27.04.1950
Neðri deild: 89. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 28 í C-deild Alþingistíðinda. (2625)

141. mál, verðjöfnun á benzíni

Stefán Jóh. Stefánsson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins í sambandi við þetta frv. við þessa umr. málsins benda á þáltill., sem við 5 þm. flytjum í Sþ. og gengur í líka átt og þetta frv., þó að þar sé lagt til, að farið sé inn á aðra leið, en að sumu leyti verður það eins víðtækt, en að öðru leyti víðtækara, sem gert verður í þessum efnum. Ég er þeirrar skoðunar, að í raun og veru sé óþarft að setja löggjöf um verðjöfnunargjald á benzíni, af þeirri ástæðu, að verðlagsyfirvöldin hafa í hendi sinni að ákveða verðið bæði hér í Reykjavík og annars staðar á landinu. Og ef þingvilji væri yfirlýstur um að jafna það, a. m. k. á vissum stöðum úti um landið, miðað við það, sem verðið er í Reykjavík, ætti að vera hægt að koma því við með verðlagsákvörðunum einum saman í sambandi við gildandi l. um verðlagseftirlit. Og ég er þeirrar skoðunar, að verði gengið inn á það að leggja sérstakt verðjöfnunargjald á benzín, þá muni það verða til þess, að verð þess hækkaði a. m. k. verulega þar, sem það er lægst nú, eins og í Reykjavík og nágrenni hennar, og það væri mjög slæmt. Það er bent á það í grg. fyrir till. okkar flm., að lauslegir útreikningar liggi fyrir um það, að vegna þess, hve benzíneyðsla sé mikil í Reykjavík og næsta nágrenni hennar, þar sem benzínverð er það sama, þá mundi ekki þurfa að hækka benzínið, þótt ekki væri beitt frekari verðákvörðunum, meira en um 1 eyri hér í Reykjavík, þó að gert verði það, sem við leggjum til, en við bætum við í grg. till. „ef ekki þætti fært að takmarka meira álagningu olíufélaga.“ Og ég vil taka undir það með hv. 2. þm. Reykv., að mér finnst brýn nauðsyn á og margt benda til þess, að hægt sé að takmarka meira álagningu olíufélaganna, en gert hefur verið. Ég álít því, að réttara væri að fara inn á þá leið, sem við fimmmenningarnir leggjum til í okkar þáltill., heldur en þá leið, sem hér er til umr. nú. Í annan stað vildi ég benda á það, að í okkar þáltill. er lagt til, að sama regla um samræmingu á verðlaginu gildi líka um olíu. Það er kunnara, en frá þurfi að segja, að smábátaútgerðin úti um landið er sízt of sæl af þeim aðbúnaði, sem hún býr við, og það er kannske ekki minni ástæða til að gera ráðstafanir til þess, að olíuverðið úti um landið yrði ekki langtum hærra, en á þeim stöðum, þar sem það er lægst annars staðar á landinu. Ég játa, að það er rétt, að það er mjög slæmur aðbúnaður fyrir þá menn úti um landsbyggðina, sem þurfa að annast sína flutninga að verulegu leyti með vöruflutningabifreiðum, að þurfa að borga jafnvel svo tugum aura skiptir hærra verð fyrir hvern benzínlítra, en hann kostar þar, sem hann er ódýrastur seldur á landinu. Hitt er kannske ekki síður þungbært, að því er snertir undirstöðuatvinnuveg okkar, sjávarútveginn, að smábátaeigendur úti um landið skuli þurfa að búa við slík kjör eins og þeir nú gera.

Ég vildi því skjóta því fram á þessu stigi málsins, að ég teldi, að rétt væri í sambandi við afgreiðslu þessa frv., sem fyrir liggur, að athuga þáltill. okkar og þann tilgang, sem með henni er ætlað að ná, og það af því, að ég tel, að þar sé gengið í happasælli átt og að það sé mjög mikill vafi á því, ef á að jafna verðið á benzíni, að undanskilja olíuna. Ef frv. fer til allshn., gefst þeirri n. vafalaust kostur á að athuga það, sem fram hefur komið á þingi varðandi þetta mál. Vildi ég þá vænta þess, að það yrði tekið til athugunar, hvort sú leið, sem bent er á með þáltill. okkar, sé ekki farsælli og eðlilegri, en sú leið, sem bent er á með frv., sem hér liggur fyrir.