09.05.1950
Neðri deild: 98. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1398 í B-deild Alþingistíðinda. (2262)

110. mál, sala nokkurra jarða í opinberri eigu

Sigurður Ágústsson:

Herra forseti. Með brtt. minni fer ég fram á, að Alþ. heimili ríkisstj. að hafa makaskipti á jörðinni Klettakoti, sem er eign ríkisins, og jörðinni Straumi, sem Edilon Guðmundsson, bóndi í Stóra-Langadal, er eigandi að Klettakot er tvíbýlisjörð, og ábúandinn, Sverrir Guðmundsson, hefur stóra fjölskyldu, 9 manns, sem hann sér eigi fram á, að framfleytzt geti á svo lítilli jörð. Hins vegar á hann kost á að fá Straum, ef þessi heimild verður samþ. Straumur er bæði betri og stærri jörð, en þar er lítið timburhús. Er ábúandinn fluttur suður í Borgarfjörð, og er jörðin nú í eyði. Ég hef talað við fulltrúa í stjórnarráðinu um þetta, og held ég, að hann sé málinu hlynntur, — að jörðin komist í ábúð. Vil ég því eindregið fara þess á leit við hv. þd., að hún samþykki þessa heimild.