15.05.1950
Efri deild: 106. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1447 í B-deild Alþingistíðinda. (2341)

49. mál, húsaleiga

Frsm. minni hl. (Brynjólfur Bjarnason):

Herra forseti. Það hafa orðið alllangar umr. um þetta mál. Hafa margir tekið til máls. Hv. þm. Barð. hélt hér alllanga ræðu og gat um mörg atriði í húsaleigul. Það er eigi nýtt. Hefur þeirra verið getið bæði fyrr og nú, og kom hann fram sem fulltrúi húseigenda, eins og hann viðurkenndi sjálfur. Hv. þm. hefur áður bent á m. a. atriða, að svo kunni að vera háttað, að ríkur maður sé við lága leigu í húsnæði hjá fátækum manni, og taldi það óréttlátt. Hvað það snertir, að slíkir menn hafi leigt út frá sér, þá er það fjarstæða. Þeir geta ekki gert það án samþykkis húseigenda. En það hefur ekki verið getið um þau atvik, að ríkur maður sé í húsnæði hjá fátækum húseiganda. Eru mörg slík atriði í framkvæmd húsaleigul. En þar er um undantekningar að ræða. Hitt er reglan, að fátækur maður sé í leigu hjá ríkum manni, okurleigu í flestum atvikum, — öllum atvikum, ef hömlurnar verða afnumdar og þetta frv. samþ. Ég spurði hv. þm., hvort hann mundi fylgja till. um að afnema hömlur þess, að einstaklingar fái að byggja yfir sig, þeir sem eru á götunni. Hann svaraði því engu. Hv. þm. talaði um, að ég hefði unnið að undirbúningi l. um fjárhagsráð. Hann veit þó, að það er fjarstæða. L. þessi voru búin til, samþ. og framkvæmd af flokki hans sjálfs. Sósfl. hefur reynt að fá þau afnumin og ýmsar hömlur. En flokkur hans reis sem veggur á móti. Úr þeirri átt vænti ég einmitt stuðnings, og mér þykir leitt, að fsp. minni hefur eigi verið svarað. Hv. þm. kvað skilyrði þess að afnema fjárhagsráð og taka upp frjálsa verzlun vera að fella gengið. Í vegi hefur staðið ósamkomulag um þetta. Nú er búið að fella gengið um 40%. Hvað er þá í vegi fyrir því að afnema fjárhagsráð og gera verzlunina frjálsa? Ég endurtek: Hvað er þá í vegi? Annars vil ég spyrja: Trúir hann því, að eftir gengislækkunina verði auðveldara að gefa verzlunina frjálsa? Ég veit, að hann trúir því ekki. Enginn trúir því. Hann veit — eftir upplýsingum Jóns Árnasonar bankastjóra, — að innflutningsáætlunin hefur hækkað í 345 millj. kr. á þessu ári móts við 325 undanfarið ár og 270 millj. árið þar á undan. Hv. þm. getur eigi haldið, að þá verði auðveldara að gefa verzlunina frjálsa.

Þá sagði hv. þm., að þingið hefði veitt 14 millj. kr. til embættismanna. Sósfl. hefur verið því fylgjandi. Hitt er annað mál, að meðal starfsmanna ríkisins eru fátækir menn, sem nauðsynlegt er að fá launabætur til að byggja yfir sig. Sósíalistar hafa lagt til, að þessir menn fengju mest af þessari fjárhæð, en hún gengi eigi til hálaunaðra manna. Flestir hv. þm. felldu till. þess efnis og samþ. hina, að láta hálaunaða menn fá meiri hluta fjárins. Er ætlunin því að láta menn þessa fá jafnmikið, þó að of lítil leiðrétting sé fólgin í því. Sósíalistar hafa lagt til, að 20 millj. kr. yrðu veittar og fé þetta yrði lagt í íbúðarhúsabyggingar.

Já, að sjálfsögðu eru mörg og margvísleg óþægindi í sambandi við húsaleigul., um leið og órétturinn verður að þoka sæti. Það er óhjákvæmileg leið í sambandi við húsnæðisskömmtunina, að hver maður búi við það, sem til er. Það eru óþægindi að allri skömmtun. En verra er, að einstökum mönnum sé frjálst að sölsa undir sig hinar takmörkuðu vörubirgðir. Þá fengju hinir ekkert. Það eru óþægindi og leiðindi að biðröðum. Verra er þó, að hver maður ryddist og hinir sterkustu og ósvífnustu hefðu betur. Það er mjög mikið gert úr óþægindum húseigenda og erfiði vegna uppivöðslu leigjenda. Er og víst, að slíkt kemur fyrir, og einhvers staðar verða vondir að vera. En verði ósæmilegrar framkomu vart af hálfu leigjenda, er eigi nema rétt, að húseiganda sé leyfilegt að segja upp skv. gildandi l. Vitaskuld eru því óþægindi í sambandi við þessar hömlur, sem allir eru á móti. En skortur á nauðsynjavörum hlýtur að valda óþægindum. Við óhjákvæmileg óþægindi bætast einnig önnur. Undanfarið hafa ýmsir menn, sérstaklega sjálfstæðismenn og framsóknarmenn, unnið að afnámi húsaleigul. Einn þáttur í því er hér á dagskrá, en miðar að því að auka óþægindin. Látlausum áróðri hefur verið haldið uppi gegn l. Er það auðvelt verk. Hefur verið óskaplegur þrýstingur og hótanir fyrir kosningar af hálfu félags fasteignaeigenda. En öll óþægindin í sambandi við við l. eru smámunir borið saman við það neyðarástand, er skapaðist við afnám þeirra. Þess vegna hefur verið óvandaðan málflutning um að ræða og haldið uppi áróðri fyrir ráðstafanir, sem flæmdu menn úr húsnæði og sköpuðu óbærilega dýrtíð í Reykjavík.

Hv. þm. hefur orðið tíðrætt um það ranglæti, er húseigendur verða að þola varðandi húsaleigul. En hitt snertir eigi réttlætisvitund þeirra, þegar fátæku fólki er kastað á götuna, en margt þarf að greiða hærri leigu, en það rís undir. Hvaða réttlætis á að krefjast fyrir húseigendur? Það þykir ranglæti í því, að eigendur eldri íbúða hafi eigi jafnan rétt til að selja leigu háu verði. Nú fá eigendur eldri húsa vexti af eignum sínum, og nauðsynlegt er að halda þeim við. En eigendur eldri húsanna eru eigi verr settir, en sparifjáreigendur, heldur þvert á móti. Vextir þeirra hafa eigi hækkað til samræmis við verðlag, og eigi hafa eignir þeirra verið bættar. Húsin hafa þó nífaldazt í verði. Úr því að verið er að tala um réttlæti, sem að vísu á að ná til þeirra, sem eignir eiga, þá má spyrja, hvaða réttlæti sé í því, að eigendur húsanna beri meira úr býtum, en sparifjáreigendur. Réttlætið er hér þannig: Úr því að þeir, sem geta, verzla á svörtum markaði, þá eiga allir að geta notið þeirra hlunninda. Lengra nær réttlætið ekki.

Ég má nú til með að gera aths. við ræðu hv. 8. þm. Reykv., sem er viðstödd. Hún sagði, að sósíalistum færist ekki að tala, því að þeir hefðu verið svo slæmir 1946. Ástandið hefur versnað síðan, eins og sýnt var fram á með tölum, og bæjarstjórnarmeirihlutinn stóð á móti till. sósíalista. Hitt er aðalatriðið, að á tímum nýsköpunarstj. var meira byggt, en bæði fyrr og síðar í Reykjavík og víðar, íbúðarhús og villur. Síðan hefur, a. m. k. um skeið, virzt svo sem einu byggingarnar, sem leyfðar væru, séu „lúxus“íbúðir. Árin 1944–46 var byggt eins mikið og vinnukraftur leyfði. Hið helzta var bygging íbúða og framleiðslutæki. Þessi stefna var framkvæmd þrátt fyrir andstöðu Framsóknar. Í næstu andránni sagði þessi hv. þm., að aldrei hefði verið byggt minna, en eftir fráför nýsköpunarstj., þ. e. síðastl. 3 ár, á stjórnartímabili fráfarandi stj., og afsakaði þar með fullyrðingu sína. Hverjir fóru þá með völd á því tímabili, sem hv. 8. þm. Reykv. lýsti? Það voru Framsfl. og Sjálfstfl. og Alþfl. Þyngstur verður þó dómurinn yfir Framsfl., eins og komið hefur fram í umr. Á tímabili nýsköpunarstj. voru l. um útrýmingu heilsuspillandi íbúðasamþykkt á Alþingi og lagður grundvöllur að stærri átökum. Hverjir voru þeir, sem felldu þau l. úr gildi? Það var Framsfl. gegn andstöðu Sósfl. Hverjir eru það, er í hv. Nd. voru að enda við að fella till. Sósfl. um, að l. um útrýmingu heilsuspillandi íbúða yrðu látin taka gildi að nýju? Það er Framsfl., og nú fer sami flokkur með stjórn þessara mála. Nú hefur verið tækifæri til að standa við stóru orðin. Það skiptir mestu máli. Hvað hefur flokkurinn látið að sér kveða? Það að fella till. Sósfl. Með gengislækkuninni er að því miðað að stöðva húsabyggingar, og nú síðast með frv., sem rekur barnafjölskyldur út á götuna. Það eru orð í tíma töluð um faríseana, og get ég komið þar með eina tilvitnun, og er þá hægt að draga ályktanir. Hv. þm. var að minna á það fé, sem til húsabygginga er ætlað í gengislækkunarl. Nú veit hv. þm., að þetta er eigi nema lítið brot af því, sem byggingarkostnaðurinn hækkar vegna gengislækkunarl., — þ. e., verði byggt að ráði. Hvað stóreignaskattinn snertir — hver veit um, hvort hann verður innheimtur? Með þessum l., sem Framsfl. hefur staðið að, þ. e. um gengisskráningu o. fl., er mönnum gert enn erfiðara fyrir en áður að byggja yfir sig. Þarf lítið til að hrósa sér af slíku. M. ö. o.: Enn er það frv. verk Framsfl., er hér er til umr. og kastar hinum verst stæðu út á götuna og eykur verðbólguna í landinu mest, að gengislækkunarfrv. undanskildu. Nú langar mig til að minna á skrif Tímans og loforð í húsnæðismálunum. Það er þá Tíminn, fimmtudaginn 22. des. s. l., grein á forsíðu: „Jólasaga úr höfuðstaðnum: Fjöldi Reykvíkinga býr við sárustu örbirgð í örgustu grenjum. Margt af þessu fólki hefur bókstaflega gefizt upp í vonlausri baráttu við húsnæðisleysi, kulda og átakanlegustu neyð.“ Á þá leið eru fyrirsagnirnar, og svo vil ég leyfa mér að lesa dálítið upp, með leyfi hæstv. forseta. (HV: Úr Tímanum? — nei. –Forseti: Ekki ótakmarkað. — GJ: Ekki nema það sem satt er.) Ég trúi því vel, sem hér stendur. Ég skal eigi lesa nema það, sem satt er. (GJ: Það verður þá ekki mikið.)

„Það eru af þeir dagar, að Íslendingar geti hælt sér af því, að hér búi enginn við sára neyð. Mitt í öllum þeim fjáraustri, sem á sér stað, býr nú í höfuðstað landsins fólk, er berst við svo átakanlega neyð, að hvern mann, sem því kynnist, hlýtur að setja hljóðan andspænis svo himinhrópandi eymd.“ Þetta er að loknu þriggja ára stjórnartímabili Framsfl. „Tíðindamaður frá Tímanum hefur nokkuð kynnt sér þau kjör, sem þetta fólk á við að búa, og verða hér nefnd nokkur dæmi þessu til sönnunar. En því fer fjarri, að það, sem hér verður sagt frá, sé einsdæmi, heldur er það spegilmynd af því, sem hundruð manna verða að þola.“ Svo koma margar sögur þessu til staðfestingar. Ég leyfi mér að lesa aðeins eina, enda er sagt, að sögur þessar séu ekkert einsdæmi. Er rétt að nefna dæmi, sem er ágætt.

„Í bragga við Reykjanesbraut búa ung hjón, ættuð af Vesturlandi, bæði innan við þrítugt, ásamt tveimur börnum, dreng og stúlku, tveggja ára og þriggja ára.

„Herbergi“ þeirra er nálægt þrír metrar á hvorn veg, helmingur af bragga úti við gafl. Einhvern tíma hefur þessi skonsa verið veggfóðruð, en þess sér nú lítinn stað. Á loftið hefur verið neglt striga, en síðan bætt hér og þar vaxdúkstætlum. Gaflinn ekkert annað en ber steinninn. Meðfram hurð og víðar eru rifur, sem stinga má fingrum í gegnum, og troðið tuskum hér og þar. Þakjárnið er sundurbrunnið og má reka fingur víðast í gegnum það.

Húsgögnin eru hnéhár ofn, sligaður legubekkur, sem hjónin sofa á með annað barnið, kassi handa hinu, eitt agnarlítið borð og kollóttur stóll. Þarna er ekkert salerni, ekkert vatn, engin skólpleiðsla og engin raflögn. Vatnið verður að sækja langt upp í hlíð. Þar er vatnsból hverfisins. Skólpi og saur er helt í gjótur milli bragganna. Til eldunar er kamína í gangskonsu.

Hjónin, sem þarna búa, eru bæði veik, maðurinn bilaður í baki og getur ekki unnið nema endrum og sinnum. Nú í haust hefur hann verið nokkurn veginn vinnufær, en ekki fengið vinnu, þar til von um fárra daga snöp í fyrradag.“ (GJ: Hér hlýtur að vera farið út fyrir sannleikstakmörkin.) Nei, ekki enn. Þetta er sannleikur. „Börnin eru kirtlaveik og kvefuð, enda klæðlaus með öllu, og drengurinn tveggja ára gamli hefur tvívegis fengið lungnabólgu, frá því kólna tók í haust.

Þessi hjón njóta einskis styrks, og fatnaðurinn, sem þau eiga, er líkastur druslum, sem fólk brygði sér í til óþrifalegustu vinnu, og auk þess skjóllaus, slitinn og stagaður. Í haust átti konan hvorki sokka né skó, svo að hún komst ekki út fyrir húsdyr. Í síðasta kuldakasti áttu þau engin kol, svo að þau urðu að hírast í kuldanum, sem var litlu minni í þessu braggaskrifli en undir berum himni. Allt stokkfraus um nætur.

Sængurklæðnaður þeirra er ein rifin sæng, ekkert ver né lak. — Hvorugt hjónanna neytir áfengis.“ Þá segir um íbúð eina: „Kuldinn er svo mikill í þessari „íbúð“, þegar frost er, að húsmóðirin verður að fara á fætur tvisvar á nóttu til þess að halda við eldi í ofni í „svefnherberginu“, ef ekki á að stofna lífi barnanna í voða. En nú í haust hefur hún ekki átt kol nema stundum. Þegar ekki er hægt að kynda, er slagi svo mikill, að sá, sem hallar sér upp að þili, gegnblotnar, ef hann er ekki sjóklæddur. Þakið á kofanum er eins og pappahimna, sem ekki á annað eftir, en detta í sundur.

Þessi dæmi, sem hér hafa verið nefnd, eru aðeins örfá af mjög mörgum. Í braggahverfum Reykjavíkur og kofahvirfingum úti um holt og hæðir búa mörg hundruð manna við ömurlegri lífskjör heldur en þorri bæjarbúa hefur nokkurn grun um, fullkomna eymd og niðurlægingu.“ . . .

Svo kemur seinasti kafli, sem heitir: Er þetta ekki yfirdrepskapur.

„Við Íslendingar þykjumst fyllast ógn og hryllingi, þegar við heyrum, að fólk hafi verið dæmt til dauða úti í löndum — kannske í hópum. En er ekki eitthvað af hræsni og yfirdrepskap í þessum hrolli, meðan svo er ástatt í höfuðstað landsins sem nú hefur verið lýst?

Með þeirri eymd, sem hér er látin viðgangast, er nefnilega verið að dæma til dauða bæði andlega og líkamlega hópa barna á ýmsum aldri og jafnvel fullorðið fólk líka. Það er hollast fyrir alla að gera sér afdráttarlaust grein fyrir ástandinu, og síðan getur hver og einn stungið hendinni í eigin barm og hugleitt, hvað af ábyrgðinni hann ber.“ Og ég vil biðja hv. þm. að taka vel eftir því. Svo stendur áfram: „Þessir ömurlegu mannabústaðir, sem hér hefur verið lýst og líklega eru verri og ömurlegri, en verstu greni Reykjavíkur á dögum Jörundar hundadagakonungs, eru svo að segja allt í kringum bæinn. Í öllum áttum eru þessi fátækrahverfi sprottin upp — þyrpingar af kofaskriflum, yfirfullum af fólki á mismunandi stigum örbirgðar og vonleysis.“

Já, hér er talað um ábyrgð með mörgum og þungum orðum, og nú er að bera það saman við verk þess flokks, sem að þessu blaði stendur, hv. Framsfl. Skal ég ekki gera það hér, en ég held, að hv. þm. Framsfl. væri það hollt að hugleiða vel þessar hugleiðingar Tímans um ábyrgðina, sem á þeim hvílir, — og nú á hv. Framsfl. leikinn.