15.05.1950
Efri deild: 106. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1507 í B-deild Alþingistíðinda. (2493)

93. mál, jarðræktar- og húsagerðarsamþykktir í sveitum

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti.

Það hefur nú komið fram rökst. dagskrá við frv. þetta, og verð ég því að gera grein fyrir málinu í heild og hvernig það stendur nú. Ég vil minna á það, að þegar fyrst kom til tals að setja þau l., sem hér er verið að breyta, var ástandið í ræktunarmálum þannig, að á 24 árum hafði útheysheyskapur landsmanna minnkað úr 1.200 þús. hestburðum niður í 860 þús. hestburði á ári, en töðufengur hafði á sama tíma vaxið úr 650 þús. hestburðum í 1.400 þús. hestburði á ári. Og var mönnum nú orðið ljóst, að undirstaða þess, að landsmenn gætu rekið samkeppnishæfan landbúnað, væri sú, að ræktun ykist í landinu. Aukning töðufengs á þessum árum stafaði af því, að gömlu túnin höfðu verið sléttuð og stækkuð. 1920 höfðu verið 14 plógar til í landinu, en árið 1944 voru þeir orðnir liðlega 1.000. Voru margir þeirra í hreppabúnaðarfélögum, er höguðu mörg vinnunni svo, að menn ferðuðust um með plóga og herfi og unnu fyrir bændur að sléttun gömlu túnanna og nýræktun, en þessi vinna gekk hægt og seint og fór fjarri, að allar jarðir nytu þessara tækja, en þá voru 6.200 jarðir í landinu, en plógar aðeins 1.033. Dráttarvélar voru þá nær engar í landinu, þó komu hingað nokkrar hjóladráttarvélar um 1930, en þær reyndust ekki vel, og stærri hjóladráttarvél kom svo ekki til landsins fyrr en 1941, og hafði vélan. þá ákveðið að flytja aðallega inn vélar, sem væru svo stórar, að þær gætu unnið þau verk, sem af þeim var krafizt. 1942 kom svo ein beltisdráttarvél, 1943 3 og 1944 7. Lögin voru svo sett 1945, og var rauði þráðurinn í þeim, að meðal bænda væru mynduð félög, sem gerðu ræktunarsamþykktir og mynduðu ræktunarsambönd, sem síðan fengju sér vélar til að vinna í félagsvinnu að ræktuninni. Þegar farið var að athuga, hve margar vélar mundi þurfa að kaupa til landsins, var verkfærakaupanefnd beðin að segja álit sitt í þeim efnum, hve margar vélar þyrfti til að fullnægja þörfum landsmanna. Þegar nefndin var beðin um þetta, voru engin ræktunarsambönd í landinu og því óhægt í þessum efnum, svo að nefndin varð að gera áætlun í þessum efnum, en verkfærakaupanefndin ályktar um áramótin 1944–45, að til landsins muni þurfa vélar fyrir um 6 millj. kr. Var þá styrkur ákveðinn 3 millj. kr., eða helmingur upphæðarinnar, og var það samþ. á Alþ. Hugmyndin var, að allir bændur yrðu í einhverju ræktunarsambandi og var gert ráð fyrir, að þeir gætu vænzt styrks, sem næmi helmingi kaupverðs vélanna, eða allt að 3 millj. kr. í allt. Síðan hafa ræktunarsamböndin orðið til og eru nú hér um bil alls staðar á landinu,. Alls eru þau 70 og í þeim nær allir bændur landsins. En þá skeður það, að vélarnar fara hækkandi í verði og kosta nú um 40% meira, en gert var ráð fyrir. Þá hefur það sýnt sig, að sum af samböndunum, sem áttu að fá minni vélarnar, hafa óskað eftir að fá þær stærri, þar sem hinar hafa reynzt illa og eru dýrar í rekstri, þannig að þær 6 millj. króna, sem verja átti í þessu skyni, hrökkva hvergi nærri. Þessum málum er nú svo háttað, að búið er að verja þeim 3 millj. kr., sem upphaflega var ákveðið að verja í þessu skyni, og eru nú 15 ræktunarsambönd af 70 búin að fá þær vélar, sem þau eiga að fá. 37 sambönd eru búin að fá einhvern hlut þess, sem þau eiga að fá, sum aðeins lítinn hluta og sum allt, sem þeim ber, en 18 ræktunarsambönd hafa ekki fengið styrk út á eina einustu vél. Það var athugað nú í vetur, hve mikið þær vélar mundu kosta, sem enn vantar, og er búizt við, að þær muni kosta nær 12 millj. kr., svo að hækka verður framlagið allt að 6 millj. kr. Nú er það því spurningin, hvort samþ. á hina rökst. dagskrá frá hv. þm. Barð. og láta þessi 17 sambönd, sem engan styrk hafa fengið að þessu, — sum í kjördæmi hv. þm. Barð. — engan styrk fá, en láta hin 15 samböndin fá styrk út á allt sitt. Hv. fjvn. hefur verið inni á því að gera þetta ekki, því að hún er búin að fá okkur til að greiða atkv. með 1 millj. kr. framlagi á fjárl. til framkvæmdasjóðs til að greiða styrk út á þessar vélar jafnóðum og þær koma til landsins. Nú tel ég ófært að láta ræktunarsambönd, sem út úr hafa orðið af ýmsum ástæðum, ekkert fá. Ræktunarsamböndin mynduðust fyrst í nærsveitum Reykjavíkur og breiddust síðan út um landið, en voru síðast stofnuð á Austfjörðum og Vestfjörðum, og eru þessi sambönd, sem ekkert hafa fengið, flest þar. Jafnframt og l. bjuggu svo um, að styrkur þessi skyldi vera til að koma starfseminni af stað innan ræktunarsambandanna, var gert ráð fyrir því, að leggja skyldi á vinnu vélanna 15% fyrningargjald, er leggja skyldi í sjóð til að standa undir endurnýjun vélanna. Nú eru til 167 beltisdráttarvélar í landinu, en nokkrar þeirra eru í eigu bæjarfélaga og vegagerðar ríkisins og eru því ekki notaðar til ræktunar, en hinar eru í ræktunarsamböndum og hafa fengið styrk. Vélanefnd ákveður, hvaða gjald skuli leggja á vinnuna til að standa undir viðhaldi vélanna, og með þessu tvennu og breyt., sem nú er verið að gera á l., er ræktunarsamb. veittur þessi styrkur einu sinni og svo ekki meira. Þetta er gert til að auka ræktun og á að gera það að verkum, að landbúnaðarvörur verði ódýrari. Ég get ekki skilið, að það sé mögulegt, að hv. þm. Barð. meini þessa dagskrá, sem hann hefur lagt hér fram. Hún er svo fjarstæð, að ætla að setja alla þá hjá, sem ekki hafa fengið styrk enn þá, og mun það þá aðallega bitna á þeim, sem eru búsettir fjærst höfuðstaðnum, enda hefur slíkt ekki vakað fyrir Alþ. og fjvn., þegar tekin var upp á fjárl. 1 millj. kr. til að halda áfram að greiða þennan styrk, sem þó er ekki mögulegt að greiða að lögunum óbreyttum, því þar er 3 millj. kr. framlagið hámark.

Ég vænti þess, að hv. þm. felli þessa rökst. dagskrá, en samþykki frv. með þeim breytingum, sem ég legg til. Eru breytingarnar aðeins orðalagsbreytingar, sem leiðir af því, að búið er að breyta jarðræktarlögunum. Ég teldi það hróplegt ranglæti, ef neita á þeim jarðræktarsamböndum um styrk, sem skemmst eru á veg komin og helzt eru á útkjálkum, og því trúi ég ekki, að hv. þm. vilji gera sig seka í þessu athæfi.