02.05.1950
Efri deild: 95. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 11 í C-deild Alþingistíðinda. (2570)

104. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég á hér brtt. við þetta frv. á þskj. 318, sem ég tók aftur til 3. umr. samkvæmt ósk hv. flm., og gerði ég þá ráð fyrir, að n. athugaði málið aftur og léti í ljós álit sitt á framkomnum brtt. Hv. 11. landsk. hefur að vísu sagt sitt álit á málinu, en ég veit ekki, hvort hann talaði þar fyrir hönd allrar n. eða lét aðeins í ljós sína persónulegu skoðun. Ég sé mér því ekki fært að taka aftur till. mínar. Hv. 11. landsk. lagði áherzlu á það, að þessar till. snertu ekki skógrækt og væri því rangt að koma fram með þær í sambandi við þetta mál. Ég vil benda á, að þetta er rökvilla hjá hv. þm. Framlög til vegagerða snerta ekki framlag til hafnargerða, en hvort tveggja snertir fjárhag ríkisins. Brtt. mínar snerta ekki skógrækt, en hvort tveggja snertir fjárhag ríkisins, till. eru bornar fram við skattalögin, og hefði ég ekki búizt við slíku af jafngreindum manni og lögfróðum. Hv. flm. veður inn á skattamálin í trausti þess, að þm. héldu, að hér væri um skógræktarmál að ræða, sem það er ekki, heldur hreint skattamál, og er hér farið inn á viðkvæma löggjöf. En að benda á, að þetta sé fjandsemi við skógrækt í landinu, er fjarstæða. Ég vil benda á það, að það er ekki meiri ástæða til að gefa skattfríðindi í sambandi við skógrækt, en í sambandi við sandgræðslu, túnrækt eða hvaða ræktun sem er, og ætti hv. þm., sem búinn er að sitja á búnaðarþingi, að sjá þetta manna bezt. Ég hefði ekki kært mig um að sýna fram á þetta, nema af því, að hv. 11. landsk. var að núa okkur því um nasir, að við værum á móti skógrækt. En mér finnst smásálarskapur að fara fram á að fá skattundanþágu fyrir að dunda við að rækta nokkrar trjáplöntur. Mín till. er aftur á móti miklu nauðsynlegri, og held ég fast við hana og vona, að hún verði samþ.