06.02.1950
Efri deild: 50. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1343 í B-deild Alþingistíðinda. (2174)

106. mál, útsvör

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson) :

Eins og hv. flm. tók fram, geri ég ráð fyrir, að þessar flóknu reglur hafi minni þýðingu, en ætla mætti. Því skiptir litlu máli, hvort þær eru hafðar í l. eða ekki. En mér skilst, að fyrir einstök sveitarfélög geti þetta haft töluverð áhrif. Væri því eðlilegt, áður en Alþ. tekur afstöðu til málsins, að leitað yrði umsagnar þeirra sveitarfélaga, sem helzt koma til mála, en þau skilst mér vera annars vegar Reykjavík og hins vegar sveitarfélög í námunda við hana. Það mundi eigi tefja málið mikið, þótt svo yrði gert, og þá yrði líka leitað umsagnar Sambands íslenzkra sveitarfélaga, þar eð núverandi form þess er skrifstofustjóri félmrn. Vil ég benda hv. n., er málið fær til meðferðar, á að hafa þessa aðferð við rannsókn málsins. Hér er mál á ferðinni, sem varðar fyrst og fremst viðskipti sveitanna innbyrðis, og er því eðlilegt, að sveitarfélögin fái að láta skoðun sína í ljós. Og í trausti þess, að þetta verði gert, greiði ég atkv. með frv. til 2. umr.