09.02.1950
Efri deild: 51. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 4 í C-deild Alþingistíðinda. (2554)

104. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég vil taka undir það með hv. 1. þm. N-M., að það fer auðvitað miklu betur á því, þegar hægt er að koma því við — það er ekki alltaf hægt —, en þegar hægt er að koma því við og fyrir liggja till. um margar breyt. á sömu l. á sama þingi, að reyna þá að hafa afgreiðslu þeirra í einu og sama frv. frá þinginu. Því að það eru fleiri en hreppstjórar, sem ruglast af slíkum vinnubrögðum, að afgr. í fleiri lagafrv. breyt. á sömu l. á sama þingi. Með því er öllum, sem um mál fjalla í sambandi við þau l., gert erfiðara fyrir með að átta sig á svo grautarlegri lagasmíði. — Ég hef ekki athugað í sambandi við þetta frv., sem hér liggur fyrir, það frv., sem hv. 1. þm. N-M. minntist á, á þskj. 86. En ég vil taka undir ábendingar þessa hv. þm. um, að hv. nefnd athugaði, hvort hægt sé að sameina þessi tvö lagafrv. eða ekki.

En ég ætlaði annars ekki að gera þetta að umræðuefni hér, heldur taka undir þá till., sem hv. þm. Barð. gerði varðandi sína eigin brtt., að því máli, brtt. hv. þm. Barð., sé skotið á frest til 3. umr. — Í sjálfu sér er það auðvitað hinn mesti ósiður — má segja — að flytja skriflegar brtt., sérstaklega um veigamikil atriði; nema þess sé brýn þörf. Hér er um að ræða breyt., sem mér skilst, að sé allt að því eins veigamikil, ef ekki veigameiri, heldur en sjálft frv., sem fyrir liggur. Og mér finnst, sannast sagt, ekki hægt fyrir hv. þd. að taka afstöðu til þessarar brtt. nú — ég er a. m. k. ekki reiðubúinn til þess — án þess að n. líti á efni hennar áður og segi álit sitt um það og án þess að þingið hafi þetta prentað fyrir augum. Virðist mér, að n. ætti að athuga till. til hlítar. Þessi sama skoðun lýsti sér nokkuð í orðum hv. flm. brtt. En af því að hv. frsm. n. hefur enn ekki borið fram ósk um það, að brtt. verði frestað til 3. umr., vil ég gera það að minni till. og beina því til hv. flm., að hann taki brtt. aftur til 3: umr., til þess að n. geti athugað brtt. þangað til. Annað getur líka verið hagkvæmt, að fresta umr. þessari og gefa út framhaldsnál. Það er líka vel hugsanlegt.