02.03.1950
Efri deild: 67. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1467 í B-deild Alþingistíðinda. (2366)

103. mál, skógrækt

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég áttaði mig ekki á því, sem í brtt. felst. Og ég er hræddur um, að þetta sé of flókið og betra sé að hafa engin lagaboð, en svo löng fyrirmæli, sem fremur eru til að sýnast en ná tilgangi sínum. Ég get ekki áttað mig á því, sem í b-lið brtt. greinir, hvað það eigi að tákna: að trjáræktarreitir einstakra manna eiga að geta notið verndar, þótt hreppsnefndir og bæjarstjórnir mæli ekki með því. Talað er um, að þeir falli þá undir umsjá skógræktarstjóra. En ég þarf að átta mig á, hvaða kvaðir muni fylgja þessu. Ég sé ekki, að sanngjarnt sé, að menn þurfi að viðhafa umrædda aðferð, ef þeir hafa gengið vel frá girðingum sínum. En ég efast um, að lagaboð þetta muni koma að ákaflega miklu gagni, ef úttektarmenn hreppsins eiga að vera endanlegir úrskurðarmenn um þessi efni. Það er ekki heldur alltaf tryggt, að þeir séu óvilhallir. Á hinn bóginn hef ég ekki enn séð þá girðingu hér á landi, að sauðskepnan geti ekki einhvers staðar skriðið í gegn. En þetta er matsatriði, og held ég, að um þessi efni þurfi skýrari ákvæði. — Hv. flm. sagði, að menn hefðu borið sig saman við ýmsa aðila. Ég veit nú ekki, hverjir þeir eru, en það mun vera Skógræktarfélag Íslands. En ég tel eigi óeðlilegt, að leitað verði álits Búnaðarfélags Íslands. Er óeðlilegt, að gengið sé lengra í málinu, áður en sá félagsskapur hefur látið uppi umsögn sína. Ég óska því eftir, að málinu verði frestað. Brtt. hv. landbn. er svo flókin, að ekki er hægt að ætla hv. þingmönnum að kynna sér hana til hlítar á þessum fundi.