06.02.1950
Efri deild: 50. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1342 í B-deild Alþingistíðinda. (2173)

106. mál, útsvör

Flm. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Ég hef borið hér fram frv. um breyt. á vissum ákvæðum útsvarslaganna. Eins og hv. d. er kunnugt, eru ákvæði um það nú í útsvarsl., að skipta skuli útsvari á milli atvinnu- og heimilissveitar eftir vissum nánar ákveðnum reglum, ef maður stundar atvinnu utan heimilissveitar sinnar vissan tíma. Jafnframt eru í l. ákvæði um útsvarsjöfnun, sem koma á í veg fyrir, að menn geti komizt í lægra útsvar með því að skrifa sig til heimilis utan atvinnusveitar. Síðan þessi ákvæði voru sett, hafa orðið miklar breytingar. Á stríðsárunum urðu miklar breytingar á atvinnuháttum, og hin mikla eftirspurn eftir vinnuafli hafði það í för með sér, að það var ekki lengur óhagræði að fá menn úr öðrum sveitum til vinnu. Nú hefur að vísu orðið nokkur breyting á þessu, en þrátt fyrir það er engin ástæða til þess, að þessi ákvæði séu lengur í gildi. Ég vil einnig benda á það, að meginorsökin fyrir útsvarsjöfnuninni mun hafa verið, að nokkuð bar á því, að íbúar Reykjavíkur skrifuðu sig í nágrannahreppunum, þar sem útsvörin voru lægri, en í Reykjavík. Á þeim tíma var um talsverðan mun að ræða. Þá var hætta á, að menn reyndu að flýja útsvörin hér í bæ. En nú er orðin gagnger breyting á þessu, þannig að eigi er hægt að tala um neinn mun á útsvarsstiga Reykjavíkur og annarra sveitarfélaga, og meira að segja er í næsta hreppi hærri útsvarsstigi, en í Reykjavík, svo að ekki er ástæða til að ætla, að menn mundu sjá sér hag í því, þótt horfið væri frá varúðarákvæðum l., að láta skrifa sig til heimilis í nágrannahreppunum.

Þá vil ég benda á, að heimilissveitir manna hafa margháttuð útgjöld af íbúum sínum. Þessi kostnaður hefur vaxið mjög í sambandi við l. um almannatryggingar, en skv. þeim þurfa nú öll sveitarfélög landsins að greiða mjög ríflega fjárhæð til þeirra á hverju ári. Þessu fé er engan veginn skipt í hlutfalli við útsvörin, heldur er þar um önnur sjónarmið að ræða: tölu íbúa, fasteignamat og skattskyldar tekjur. En til þess er ekkert tillit tekið, þótt sveitarfélög missi meiri og minni hlut útsvarstekna sinna til atvinnusveitar íbúanna, sem algerlega er laus við umrædd útgjöld o. fl. Þetta hefur komið niður á sveitarfélögunum kringum Reykjavík, og um sum þeirra er svo háttað, að þau þurfa að skila til Reykjavíkurbæjar um helmingi af heildarútsvörum sínum, en þó þurfa sveitarfélögin að greiða af fé þessu þarfir íbúa sinna, þ. á m. til trygginganna. Þessi útsvarsskipting er orðin slík byrði, að sveitarfélögunum verður um megn að rísa þar undir. Ég vil geta þess líka, að heildarútkoman, þegar skiptingin hefur verið gerð, er eigi heldur stórvægileg á neinum stað, nema þá helzt hér í nágrenni Reykjavíkur. Hefur mér skilizt, að eftir því, hversu mikil vinna er í skiptingu útsvaranna milli sveitarfélaga, þá séu eigi mörg sveitarfélög á landinu, er þetta skiptir miklu máli.

Ég held, að á þessu stigi málsins sé eigi ástæða til að fara nánar út í frv., en ég legg til, að því verði vísað til 2. umr. og hv. allshn. Mun ég gera frekari grein fyrir málinu síðar, ef tilefni gefst til þess.