14.11.1949
Sameinað þing: 0. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 9 í B-deild Alþingistíðinda. (2)

Minning látinna manna

Aldursforseti (JörB):

Áður en þingstörf hefjast að þessu sinni, vil ég minnast nokkrum orðum þriggja fyrrverandi alþingismanna, sem látizt hafa milli þinga. Þessir menn eru Sveinn Ólafsson, umboðsmaður í Firði, sem andaðist að heimili sínu, Firði, 20. júlí s.l., 86 ára að aldri, séra Þorsteinn Briem, sem andaðist að heimili sínu hér í Reykjavík 16. ágúst síðastl., 64 ára að aldri, og Þórarinn Benediktsson frá Gilsárteigi, sem lézt í landsspítalanum í fyrradag, 12. þ. m., 78 ára að aldri.

Sveinn Ólafsson fæddist í Firði í Mjóafirði 11. febrúar 1863. Foreldrar hans voru þau Ólafur bóndi í Firði Guðmundsson og kona hans Katrín Sveinsdóttir bónda á Kirkjubóli í Norðfirði Jónssonar. Sveinn ólst upp með foreldrum sínum, en fór til Noregs 18 ára gamall og dvaldist þar við nám í lýðháskólum 1881–82. Síðan fór hann í Möðruvallaskóla og lauk þaðan prófi 1884. Ári síðar fór hann utan öðru sinni og stundaði nám í kennaraskóla Kaupmannahafnar 1885–86. Vorið 1887 reisti hann bú á Asknesi í Mjóafirði og bjó þar til ársins 1899. Þá tók hann við forstöðu verzlunar í Bakkagerði í Borgarfirði eystra og gegndi því starfi um tveggja ára skeið, en vorið 1901 gerðist hann bóndi í Firði og rak þar búskap fram á elliár og átti þar jafnan heimili síðan.

Það kom snemma í ljós, að Sveinn Ólafsson var frábær vitsmunamaður og jafnframt áhugasamur um þjóðmál, og þótti hann því þegar á ungum aldri vænlegur til forustu, enda voru honum snemma falin hvers konar trúnaðarstörf í héraði. Hann var hreppsnefndarmaður í nærfellt hálfa öld, sýslunefndarmaður í nálega 30 ár og amtsráðsmaður um skeið. Árið 1909 varð hann umboðsmaður Múlasýsluumboðs og gegndi því starfi milli 30 og 40 ár. Hann var þingmaður Sunnmýlinga á árunum 1916–33 og sat á 20 þingum samfleytt. Þótt kominn væri yfir miðjan aldur, eða 53 ára, þegar hann tók fyrst sæti á Alþingi, gætti þess þegar, að þar var enginn miðlungsmaður setztur á þingbekk. Fyrir sakir fjölhæfni hans, glöggskyggni og mælsku, samfara víðtækri þekkingu á landshögum og atvinnumálum þjóðarinnar, einkum landbúnaðar- og sjávarútvegsmálum, mun honum jafnan verða skipað á bekk með mikilhæfustu þingmönnum þjóðarinnar á þessu tímabili. Hann var hvort tveggja í senn, kappsfullur og rökvís málafylgjumaður og samningamaður, ef því var að skipta og honum þótti einhver afsláttur á fyllstu kröfum vænlegur í bili til þess að þoka máli áleiðis.

Hann átti sæti í milliþinganefnd í vatnamálum, svonefndri fossanefnd, sem starfaði á árunum 1917–19, varð þar í minni hluta um mikilvæg atriði og ritaði ýtarlegt sérálit. Þegar vatnalöggjöfin var sett nokkrum árum síðar, urðu sjónarmið hans ofan á í þingínu. Sem vænta mátti var hann áhrifamaður í fjölmargri lagasetningu, ekki sízt á sviði atvinnumálanna, sérstaklega sjávarútvegsins, og má þar einkum nefna nýja skipun síldarútvegsmála.

Sveinn Ólafsson var rammíslenzkur og málfar hans í ræðu og riti kjarnmikið og sérkennilegt. Þegar hann tók til máls, og það gerði hann oft á þingi, var setningaskipun öll svo óskeikul og fastmótuð sem hið vandaðasta ritmál. Innanþingsskrifurum, sem ekki náðu ræðum hans orðréttum, fundust stundum handrit sín illa leikin, þegar þeir sáu þau yfirlesin af ræðumanni, enda var hann svo stílfastur og málvandur, að hann vildi ekki hlíta í því efni orðalagi annarra, en sjálfs sín.

Áður en Alþingismannatalið var gefið út 1930, voru þingmönnum sendar nokkrar spurningar á blaði varðandi æviatriði þeirra. Síðasta spurningin var á þessa leið: Önnur atriði, er máli þykja skipta og einkum lúta að þjóðmálastarfsemi. Í svardálkinn ritaði Sveinn Ólafsson og varð að þjappa saman efninu, því að rúmið var lítið:

„Hef frá æsku talsvert kynnzt Norðurlandaþjóðum, einkum Norðmönnum, einnig Skotum. Mótaðist snemma norskum áhrifum. Hef oft dregið líkur af norskum fyrirmyndum. Varð ákveðinn sjálfstæðismaður snemma fyrir norsk áhrif. Samanburður íslenzkrar sveitamenningar við hliðstæða menningu Skandinava hefur rótfest þá skoðun hjá mér, að sveitamenningin íslenzka sé fjöregg þjóðarinnar. Eftir því ekið seglum.“

Með þessum orðum lýsir hann bezt sjálfur meginviðhorfi sínu í allri þjóðmálastarfsemi. Sveins í Firði mun lengi verða minnzt sem eins hins vitrasta og menntaðasta Íslendings í bændastétt.

Séra Þorsteinn Briem var fæddur að Frostastöðum í Blönduhlíð 3. júlí 1885, sonur Ólafs Briems, bónda þar, en síðar og lengst af á Álfgeirsvöllum, og konu hans, Halldóru Pétursdóttur. Var hann ungur settur til mennta og tók stúdentspróf 1905, en guðfræðiprófi lauk hann 1908. Næsta vetur dvaldist hann í Danmörku til frekari undirbúnings undir lífsstarf sitt. Prestsvígslu tók hann í júlímánuði 1909 sem aðstoðarprestur séra Jens Pálssonar í Görðum á Álftanesi. en tæpum tveimur árum síðar voru honum veitt Grundarþing í Eyjafirði, og þjónaði hann því kalli í 8 ár, en sótti þá um Mosfell í Grímsnesi, hlaut kosningu og gegndi prestsembætti þar um tveggja ára skeið. Eftir það var honum veitt Garðaprestakall á Akranesi, og þar starfaði hann í aldarfjórðung, að frátöldum rúmum tveimur árum, er hann gegndi ráðherraembætti, eða til vorsins 1946, en þá lét hann af prestskap vegna heilsubilunar. Um sumarið fór hann til Svíþjóðar til að leita sér lækninga og dvaldist þar og í Danmörku í sjúkrahúsum og undir læknahöndum um nærfellt tveggja ára skeið. Hvarf hann þá heim og virtist hafa fengið nokkra bót meina sinna, en brátt sótti í sama horf, sjúkleiki hans ágerðist og dró hann til dauða rúmu ári eftir heimkomuna.

Þegar á fyrstu prestskaparárum séra Þorsteins þótti mjög að honum kveða sem kennimanni, og brátt kom svo, að almenningsálitið skipaði honum á bekk með fremstu andlegrar stéttar mönnum þjóðarinnar. Bar margt til: virðulegur persónuleiki, prúðmannleg framkoma, fjölþættar gáfur og alúð sú og innileiki, sem hann lagði í starfið. Sérstaklega var hann talinn skara fram úr í prédikunarstarfinu, og þótti í ræðum hans fara saman andríki, orðkynngi og frábær flutningur. Þess var að vænta, að slíkum manni væru falin ýmis aukastörf á sviði kirkjumála og kristindóms, enda varð sú raunin á. Hann var formaður í milliþinganefnd í kirkjumálum, er skipuð var 1929. Prófastur var hann í Borgarfjarðarprófastsdæmi frá 1931 til þess er hann lét af prestskap. Í kirkjuráði átti hann sæti frá stofnun þess, og í stjórn „almennra kirkjufunda“ sat hann lengi. Formaður Hallgrímsdeildar Prestafélags Íslands var hann um langt skeið og síðar heiðursfélagi.

Allmörg hin síðustu árin og svo að segja fram undir andlátið vann séra Þorsteinn að miklu ritverki um íslenzkan sálmakveðskap. Hafði hann aflað sér víðtækrar þekkingar á því sviði og vann að þessu áhugamáli sínu, meðan kraftar entust, með þeirri vandvirkni, sem einkenndi öll störf hans, en auðnaðist ekki að ljúka því.

Þó að séra Þorsteinn teldi sig fyrst og fremst þjón kirkjunnar og málefna hennar, lét hann og ýmis önnur mál til sín taka. Hann hafði m.a. mikinn áhuga á landbúnaði og trúði örugglega á framtíð hans og lífsorku íslenzkrar frjómoldar, og sjálfur rak hann jafnan búskap með góðum árangri á prestssetursjörðunum, er hann sat.

Séra Þorsteinn sóttist ekki eftir vegtyllum og virðingarstöðum, en um svo frábæran vitsmunamann og mannkosta gat naumast hjá því farið, að aðrir yrðu til þess að benda á hann og fá hann til að gegna trúnaðarstörfum utan síns embættislega verkahrings. Á árunum 1932–34 var hann skipaður ráðherra í ráðuneyti Ásgeirs Ásgeirssonar og hafði með höndum kirkju- og kennslumál og landbúnaðarmál. Kom hann þá fram á þingi nokkrum málum, er hann hafði unnið að í kirkjumálanefndinni. Af öðrum merkum málum, sem hann undirbjó á ráðherratíð sinni, má nefna ábúðarlögin, er allmiklar deilur höfðu staðið um, en honum tókst að leysa.

Á þingi átti séra Þorsteinn sæti í níu ár, 1934 –37 sem landskjörinn þingmaður, en þingmaður Dalamanna 1937–42. Var hann ávallt mikils metinn af samþingismönnum sínum sökum vitsmuna og hygginda, og tillögugóður var hann ætíð, ráðsvinnur og rökvís. — Hann var einn af stofnendum Bændaflokksins og formaður hans 1935–42.

Við fráfall séra Þorsteins Briems á þjóðin á bak að sjá einum mætustu sona sinna. Þórarinn Benediktsson var fæddur 3. marz 1871 í Keldhólum á Völlum. Foreldrar hans voru Benedikt Rafnsson, síðar bóndi í Höfða á Völlum, og kona hans, Málfríður Jónsdóttir bónda í Keldhólum Marteinssonar. Þórarinn útskrifaðist úr búnaðarskólanum á Eiðum 1892, mun síðan hafa stundað ýmis sveitastörf, unz hann reisti bú á Gilsárteigi í Eiðaþinghá 1897, og þar bjó hann alla búskapartið sína. Hreppstjóri var hann 1898 og síðan alla þá tíð, er hann bjó á Gilsárteigi, og sýslunefndarmaður um skeið. Þá átti hann sæti á búnaðarþingi nokkur ár, og á tímabili var hann í stjórn Eiðaskóla. Árið 1919 brá hann búi og fluttist eftir það til Seyðisfjarðar. Gerðist 1920 gjaldkeri útibús Íslandsbanka og síðar Útvegsbankans þar og mun hafa gegnt því starfi til 1931. Eftir það stundaði hann ýmis störf á Seyðisfirði, meðal annars búnaðarstörf og skriftir. Hann átti sæti á Alþingi sem þingmaður Sunnmýlinga á þingunum 1914 og 1915.

Þórarni Benediktssyni er svo lýst, að hann hafi verið greindur maður og gegn, jafnan traustur í starfi og trúr hverju góðu málefni, er hann lagði lið. Þótt ekki hefði hann sig mjög í frammi á hinum stutta þingsetutíma sínum, aflaði hann sér trausts og virðingar samþingismanna sinna, er vel kunnu að meta störf hins hyggna og hollráða manns.

Ég vil biðja háttvirta alþingismenn að rísa úr sætum og votta þar með virðing minningu þessara mætismanna. — [Þm. risu úr sætum.]

Varamaður tekur þingsæti.

Þá skýrði aldursforseti frá því, að forseta sameinaðs þings hefði borizt eftirfarandi bréf: „Reykjavík, 14. nóv. 1949.

Það tilkynnist yður hér með, að Eiríkur Einarsson, 2. þm. Árn., getur ekki að svo stöddu tekið sæti á Alþingi sökum veikindaforfalla, og hefur hann óskað þess, að varamaður hans, Sigurður Ó. Ólafsson, taki í hans stað sæti á þingi fyrst um sinn.

Virðingarfyllst

F.h. miðstjórnar Sjálfstæðisflokksins

Jóhann Hafstein.“

Rannsókn kjörbréfa.

Aldursforseti kvaddi sér til aðstoðar sem fundarskrifara þá Skúla Guðmundsson, þm. V-Húnv., og Lárus Jóhannesson, þm. Seyðf., en þessu næst skiptust þm. í kjördeildir, og urðu í

1. kjördeild:

BSt, EOI, EmJ, EystJ, GJ, HG, IngJ, JG, JPálm, JS, JÁ, JörB, LJóh, PZ, SÁ, SG, StgrA, ÞÞ.

2. kjördeild:

ÁkJ, ÁS, BÁ, BÓ, SÓÓL FRV, GG, GTh, GÞG, JóhH, JR, KK, KS, LJós, SB, StJSt, StSt.

3. kjördeild:

ÁÁ, ÁB, BBen, BrB, FJ, HA, HV, HelgJ, HermJ, JJós, ÓTh, PÞ, PO, RÞ, SkG, StgrSt, VH.

Fyrir lá að rannsaka kjörbréf allra alþingismanna. Skiptu kjördeildir með sér kjörbréfum svo sem lög mæla fyrir, þannig að 1. kjördeild hlaut til rannsóknar kjörbréf þeirra þm., sem voru í 3. kjördeild, 2. kjördeild kjörbréf þm. í 1. deild, og 3. deild kjörbréf þm. í 2. deild.

Varð nú fundarhlé, er kjördeildir gengu úr þingsalnum til starfa sinna, en að rannsókn lokinni var fundi fram haldið.