæjarfélög, sem eiga einn togara, vildu gjarnan fá annan, því að það er vitað, að það er miklu praktískara að eiga tvo en einn, vegna þess að þeir eru tiltölulega miklu ódýrari í rekstri, enda var okkur það líka ljóst í upphafi, að það var aðeins byrjunin eða vísir að stærri togararekstri. En eins og fjárhagsástandið er núna, þá er það beinlínis lífsnauðsyn fyrir þessi bæjarfélög að fá nú togara til viðbótar.

Þess vegna vonast ég til þess, enda þótt fyrri till. mín um 85% hafi verið felld. að þessi till. finni náð fyrir augum meiri hlutans í hv. deild og verði samþykkt. — Vil ég svo leyfa mér að biðja hæstv. forseta að leita afbrigða fyrir þeim, þar sem þær eru bæði of seint fram komnar og auk þess skriflegar.